Landsnet - mat á umhverfisáhrifum Hólasandslínu 3

Málsnúmer 2016120162

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 250. fundur - 11.01.2017

Erindi dagsett 16. desember 2016 þar sem Friðrika Marteinsdóttir f.h. Landsnets hf. upplýsir landeigendur á fyrirhugaðri línuleið Hólasandslínu 3 um vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Drög að matsáætlun fylgja og óskað er eftir athugasemdum við drögin fyrir 18. janúar 2017.
Akureyrarbær leggur áherslu á að metnar verði tvær leiðir jarðstrengja milli Rangárvalla og Vaðlaheiðar. Annars vegar upphafleg tillaga Landsnets og hins vegar leið sem byggir á samnýtingu strengleiðar og reiðstíga.

Skipulagsráð - 253. fundur - 01.02.2017

Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 16. desember 2016 þar sem Friðrika Marteinsdóttir f.h. Landsnets hf. upplýsir landeigendur á fyrirhugaðri línuleið Hólasandslínu 3 um vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Meðfylgjandi eru drög að matsáætlun.

Óskað er eftir athugasemdum við drögin fyrir 18. janúar 2017.
Skipulagsráð fagnar því að vinna eigi sér nú stað við umhverfismat Hólasandslínu 3 enda brýnt að hraða framkvæmdum eftir getu og stuðla þannig að bættu afhendingaröryggi raforku inn á Eyjafjarðarsvæðið - enda ekki vanþörf á.

Eftirfarandi eru þau atriði sem skipulagsráð Akureyrarbæjar áréttar að verði fylgt sérstaklega eftir við framkvæmd umhverfismats Hólasandslínu 3.

1. Skipulagsráð leggur áherslu á að fram fari beinn samanburður í umhverfismati á tillögum um loftlínu og jarðstreng gegnum land Akureyrarkaupstaðar, þar sem horft verður sérstaklega á áhrif á þéttbýli, fólkvang á Glerárdal og ferðaþjónustu samanber viðmið í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

2. Áhrif á flugöryggi. Samkvæmt tillögu er ekki fyrirhugað að meta mismunandi áhrif línu og strengs í Eyjafirði (Sjá kafla 5.6) á flugöryggi við Akureyrarflugvöll, sem er þó grunnur að stefnu stjórnvalda um raflínur og flugöryggi (kafli 2.4.2.2.).

3. Áhrif á farveg Eyjafjarðarár við þverun jarðstrengs. Sjá kafla 5.6.3.1. Vantar að greina hvaða kostur hefur lágmarksáhrif. Samkvæmt tillögu verður undirborun ekki skoðuð, en hún er t.d. fyrsti valkostur við samskonar aðstæður í Danmörku, þar sem aðferðin raskar ekki farvegi árinnar.

4. Að metnar verði tvær leiðir jarðstrengja milli Rangárvalla og Vaðlaheiðar. Annars vegar upphafleg tillaga Landsnets og hins vegar leið sem byggir á samnýtingu strengleiðar og reiðstíga.



Skipulagsráð bendir á að Aðalskipulag Akureyrarbæjar fyrir 2018-2030 er nú í endurskoðun og er áætluð gildistaka vorið 2018. Ráðið lýsir sig reiðubúið til samvinnu þannig að nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi vegna Hólasandslínu 3 geti haldist í hendur við endurskoðun skipulagsins.

Skipulagsráð - 274. fundur - 27.09.2017

Erindi dagsett 15. september 2017 þar sem EFLA hf., fyrir hönd Landsnets ehf., kt. 630204-3480, óskar eftir heimild til að fara í jarðkönnun um land í eigu Akureyrarkaupstaðar til að kanna jarðstrengsstæði vegna lagningu Hólasandslínu.
Skipulagsráð samþykkir erindið, en bendir umsækjanda á að hafa samráð við verkefnastjóra umhverfismála og Minjavernd Íslands.