Náttúruverndarnefnd

3034. fundur 21. mars 2002

21. fundur
21.03.2002 kl. 15:00 - 16:45
Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn : Starfsmenn :
Jón Ingi Cæsarsson formaður
Sveinn Heiðar Jónsson
Sólveig Gunnarsdóttir
Anna Björg Björnsdóttir
Bjarni Reykjalín
Jón Birgir Gunnlaugsson
Guðmundur Sigvaldason, fundarritari


1 Ráðstefna um umhverfismál sveitarfélaga 8. mars 2002
2002020035
Gerð grein fyrir ráðstefnunni, sem haldin var 8. mars sl. í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hún var haldin af Samtökum garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga (SAMGUS) í tilefni af 10 ára afmæli þess, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðstefna var fjölmenn og þótti takast vel.


2 Stækkun lóðar á horni Borgarbrautar og Hlíðarbrautar
2002030111
Sótt er um stækkun á áður úthlutaðri lóð fyrir bensínstöð á horni Borgarbrautar og Hlíðarbrautar. Umhverfisráð óskar umsagnar um stækkunarbeiðnina, þar sem stækkunin skerðir verndarsvæði Glerár.
Upphaflega var þessari lóð úthlutað fyrir hefðbundna bensínstöð, en nú liggur fyrir að á henni verður aðallega almennur verslunarrekstur.
Náttúruverndarnefnd telur þá breytingu óheppilega m.t.t. umhverfismála og umferðarmála. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að í Síðu- og Giljahverfum séu hverfisverslanir með góðu aðgengi gangandi og hjólandi.
Nefndin gerir ekki athugasemd við umbeðna stækkun lóðarinnar út af fyrir sig, en hvetur umhverfisráð til að íhuga endurskoðun á úthlutun lóðarinnar vegna þeirrar breytingar sem orðið hefur á fyrirhugaðri nýtingu hennar.3 Dagur umhverfisins 2002
2002020074
Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að árlegur "Dagur umhverfisins" sé 25. apríl. Lögð fram frumdrög að dagskrá dagsins, sbr. ákvörðun síðasta fundar náttúruverndarnefndar.
Náttúruverndarnefnd samþykkir að áfram verði unnið að dagskrá "Dags umhverfisins" í samræmi við framlagt uppkast.


4 Friðlýsing Krossanesborga
2002030113
Í starfsáætlun náttúruverndarnefndar fyrir 2002 segir að unnið skuli að hækkun verndarstigs Krossanesborga.
Ítarlega rætt um þetta mál.
Að umræðum loknum ákvað nefndin að fresta ákvörðun og að fela starfsmanni að afla frekari gagna í málinu.


5 Ráðstefna um umhverfismál í Eyjafirði
2002030114
Til umræðu er hugmynd um að halda haustið 2002 ráðstefnu um umhverfismál í Eyjafirði í samstarfi við ýmsa aðila.
Náttúruverndarnefnd samþykkir að kanna áhuga á samstarfi annarra náttúruverndarnefnda, bygginganefnda og umhverfisnefnda á svæðinu á málinu og að hafa samband við Háskólann á Akureyri, Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktarfélag Eyfirðinga og SUNN um málið.


6 Frumvarp til laga um varnir gegn landbroti - 504. mál
2002020097
Erindi dags. 22. febrúar 2002 frá landbúnaðarnefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um varnir gegn landbroti, 504. mál. Kynnt umsögn um frumvarpið, sem þegar hefur verið send landbúnaðarnefndinni. Þar segir að ekki sé gerð athugasemd við það.


7 Samráðsfundur - Stefnumörkun um sjálfbæra þróun
2002030142
Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneytinu, dags. 18. mars 2002, þar sem boðað er til samráðs nokkurra sveitarfélaga, þ.á.m. Akureyrarbæjar, um stefnumörkun um sjálfbæra þróun. Með bréfinu fylgja ný drög að stefnumörkuninni, en fyrstu drög hennar voru lögð fyrir Umhverfisþing, sem haldið var í janúar 2001. Stefnt er að því að ríkisstjórnin afgreiði stefnumörkunina í vor og að hún verði kynnt á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg í haust. Náttúruverndarnefnd veitti umsögn um þau stefnumörkunardrög sem lögð voru fyrir Umhverfisþingið.
Náttúruverndarnefnd telur að þiggja eigi boðið um þátttöku í ofangreindu samráði.

Fundi slitið.