Samgönguáætlun

Málsnúmer 2016030197

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3391. fundur - 19.04.2016

Bæjarfulltrúar D-lista þau Gunnar Gíslason, Eva Hrund Einarsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson óskuðu eftir umræðu um samgönguáætlun með sérstakri áherslu á framkvæmdir við flughlaðið og Dettifossveg.
Lögð fram tillaga að bókun frá bæjarfulltrúum D-lista, svohljóðandi:

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar fagnar því að gert sé ráð fyrir kaupum á nýjum hafnsögubáti fyrir Hafnasamlag Norðurlands í "Tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018", sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Að sama skapi harmar bæjarstjórn þá niðurstöðu að ekki sé gert ráð fyrir því í sömu áætlun að lokið verði við gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll og Dettifossveg. Hvoru tveggja eru þessar framkvæmdir mikilvægar fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Norðurlandi eystra. Því skorar bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar á Alþingi að endurskoða þessa niðurstöðu og setja bæði verkefnin á dagskrá þannig að þeim verði lokið að fullu fyrir lok árs 2018.



Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn - 3405. fundur - 20.12.2016

Lögð fram eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til fjárlaga 2017 sem nú liggur fyrir Alþingi. Það vekur furðu að í frumvarpinu er ekki tekið tillit til nýrrar samgönguáætlunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 12. október sl.

Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu til kaupa á nýjum hafnsögubáti fyrir Hafnasamlag Norðurlands, þrátt fyrir að nú liggi fyrir tilboð í smíði bátsins sem búið er að samþykkja og bíður undirritunar. Ekki er heldur gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð Dettifossvegar sem allir eru sammála um að sé lykilframkvæmd í uppbyggingu innviða fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir fjármagni til að ljúka gerð flughlaðs við Akureyrarflugvöll sem er mikilvægt verkefni vegna flugöryggis yfir Íslandi og atvinnuuppbyggingar á Akureyri.

Það er algjörlega óviðunandi að ekki sé staðið við fyrri ákvarðanir Alþingis um að fjármagna þessar framkvæmdir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2017. Hér er um að ræða verkefni sem nú þegar er byrjað á og langt komin í tilboðsferli og algjörlega óásættanlegt að ekki sé tekið tillit til í frumvarpinu.


Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.