Brynja, Hússjóður Öryrkjabandalagsins - umsókn um stofnframlag 2018-2019

Málsnúmer 2018110012

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3616. fundur - 08.11.2018

Erindi dagsett 30. október 2018 frá Birni Arnari Magnússyni f.h. Brynju, Hússjóðs Öryrkjabandalagsins þar sem óskað er eftir vilyrði fyrir stofnframlagi vegna kaupa á tíu tveggja herbergja íbúðum.
Bæjarráð fagnar áformum Brynju, Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, gefur vilyrði fyrir stofnframlagi á árinu 2019 og vísar fjármögnun til fjárhagsáætlunar.

Bæjarráð - 3628. fundur - 21.02.2019

Erindi dagsett 12. febrúar 2019 frá Birni Arnari Magnússyni f.h. Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins þar sem tilkynnt er að vegna höfnunar Íbúðalánasjóðs á stofnframlagi muni Brynja ekki fjárfesta í nýjum íbúðum á Akureyri á árinu 2019.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð lýsir yfir mikilli óánægju með synjun Íbúðalánasjóðs á stofnframlagi til handa Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Brynja ráðgerði að kaupa 10 íbúðir í nýbyggingum á Akureyri sem ætlaðar voru öryrkjum og var umsóknin byggð á lögum um almennar íbúðir. Brynja hafði þegar fengið vilyrði Akureyrarbæjar fyrir stofnframlagi sveitarfélagsins og gert var ráð fyrir því í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2019.

Það skýtur skökku við að synjun Íbúðalánasjóðs byggir á að umsóknir um stofnframlög séu langt umfram það fjármagn sem til úthlutunar er og vísað til þess að leggja eigi áherslu á nýbyggingar og því falli umsókn Brynju ekki eins vel að markmiðum laganna þar sem nýbyggingar skuli njóta forgangs.

Vill bæjarráð vekja athygli Íbúðalánasjóðs á að alltaf hefur legið fyrir að Brynja leggur áherslu á að kaupa íbúðir í nýbyggingum og því hljóti umsókn félagsins að falla undir markmið laganna. Þá telur bæjarráð mikilvægt að horft sé til þess að stofnframlögum er ætlað að stuðla að uppbyggingu almennra leiguíbúða á landinu öllu. Skorar bæjarráð á Íbúðalánasjóð að endurskoða afstöðu sína nú þegar.