Skáldahúsin á Akureyri - samningar og rekstur 2016

Málsnúmer 2016100062

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 216. fundur - 06.10.2016

Rætt um stuðning ríkisins við skáldahús á Íslandi.

Brynhildur Pétursdóttir alþingismaður hefur beint fyrirspurnum til menntamálaráðherra vegna þeirrar staðreyndar að sum skáldahús á landinu njóta beins stuðings menntamálaráðuneytisins en önnur ekki. Þannig fær Skriðuklaustur 34 mkr. frá ríki skv. fjárlögum ársins 2016, Snorrastofa 36 mkr., Gljúfrasteinn 38 mkr. og Þórbergssetur 10 mkr. Samtals fá þessi 4 söfn og setur um 118 mkr. úr ríkissjóði. Á sama tíma fá skáldahúsin þrjú á Akureyri, Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir engan beinan stuðning frá ríkinu.



Í svörum ráðherra er m.a. nefnt að fyrirkomulagi styrkveitinga hafi verið breytt þegar fjárlaganefnd hætti að veita beina styrki til félaga, samtaka og einstaklinga sem fluttust þá að hluta til ráðuneyta en að hluta til menningarsamninga við landshlutasamtök.

Hér á svæðinu var aðilum bent á að sækja stuðning til Menningarráðs Eyþings en um leið og verkefnið var flutt þangað voru framlög lækkuð. Einnig hefur verið vísað til menningarsamnings Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins en skáldahúsin eru ekki hluti af verkefnum hans.



Brynhildur hefur í viðbrögðum sínum fagnað því að sum skáldahús skuli fá beinan stuðning en bent á að rekstur skáldahúsanna á Akureyri sé erfiður og að ekki gangi að það sé tilviljanakennt hvernig stuðningi ráðuneytisins til slíkra verkefna á landinu sé háttað. Hún bendir á að skáldahúsin á Akureyri séu hluti af menningararfleifð þjóðarinnar og ættu því að njóta sömu stöðu og samskonar verkefni annars staðar. Þá hefur hún skorað á ráðherra að breyta þessu.
Stjórn Akureyrarstofu tekur í einu og öllu undir með Brynhildi Pétursdóttur alþingismanni og þakkar liðsinnið. Jafnframt skorar stjórnin á menntamálaráðherra að breyta stöðu skáldahúsanna á Akureyri þannig að hún verði sambærileg við þau sem nefnd eru hér að ofan. Það er ekki einkamál Akureyrarbæjar að halda á lofti minningu þjóðskáldanna Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og Matthíasar Jochumssonar eða barnabókahöfundarins Jóns Sveinssonar og sjálfsagt að ríkissjóður leggi þar hönd á plóg með beinum hætti. Til samanburðar má nefna að engum kæmi til hugar að sveitarfélagið Mosfellsbær reki upp á eigin spýtur Gljúfrastein til minningar um nóbelsskáldið Halldór Laxness.

Stjórn Akureyrarstofu - 221. fundur - 14.12.2016

Borist hefur tillaga að nýjum samningi milli Akureyrarbæjar og Minjasafnsins á Akureyri um rekstur Skáldahúsanna á Akureyri, Davíðshúss, Nonnahúss og Sigurhæða. Markmiðið er að ábyrgð á rekstri húsanna færist yfir til Minjasafnsins og að gerður verði einn samningur í stað tveggja eins og nú er.
Stjórn Akureyrarstofu er sammála því að skýra ábyrgð í nýjum samningi og að gerður verði einn samningur. Stjórnin samþykkir að formaður og framkvæmdastjóri taki upp viðræður við fulltrúa Minjsafnsins um efni samningsins og fjárhæðir.

Stjórn Akureyrarstofu - 228. fundur - 23.03.2017

Lögð fram til kynningar drög að samningi við Minjasafnið á Akureyri vegna reksturs skáldahúsanna Nonnahúss, Sigurhæða og Davíðshúss. Til skoðunar er að Sigurhæðir verði gerð að rithöfunda- og fræðimannaíbúð.
Deildarstjóra Akureyrarstofu falið að vinna áfram að málinu.

Stjórn Akureyrarstofu - 231. fundur - 11.05.2017

Erindi tekið fyrir að nýju. Á fundi stjórnar Akureyrarstofu þann 23. mars sl. var deildarstjóra Akureyrarstofu falið að vinna málið áfram. Lokadrög að samningi við Minjasafnið um rekstur Skáldasafnanna á Akureyri lögð fram.
Stjórn Akureyrarstofu felur deildarstjóra Akureyrarstofu að fullgera samninginn út frá umræðu á fundinum og leggja fyrir næsta fund.

Stjórn Akureyrarstofu - 232. fundur - 01.06.2017

Samningur um rekstur Skáldasafnanna lagður fram til samþykktar. Deildarstjóri Akureyrarstofu fór yfir samninginn.
Minjasafnið á Akureyri tekur að sér umsjón með rekstri og faglegu safnastarfi skáldahúsanna, Nonnahúss og Davíðshúss, fyrir hönd Akureyrarstofu á grundvelli safnalaga nr. 141/2011 og þeim viðmiðunum sem sett eru af höfuðsöfnum.

Í þriðja skáldahúsinu,Sigurhæðum, er stefnt að því að sett verði á fót gestaíbúð fyrir rithöfunda- og fræðimenn sem verði til útleigu og að formlegu sýningarhaldi í húsinu verði því hætt. Hlutverk Minjasafnsins á Sigurhæðum verður að hafa umsjón og eftirlit með safngripum á Sigurhæðum. Umsjón með starfsemi og húsnæðinu í hinu nýja setri á Sigurhæðum verður hjá Amtsbókasafninu.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem rætt var um á fundinum og vísar honum til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð - 3558. fundur - 22.06.2017

2. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dagsett 1. júní 2017:

Samningur um rekstur Skáldasafnanna lagður fram til samþykktar. Deildarstjóri Akureyrarstofu fór yfir samninginn.

Minjasafnið á Akureyri tekur að sér umsjón með rekstri og faglegu safnastarfi skáldahúsanna, Nonnahúss og Davíðshúss, fyrir hönd Akureyrarstofu á grundvelli safnalaga nr. 141/2011 og þeim viðmiðunum sem sett eru af höfuðsöfnum. Í þriðja skáldahúsinu, Sigurhæðum, er stefnt að því að sett verði á fót gestaíbúð fyrir rithöfunda og fræðimenn sem verði til útleigu og að formlegu sýningarhaldi í húsinu verði því hætt. Hlutverk Minjasafnsins á Sigurhæðum verður að hafa umsjón og eftirlit með safngripum á Sigurhæðum. Umsjón með starfsemi og húsnæðinu í hinu nýja setri á Sigurhæðum verður hjá Amtsbókasafninu. Stjórn Akureyrarstofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem rætt var um á fundinum og vísar honum til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð staðfestir samninginn vegna ársins 2017 en vísar útgjöldum vegna áranna 2018 og 2019 til gerðar fjárhagsáætlunar.