Réttarhvammur - Rangárvellir - fyrirspurn um göngu- og hjólastíg

Málsnúmer 2016100020

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 244. fundur - 12.10.2016

Erindi dagsett 3. október 2016 þar sem Baldur Dýrfjörð fyrir hönd Norðurorku hf., kt. 550978-0169, óskar eftir að metið verði hvort nýr göngu- og hjólastígur frá Réttarhvammi að Rangárvöllum væri skipulagsskyldur. Meðfylgjandi er greinargerð vegna forhönnunar stígsins, uppdráttur og forkostnaðaráætlun, dagsett 8. júní 2016 og unnið af Ingvari Ívarssyni hjá Landslagi.
Skipulagsnefnd telur að stígurinn sé ekki skipulagsskyldur. Í aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem óbyggt svæði. Sækja þarf um framkvæmdaleyfi fyrir gerð stígsins.

Skipulagsráð - 257. fundur - 08.03.2017

Erindi dagsett 21. febrúar 2017 þar sem Kristinn Magnússon f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrar og Norðurorku sækir um framkvæmdaleyfi fyrir nýjan göngu- og hjólreiðastíg upp að Rangárvöllum á opnu óbyggðu svæði norðan Hlíðarfjallsvegar, milli Réttarhvamms og Rangárvalla og með tengingu til norðurs að Giljahverfi.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmda við göngu- og hjólastíg og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsráð".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarkaupstað en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.