Náttúruverndarnefnd

3423. fundur 17. október 2002

28. fundur
17.10.2002 kl. 15:00 - 17:15
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn:Starfsmenn:
Ingimar Eydal formaður
Sveinn Heiðar Jónsson
Mínerva B Sverrisdóttir
Íris Dröfn Jónsdóttir
Jóhannes Árnason
Bjarni Reykjalín
Guðmundur Sigvaldason, fundarritari


1 Fundur náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna og Náttúruverndar ríkisins 2002
2002100057
Lagt frá bréf dags. 24. september 2002 frá Náttúruvernd ríkisins þar sem boðað er til samráðsfundar stofnunarinnar með náttúruverndarnefndum sveitarfélaga. Fundurinn verður í Garðabæ 18.- 19. október 2002.
Náttúruverndarnefnd samþykkir að formaður nefndarinnar og verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 sæki fundinn.


2 Starfshópur um útivist
2002100062
Í Staðardagskrá 21 fyrir Akureyri er kveðið á um starfshóp um útivist. Í samþykkt náttúruverndarnefndar 17. janúar 2002 segir að óska eigi eftir tilnefningum í hópinn frá Ferðafélagi Akureyrar, Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Félagi hjartasjúklinga á Akureyri og nágrennis, framkvæmdadeild og umhverfisdeild (1 frá hverjum aðila). Á fundinum var lagt fram minnisblað sem inniheldur m.a. drög að erindisbréfi fyrir starfshópinn.
Náttúruverndarnefnd samþykkir framlögð drög að erindisbréfi starfshóps um útivist á Akureyri. Nefndin samþykkir að haft verði samband við ofangreinda aðila auk Íþróttabandalags Akureyrar, Skátafélagsins Klakks og ferlinefndar fatlaðra um áhuga á þátttöku í starfshópnum á grundvelli erindisbréfsins.


3 Vistvernd í verki
2002080070
Lagt fram bréf dags. 27. ágúst 2002 frá Landvernd þar sem óskað er eftir áframhaldandi samstarfi við Akureyrarbæ og lagt til að samningur um verkefnið "Vistvernd í verki" frá 20. apríl 2001 verði endurnýjaður til tveggja ára.
Náttúruverndarnefnd mælir með því að samningur um "Vistvernd í verki" verði endurnýjaður til tveggja ára frá 20. apríl 2002 að telja.


4 Vinnuhópur um endurvinnsluiðnað
2001110040
Lögð fram skýrsla vinnuhóps um endurvinnslu, sem atvinnumálanefnd lét gera í samræmi við Staðardagskrá 21 fyrir Akureyri. Atvinnumálanefnd hefur afgreitt skýrsluna til náttúruverndarnefndar með þeim orðum að hún gefi gott yfirlit yfir þá möguleika sem eru á þessu sviði, en að ljóst sé að vinna þurfi áfram að þeim hugmyndum sem þar eru, einkum að kanna raunhæfni og kostnað þeirra.
Náttúruverndarnefnd þakkar atvinnumálanefnd fyrir skýrsluna og leggur til að formenn nefndanna móti sameiginlega næsta áfanga í málinu.


5 Umsjónarnefnd með óshólmum Eyjafjarðarár
2001020056
Lagðar fram fundargerðir umsjónarnefndar verndarsvæðisins í óshólmum Eyjafjarðarár frá 23. september og 7. október 2002. Í þeim er greint frá framvindu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.


6 "Johannesburg+Europe" í Kolding - kynnisferð
2002100059
Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi hefur skipulagt ferð til að skoða miðlæga jarðgerð í Svíþjóð og vistvænar byggingar í Danmörku í tengslum við ráðstefnuna "Johannesburg+Europe", sem haldin verður af danska sveitarfélagasambandinu o.fl. í Kolding í Danmörku 3.- 5. nóvember 2002.
Náttúruverndarnefnd samþykkir að formaður nefndarinnar taki þátt í ráðstefnunni og skoðunarferðinni sem fyrirhuguð er í tengslum við hana. Kostnaður greiðist af liðnum 09-320.


7 Ráðstefna um umhverfismál í Eyjafirði
2002030114
Rætt um ráðstefnuna "Umhverfið í Eyjafirði" sem haldin var 11. október sl. af náttúruverndarnefndum í Eyjafirði í samstarfi við nokkra aðila. Ráðstefnuna, sem þótti takast vel, sóttu rúmlega 80 manns. Nefndin þakkaði Guðmundi Sigvaldasyni og öðrum í undirbúningshópi ráðstefnunnar fyrir störf þeirra.

Fundi slitið.