Kaupvangsstræti 31 - Píludeild Þórs - beiðni um umsögn - rekstrarleyfi

Málsnúmer 2022051152

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3775. fundur - 14.07.2022

Erindi dagsett 18. maí 2022 frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar Reimars Helgasonar kt. 190368-5729 um rekstrarleyfi samkvæmt flokki II fyrir veitingaleyfi G að Kaupvangsstræti 31, Akureyri.

Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 veitir sýslumaður leyfi til sölu og veitingar hvers kyns veitinga í atvinnuskyni á veitingastöðum, þar á meðal til veitingastaða sem selja áfengi, að fengnum umsögnum lögreglustjóra, heilbrigðisnefnda, sveitarstjórnar, slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila.

Umsækjandi er deild innan íþróttafélags sem sótt hefur um vínveitingaleyfi (rekstur veitinga í flokki II), í húsnæði píludeildar í íþróttahúsinu við Laugargötu.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir eftirfarandi umsögn:

Akureyrarbær hefur í tvígang veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar um vínveitingaleyfi í húsnæði sem tengd eru íþróttastarfsemi; í golfskála að Jaðri og í skíðahóteli í Hlíðarfjalli. Í þeim húsakynnum eru sérstakir veitingasalir og fullbúin eldhús þar sem jafnframt er framreiddur matur sem boðinn er viðskiptavinum í atvinnuskyni, til neyslu á staðnum. Í umræddum húsakynnum að Kaupvangsstræti er hvorki veitingastaður né frameiddur matur til sölu, enda er sú starfsemi ekki meginstarfsemi píludeildarinnar.

Undanfarið hefur borið á því að seldir hafa verið áfengir drykkir á íþróttakappleikjum á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilvikum hefur verið sótt um tækifærisleyfi í hvert sinn sem leikir hafa farið fram. Um tækifærisleyfi til áfengisveitinga er sótt við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innandyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi eru eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi.

Með vísan til alls framangreinds getur bæjarráð ekki veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar Píludeildar Þórs, en bendir félaginu á að heimilt er að sækja um tækifærisleyfi vegna einstaks tilefnis.

Sindri Kristjánsson S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista sitja hjá.