Lokun fangelsisins á Akureyri

Málsnúmer 2020090172

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3696. fundur - 10.09.2020

Rætt um lokun fangelsisins á Akureyri.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri mætti á fund bæjarráðs.
Bæjarráð þakkar Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra á Norðurlandi eystra fyrir komuna og greinargóð svör.

Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Vísar bæjarráð málinu til umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn - 3479. fundur - 15.09.2020

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. september 2020:

Rætt um lokun fangelsisins á Akureyri.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri mætti á fund bæjarráðs.

Bæjarráð þakkar Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra á Norðurlandi eystra fyrir komuna og greinargóð svör.

Bæjarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Vísar bæjarráð málinu til umræðu í bæjarstjórn.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið.

Í umræðum tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir og Gunnar Gíslason.
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að loka fangelsinu á Akureyri. Það veldur einnig vonbrigðum að ekki skuli hafa verið haft samráð við bæjarstjórn áður en ákvörðun lá fyrir. Fjölgun um 4 stöðugildi í lögreglunni nú í kjölfar lokunarinnar er í raun lágmarksviðbragð til þess að gera lögreglunni kleift að sinna hlutverki sínu, samkvæmt áliti ríkislögreglustjóra. Fram hefur komið í samtölum við lögregluna á Norðurlandi eystra að bæta þurfi við minnst 6 stöðugildum til að efla löggæsluna í kjölfar lokunarinnar.

Það er rétt að löggæsla á Norðurlandi eystra hafði verið efld með tilkomu fjármagns til að sinna hálendisgæslu og landamæravörslu, en það hefur ekkert með lokun fangelsisins að gera. Sú aukning kom til vegna ærinna verkefna sem lágu fyrir og það sama á við um fjölgun í sérsveitinni um 1 stöðugildi, þannig að þau eru nú 2, sem er algjör lágmarksmönnun. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um fjárreiður, stjórnsýslu og stjórnarhætti ríkislögreglustjóra, sem lögð var fram á þessu ári, að árið 2018 voru 1,7 stöðugildi lögreglumanna á hverja 1000 íbúa í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Það hlutfall var með því lægsta sem gerist á landinu og breytist lítið þrátt fyrir að 4 stöðugildi bætist við nú. Eftir þessa fjölgun eru 56 föst stöðugildi lögreglumanna í stað 52 áður sem þýðir að það verða 1,8 stöðugildi á hverja 1000 íbúa sem er áfram með því allra lægsta sem gerist.

Þessi staða er með öllu óásættanleg og því hvetur bæjarstjórn dómsmálaráðherra til að bregðast við og bæta minnst 6 stöðugildum við embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.