Tónlistarskólinn 2017-2018

Málsnúmer 2017050213

Vakta málsnúmer

Fræðsluráð - 11. fundur - 12.06.2017

Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri tónlistarskólans mætti á fundinn og fór yfir starfsemi tónlistarskólans á liðnum vetri og nýsköpun í skólastarfinu á hausti komanda.

Hjörleifur sagði frá þremur verkefnum sem áætlað er að fari af stað í haust:

1. Söngsalir í leik- og grunnskólum í samstarfi við leik- og grunnskóla bæjarins.

Tónlistarkennarar fara í alla skólana og kenna og þjálfa ákveðna söngva sem allir læra. Hverri önn lýkur síðan með stórum söngtónleikum í Hofi með undirleik nemendahljómsveitar úr tónlistarskólanum. Markmiðið er að auka tónlistariðkun í skólunum og auka gleði og samkennd.

2. "Þriðja leiðin" í tónlistarkennslu. Hún byggir á því að mæta þörfum þeirra nemenda sem vilja spreyta sig í opnari leið í tónlistarnámi. Mótuð hefur verið sérstök námskrá fyrir verkefnið sem verður tilraunakeyrð næsta vetur.

3. Tónlistarnámsbraut á framhaldsskólastigi.

Um er að ræða samstarf við Menntaskólann á Akureyri þar sem mótuð hefur verið þriggja ára námskrá í tónlist til stúdentsprófs. Óskað hefur verið eftir fjármagni frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til að hefja námsbrautina haustið 2017.

Fræðsluráð fagnar þeirri miklu nýsköpun sem tónlistarskólinn er að vinna að í tónlistarkennslu á svæðinu.

Fræðsluráð hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti til að leggja fjármagn í tónlistarbraut á framhaldsskólastigi fyrir nemendur sem hyggja á háskólanám í tónlist, í samstarfi Tónlistarskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri. Öll þekking og aðstaða er til staðar og má þar m.a. nefna starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, heimavist menntaskólans og mikla faglega þekkingu í tónlist á staðnum.