Samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar - áheyrnarfulltrúar

Málsnúmer 2018070009

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3602. fundur - 05.07.2018

Lögð fram tillaga um að Ingu Þöll Þórgnýsdóttur bæjarlögmanni verði falið að útbúa minnisblað um túlkun á ákvæðum í bæjarmálasamþykkt og sveitarstjórnarlögum um rétt framboða til skipunar áheyrnarfulltrúa í nefndum og ráðum og rétt áheyrnarfulltrúa til bókana á fundum nefnda og ráða.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna með þremur atkvæðum gegn atkvæðum Evu Hrundar Einarsdóttur D-lista og Gunnars Gíslasonar D-lista.

Eva Hrund Einarsdóttir D-lista, Gunnar Gíslason D-lista, Hlynur Jóhannsson M-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista óska bókað:

Við teljum enga ástæðu til að fara í þessa vinnu þar sem samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar kveður nú þegar skýrt á um þetta atriði. Það liggur einnig fyrir að farið hefur verið fram á álit sveitarstjórnarráðuneytisins vegna kosninga í borgarráð Reykjavíkurborgar.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista og Unnar Jónsson S-lista óska bókað:

Við teljum mikilvægt að Akureyrarbær skoði mismunandi túlkun á ákvæðum samþykkta, líkt og önnur sveitarfélög. Ennfremur teljum við æskilegt að samþykkt bæjarins feli í sér hvata til þess að taka sæti í ráðum og í því sambandi verði skoðað hvort ástæða sé til að taka undir eftirfarandi túlkun Reykjavíkurborgar um rétt á áheyrnarfulltrúa;

Þá teljist flokkur hafa „náð kjöri“ í borgar- eða bæjarráð styðji hann lista sem nær inn manni og á hann því ekki rétt á áheyrnarfulltrúa.