Gjaldskrá velferðarsviðs árið 2023

Málsnúmer 2022090639

Vakta málsnúmer

Velferðarráð - 1356. fundur - 28.09.2022

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs fyrir 2023.

Lagt er til að almennt hækki gjaldskráin um 10%. Um er að ræða hækkun í félagslegri heimaþjónustu, heimsendum mat og matarkostnaði í skammtímaþjónustu.

Kolbeinn Aðalsteinsson forstöðumaður skrifstofu sat fundinn undir þessum lið.
Velferðarráð samþykkir að fresta málinu til frekari skoðunar.

Elsa María Guðmundsdóttir S-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Í ljósi aðstæðna í efnahagsmálum telur undirrituð afar brýnt að velferðarsvið Akureyrarbæjar reyni eftir fremsta megni að stilla gjaldskrárhækkunum í hóf. Skarpar verðhækkanir á borð við boðaða 10% hækkun á öllum verðskrám koma til með að hafa mikil áhrif á tekjulága og viðkvæma hópa. Leita ætti allra leiða til að vernda hópa í viðkvæmri stöðu þar sem þeir reiða sig á þjónustu í nærsamfélaginu og jafnframt munu almennar hækkanir, ásamt skörpum hækkunum á gjaldskrá Akureyrarbæjar, koma einna verst niður á þessum sömu hópum. Nú þegar er t.d. verð á heimsendum mat mun hærra hjá Akureyrarbæ, sé litið til þeirra sveitarfélaga sem við berum okkur saman við.

Alfa Dröfn Jóhannsdóttir B-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Framsókn getur ekki samþykkt þessa hækkun. Við slíka gjaldskrárhækkun eins og hér er lögð til er nauðsynlegt að taka tillit til þess að um ræðir okkar viðkvæmasta hóp efnalítilla einstaklinga. Þessi hópur á ekki að líða fyrir slétta 10% hækkun á alla málaflokka.

Málfríður Stefanía Þórðardóttir F-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Í tillögu að breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs Akureyrarbæjar er lagt til að gjaldskrá hækki um 10% á félagslegri heimaþjónustu, á heimsendum mat og matarkostnaði í skammtímaþjónustu. Flokkur fólksins er alfarið á móti því að verið sé að hækka gjaldskrá á þessum viðkvæma hópi nú þegar verðbólga er há og allt er að hækka. Með gjaldskrárhækkunum er höggvið í þá sem minnst mega sín. Flokkur fólksins leggur til að gjaldskrár til viðkvæmra hópa verði frystar.

Velferðarráð - 1357. fundur - 11.10.2022

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs fyrir 2023. Lagt er til að almennt hækki gjaldskráin um 10%. Um er að ræða hækkun í félagslegri heimaþjónustu, heimsendum mat og matarkostnaði í skammtímaþjónustu.

Kolbeinn Aðalsteinsson forstöðumaður skrifstofu sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð frestar málinu.

Alfa Jóhannsdóttir B-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Þegar ákvarðanir eru teknar um gjaldskrárhækkanir þá er mikilvægt að huga að eðli þjónustunnar og hvaða hópa við viljum sérstaklega vernda. Væri eðlilegast að hafa til hliðsjónar þær forsendur sem birtast í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarstjórna dagsett 23. ágúst 2022 þegar ákvörðun er tekin um hæstu mögulega hækkun og miða við að hún sé ekki meiri en 7,5%.

Karl Liljendal Hólmgeirsson M-lista leggur fram eftirfarandi bókun:

Óskað er eftir að fresta ákvörðun um hækkun verðs á matarskammti í heimsendingu. Í stefnu Miðflokksins er tekið skýrt fram að lækka skuli kostnað við heimsendingu á mat. Í ljósi þess þá óskar undirritaður eftir að fresta þessum lið gjaldskrárhækkana þangað til frekari rannsókn sviðsstjóra- og starfsmanna velferðarráðs á matarkostnaði samanborið við önnur sveitarfélög kemur í ljós.

Velferðarráð - 1360. fundur - 23.11.2022

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs fyrir 2023. Lagt er til að almennt hækki gjaldskráin um 7,5%. Um er að ræða hækkun í félagslegri heimaþjónustu, heimsendum mat og matarkostnaði í skammtímaþjónustu.
Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti tillögu að breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs 2023 og vísar málinu áfram til bæjarráðs.


Anna Fanney Stefánsdóttir L- lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista,
Hermann Ingi Arason V-lista, Alfa Dröfn Jóhannsdóttir B-lista samþykktu tillöguna.


Karl Liljendal Hólmgeirsson M-lista sat hjá.


Karl Liljendal Hólmgeirsson M-lista lagði fram eftirfarandi bókun: Ég lýsi yfir óánægju með að málið komi á fundardagskrá til úrlausnar án þess að umbeðnar upplýsingar hafi komið fram. Alfa Dröfn Jóhannsdóttir B-Lista, Málfríður Þórðardóttir F-lista og Elsa María Guðmundsdóttir S-lista tóku undir bókun.