Alþingiskosningar 2016

Málsnúmer 2016090001

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3523. fundur - 29.09.2016

Erindi dagsett 29. ágúst 2016 frá innanríkisráðuneytinu. Í erindinu kemur fram að í aðdraganda forsetakosninganna 25. júní sl. hafi sýslumenn og sveitarfélög víða um land átt með sér samstarf um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar sem fólst í því að sveitarfélögin önnuðust framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í sveitarfélaginu í umboði og á ábyrgð viðkomandi sýslumanns. Ráðuneytið óskar eftir því að tilraunaverkefnið verði framlengt fram yfir næstu alþingiskosningar með sömu skilmálum og áður til að fá aukna reynslu af þessari framkvæmd.
Bæjarráð samþykkir að Akureyrarkaupstaður framlengi þátttöku sína í tilraunaverkefninu.

Bæjarstjórn - 3399. fundur - 18.10.2016

Lagður fram listi með nöfnum þrjátíu og sex aðalmanna og þrjátíu og sex varamanna í undirkjörstjórnir við alþingiskosningar þann 29. október nk.
Bæjarstjórn samþykkir þær tilnefningar sem fram koma á listanum með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3399. fundur - 18.10.2016

Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að semja kjörskrá. Jafnframt er bæjarstjóra veitt fullnaðarheimild til að fjalla um athugasemdir, gera nauðsynlegar leiðréttingar og úrskurða um ágreiningsmál sem kunna að koma fram að kjördegi vegna alþingiskosninga 29. október nk. í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að bókun með 11 atkvæðum.

Bæjarráð - 3529. fundur - 10.11.2016

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 4. nóvember 2016 frá formanni kjörstjórnar Akureyrarkaupstaðar, Helgu G. Eymundsdóttur. Í bréfinu kemur fram að í Alþingiskosningunum sem fram fóru þann 29. október sl. þá hafi kjörfundur hafist á öllum kjörstöðum Akureyrarkaupstaðar kl. 09:00 og lauk kl. 22:00 á Akureyri, kl. 10:30 í Grímsey og kl. 18:00 í Hrísey.

Á kjörskrá voru 13.941 en á kjörstað á kjördag kusu 9.038. Utan kjörfundar greiddu atkvæði 1.816 þannig að samtals greiddu 10.854 atkvæði og kosningaþátttakan 77,86% sem er undir meðallagi miðað við undanfarin ár á Akureyri.

Kjörfundur gekk mjög vel og sem endranær telur kjörstjórn ástæðu til að hrósa öllu starfsfólki sérstaklega fyrir þeirra framlag til kosninganna, en að venju var fumlaus framkoma þeirra og ósérhlífni við undirbúning og framgang kosninganna sem er lykill að velheppnaðri framkvæmd þeirra.
Bæjarráð þakkar kjörstjórn, undirkjörstjórnum og starfsmönnum framkvæmd og vel unnin störf.