HGH verk ehf. - Lóð við Þingvallastræti lóðanr. 149789 og við Súluveg lóðanr. 149595

Málsnúmer 2015060134

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3721. fundur - 25.03.2021

Erindi dagsett 22. mars 2021 þar sem Hjörtur Narfason f.h HGH verks ehf. leggur fram tillögu að lausn lóðamála fyrirtækisins.

Bæjarlögmaður kynnti gildandi dómafordæmi um tímabundna lóðarleigusamninga þar sem ekki er gert ráð fyrir greiðslu bóta vegna mannvirkja á tímabundnum lóðarleigusamningum.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmönnum HGH verks ehf. fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs og veita þeim tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum.

Bæjarráð - 3729. fundur - 03.06.2021

Lagðar fram athugasemdir og sjónarmið HGH ehf. eftir bókun bæjarráðs 25. mars sl.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Afgreiðslu er frestað og bæjarlögmanni falið að afla frekari gagna.

Bæjarráð - 3731. fundur - 24.06.2021

Lagðar fram athugasemdir og sjónarmið HGH ehf. eftir bókun bæjarráðs 25. mars sl.

Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 3. júní sl. og var afgreiðslu þá frestað og bæjarlögmanni falið að afla frekari gagna.

Ólafur Rúnar Ólafsson lögmaður og Hjörtur Narfason framkvæmdastjóri mættu á fund bæjarráðs.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar þeim Ólafi Rúnari og Hirti fyrir komuna á fundinn.

Bæjarráð - 3737. fundur - 02.09.2021

Frá árinu 2012 hefur Akureyrarbær verið í samskiptum við fyrirsvarsmann HGH verks ehf. (Möl og sandur) vegna tveggja lóða fyrir atvinnurekstur við Súluveg, með landnúmer 149595 og 149596, en samkvæmt aðalskipulagi á að vera grænt svæði á nyrðri lóð HGH (landnr. 149595) og samkvæmt deiliskipulagi frá 2013 er lóð HGH með landnr. 149595 felld niður (grænt svæði) og lóðarmörk hinnar (landnr. 149596) breytt.

Samningar um lóðirnar voru tímabundnir og þegar þeir runnu út 1. mars 2013 voru þeir framlengdir tímabundið til 1. mars 2016 og aftur árið 2016 til ársins 2017, en seinni viðaukinn var ekki undirritaður af lóðarleiguhafa. Lóðarleigusamningarnir eru því útrunnir.

Þann 10. mars 2021 voru lagðar fram hugmyndir HGH um framtíðarnýtingu á lóðum við Súluveg fyrir skipulagsráð, en skipulagsráð hafnaði tillögu um að breyta deiliskipulagi svæðisins. Þann 22. mars 2021 sendi fyrirsvarsmaður HGH tillögu til bæjarins um lausn lóðamála fyrirtækisins.

Lóðamál HGH voru á dagskrá bæjarráðs þann 25. mars 2021, þar sem bæjarráð fól bæjarlögmanni að kynna fyrirsvarsmanni HGH fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs. Með bréfi dagsettu 29. mars 2021 var fyrirsvarsmanni HGH kynnt að bærinn fyrirhugi að fara fram á að félagið fari af lóðinni og fjarlægi mannvirki sín af svæðinu bótalaust. Fyrirsvarsmanni HGH var jafnframt veitt tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í andmælum HGH var m.a. farið fram á að Akureyrarbær dragi þegar í stað til baka yfirlýsingu um að fyrirhugað sé að gera félaginu að víkja bótalaust af eign sinni. Þá var óskað eftir því að lögmaður félagsins fengi að koma á fund bæjarráðs og kynna sjónarmið félagsins.

Athugasemdir og sjónarmið HGH voru lögð fyrir fund bæjarráðs 3. júní 2021, en ákvörðun var frestað til frekari gagnaöflunar. Þann 24. júní 2021 komu fyrirsvarsmaður og lögmaður HGH á fund bæjarráðs og reifuðu sín sjónarmið.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Ekki er til heildstæð löggjöf um lóðarleigusamninga og því ræðst réttur leigutaka og leigusala af efni viðkomandi lóðarleigusamnings og dómafordæma. Tveir stefnumarkandi dómar skýra réttarsambandið. Með dómi Hæstaréttar 240/2003 var sveitarfélaginu Hornafirði heimilað að fá S hf. borið út af lóð með bensínstöðvar- og veitingahús sitt og öllu sem því tilheyrði, þar með töldum olíu- og bensínstönkum í jörðu, að leigutíma loknum. Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur fram að ekki verði talið að „óskráð skylda hvíli á lóðarleigusala að kaupa alltaf mannvirki lóðarleigjanda á leigulóðinni á sanngjörnu verði við lok leigusamnings hvernig sem samningurinn er að öðru leyti orðaður.“ Þá var með úrskurði Landsréttar 138/2018, fallist á að Seltjarnarnesbæ væri heimilt að fá félagið I ehf., ásamt söluskála félagsins, borið út af tiltekinni lóð bæjarins eftir lok leigutíma, en lóðarleigusamningur bar ekki með sér að leigusali hefði tekið á sig skyldur til þess að kaupa upp eða leysa til sín mannvirki á hinni leigðu lóð eða að leigutaki ætti bótarétt á hendur leigusala.

Í hinum tímabundnu lóðarleigusamningum HGH og Akureyrarbæjar er ekki að finna ákvæði sem tekur á því hvað skuli gerast við lok samningstímans. Þannig er hvorki kveðið á um skyldu leigusala til þess að leysa til sín mannvirki né um bótarétt. Af dómaframkvæmd er því ljóst að Akureyrarbær getur krafist þess að eigandi mannvirkja víki af leigulóð við lok tímabundins leigutíma og fjarlægi mannvirki sín af lóðinni bótalaust, nema um annað sé samið.

Með vísan til þess að hinir tímabundnu lóðarleigusamningar bera ekki með sér að Akureyrarbær hafi skyldur til að leysa til sín mannvirki félagsins eða greiða bætur fyrir mannvirki þess við lok leigutímans, fer Akureyrarbær fram á það að HGH verk ehf. fari af lóð með landnúmer 149595 og fjarlægi mannvirki sín af lóðinni bótalaust fyrir 1. júní 2022.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmanni HGH ákvörðunina og ræða möguleika á framtíðarstaðsetningu fyrir atvinnurekstur HGH.

Forsvarsmanni HGH er jafnframt leiðbeint um að hann getur óskað eftir nýjum lóðarleigusamningi fyrir lóð með landnr. 149596, en samkvæmt deiliskipulagi verður ný lóð 16.647 m².

Bæjarráð - 3745. fundur - 28.10.2021

Rætt um stöðu mála.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.