Hinseginleikinn

Málsnúmer 2021091277

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð - 20. fundur - 28.09.2021

Helga Sóley G. Tulinius kynnti.

Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara og við þurfum að þróast með því. Hinseginleikinn snertir alla og sérstaklega ungmenni þar sem opinberlega hinsegin ungmennum fjölgar með hverju ári. Við þurfum að sýna að við styðjum þau og að þau séu velkomin hér. Þetta er sérstaklega mikilvægt í skólum landsins. Ungt fólk eyðir miklum tíma í skólum og skólinn er einn aðalmótunarstaður þess. Skólinn á að vera staður þar sem ungt fólk getur lært, blómstrað og verið það sjálft. Því miður er það ekki staðreynd fyrir alla og eru hinsegin krakkar of oft í þeim hópi. Skólar þurfa að vera opnari fyrir hinsegin og kynsegin krökkum. Það þarf að vera meiri fræðsla og það þarf einnig að normalisera hinseginleikann, að hann sé eðlilegur hluti af skólalífinu. Of margir hinsegin krakkar verða fyrir einelti og útilokun frá jafnöldrum sínum vegna fáfræði.

Góð fræðsla fyrir ungmenni er mikilvæg en ekki síður þannig að þeir sem vinna með ungmennum séu vel að sér í málefninu, taki á því sem upp kemur og séu til staðar fyrir hinsegin ungmenni með skilningi.

Mikilvægt er að Akureyrarbær geri skólum bæjarins kleift að sinna þessum málum og að passað verði upp á að fræðslan komi inn í skólana, bæði til kennara og nemenda.


Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði Helgu Sóleyju fyrir góða brýningu og tillögur. Hún sagði það einlægan vilja bæjarfulltrúa að reynt verði að uppræta einelti af hvaða tagi sem er.