Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri - rekstraryfirlit

Málsnúmer 2019100148

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 286. fundur - 10.10.2019

Lagt fram til kynningar rekstraryfirlit fyrir Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akureyri. Nokkur umræða fer nú fram um rekstur upplýsingamiðstöða og hefur Ferðamálastofa látið að því liggja síðustu ár að hún muni f.h. ríkisins hætta fjárhagslegum stuðningi við miðstöðvar víðsvegar um landið og taka upp rafræna þjónustu þess í stað. Ekki liggur fyrir hvernig sú þjónusta myndi leysa af hólmi þá þjónustu sem veitt er augliti til auglitis af upplýsingafulltrúum. Brýnt er að fá botn í þau mál. Auk þessa hefur verið rætt um mikilvægi þjónustu upplýsingamiðstöðvarinnar fyrir farþega skemmtiferðaskipa og mögulega aðkomu Hafnasamlags Norðurlands að rekstrinum.
Stjórn Akureyrarstofu felur deildarstjóra að leita skýrra svara hjá Ferðamálastofu um aðkomu ríkisins og að efna til samráðsfundar með fulltrúum frá stjórn Hafnasamlagsins, fulltrúum nágrannasveitarfélaga og fulltrúum hagsmunaaðila um þeirra sýn á þjónustu Upplýsingamiðstöðavarinnar á Akureyri og þróun hennar til framtíðar.

Stjórn Akureyrarstofu - 292. fundur - 09.01.2020

Eins og áður hefur verið til umræðu í stjórn Akureyrarstofu hefur Ferðamálastofa gefið til kynna að hugsanlega verði stuðningi ríkisins við rekstur upplýsingamiðstöðva víðsvegar um landið hætt. Í lok síðasta árs kom loks tilkynningin frá stofnuninni um að beinum stuðningi við miðstöðvarnar verði hætt frá og með árinu 2020.

Þess í stað hefur fjármunum sem í stuðninginn fóru verið úthlutað til Markaðsstofa landshlutanna og er þeim í sjálfsvald sett hvort þeir renna til upplýsingamiðstöðva eins og áður að öllu leyti eða að hluta eða hvort þeir verða nýttir til að auka upplýsingagjöf með rafrænum hætti. Er þetta gert m.a. með þeim rökum að nú sé unnið að stofnun áfangastaðastofa á grunni markaðsstofanna og að í þeirra verkahring verði að annast upplýsingamiðlun til ferðamanna.
Stjórn Akureyrarstofu telur með hliðsjón af þessu nauðsynlegt að Akureyrarbær endurskoði aðkomu sína að rekstri Upplýsingamiðstöðvar. Til stendur að halda fund með hagsmunaaðilum til að ræða framtíð Upplýsingamiðstöðvar og markaðssetningar ferðaþjónustunnar á svæðinu, ekki síst í því ljósi að opna eigi aðra gátt inn í landið og hún verði á Akureyri.