Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál - umsagnarbeiðni

Málsnúmer 2023020536

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 396. fundur - 15.02.2023

Lagt fram til kynningar erindi innviðaráðuneytis dagsett 10. febrúar 2023 þar sem lögð eru fram til umsagnar drög að grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál. Drögin eru liður í vinnu við gerð tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu auk aðgerðaáætlunar sem lögð verður fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.

Umsagnarfrestur er veittur til 19. febrúar nk.
Gerð er athugasemd við þann stutta umsagnarfrest sem veittur er í málinu. Hér er veittur 9 daga frestur og þar af einungis 5 virkir dagar. Mikilvægt er að tími gefist til pólitískrar umfjöllunar og afgreiðslu, ekki síst í jafn viðamiklu og mikilvægu máli og hér um ræðir. Óskar skipulagsráð Akureyrarbæjar eftir rýmri fresti til að veita umsögn sína, að lágmarki 4 vikur. Ef slíkur frestur fæst ekki þá leggur skipulagsráð sérstaka áherslu á að samræmingar sé gætt við skilgreiningar á ólíkum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að tryggja að jafnræðis sé gætt milli ábyrgðar sveitarfélaga í húsnæðismálum. Þá telur Akureyrarbær mikilvægt að endurskoða 15% kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í nýbyggingum ríkins.

Bæjarstjórn - 3524. fundur - 21.02.2023

Umræða um grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál sem er til umsagnar í Samráðsgátt. Grænbókin er liður í vinnu við gerð tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu auk aðgerðaáætlunar sem lögð verður fram á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 15. febrúar sl. og gagnrýndi stuttan umsagnarfrest í málinu, en fresturinn hefur nú verið lengdur til 1. mars.

Skipulagsráð lagði áherslu á að samræmingar sé gætt við skilgreiningar á ólíkum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að tryggja að jafnræðis sé gætt milli ábyrgðar sveitarfélaga í húsnæðismálum. Þá bókaði skipulagsráð um mikilvægi þess að endurskoða 15% kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í nýbyggingum ríkins.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti efni grænbókarinnar og lagði fram tillögu að bókun. Auk hennar tóku til máls Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Hilda Jana Gísladóttir.
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun með 11 samhljóða atkvæðum:

Bæjarstjórn tekur undir bókun skipulagsráðs þar sem lögð er áhersla á að samræmingar sé gætt við skilgreiningar á ólíkum búsetuúrræðum og að leitað verði leiða til að tryggja að jafnræðis sé gætt milli ábyrgðar sveitarfélaga í húsnæðismálum. Þá telur bæjarstjórn mikilvægt að skoðað verði hvernig kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga á nýbyggingum svo sem hjúkrunarheimilum og framhaldsskólum eigi að vera til framtíðar með það að leiðarljósi að einfalda rekstur og ábyrgð.