Kröflulína, Akureyri-Krafla - frá Kífsá að Bíldsársskarði

Málsnúmer 2014030271

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 175. fundur - 26.03.2014

Skipulagsnefnd leggur til að stofnaður verði starfshópur í samráði við Eyjafjarðarsveit um útfærslur á flutningsleiðum raforku frá Kífsá að Bíldsársskarði vegna lagningar Kröflulínu, Akureyri-Krafla.
Verkefni hópsins væri að leggja fram fullmótaða tillögu að flutningsleiðum raforku gegnum land bæjarins og áfram að Bíldsársskarði, sem hægt væri að kostnaðargreina.

Skipulagsnefnd tilnefnir Helga Snæbjarnarson, Evu Reykjalín Elvarsdóttur og Sigurð Guðmundsson í starfshópinn og leggur til að Víðir Gíslason verði fenginn til ráðgjafar.

Skipulagsstjóra er falið að hafa samband við sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar um tilnefningar í starfshópinn.

Umhverfisnefnd - 92. fundur - 15.04.2014

Á fundi skipulagsnefndar þann 26. mars 2014 var lagt til að stofnaður yrði starfshópur í samráði við Eyjafjarðarsveit um að leggja fram fullmótaða tillögu að flutningsleiðum raforku gegnum land bæjarins og áfram að Bíldsárskarði, sem hægt væri að kostnaðargreina.

Umhverfisnefnd fer þess á leit við skipulagsnefnd að fulltrúi frá nefndinni verði einnig skipaður í starfshópinn.

Umhverfisnefnd samþykkir að formaður umhverfisnefndar, Hulda Stefánsdóttir, taki sæti í starfshópnum ef skipulagsnefnd samþykkir beiðnina.

Skipulagsnefnd - 177. fundur - 16.04.2014

Á fundi skipulagsnefndar þann 26.3 2014 var lagt til að stofnaður yrði starfshópur í samráði við Eyjafjarðarsveit um að leggja fram fullmótaða tillögu að flutningsleiðum raforku gegnum land bæjarins og áfram að Bíldsársskarði sem hægt væri að kostnaðargreina.
Umhverfisnefnd fer þess á leit við skipulagsnefnd að fulltrúi frá nefndinni verði einnig skipaður í starfshópinn. Umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 15. apríl sl. að formaður umhverfisnefndar Hulda Stefánsdóttir, tæki sæti í starfshópnum.

Skipulagsnefnd samþykkir beiðni umhverfisnefndar um að formaður nefndarinnar Hulda Stefánsdóttir taki sæti í starfshópnum.

Umhverfisnefnd - 93. fundur - 13.05.2014

Hulda Stefánsdóttir formaður umhverfisnefndar kynnti hugsanlega strengjaleið Kröflulínu frá Kífsá að Bíldsá.

Skipulagsnefnd - 179. fundur - 14.05.2014

Á fundi skipulagsnefndar þann 26.3 2014 var lagt til að stofnaður yrði starfshópur í samráði við Eyjafjarðarsveit um að leggja fram fullmótaða tillögu að flutningsleiðum raforku gegnum land bæjarins og áfram að Bíldsársskarði sem hægt væri að kostnaðargreina.
Skipulagsstjóra var falið þann 6. maí 2014 að vinna tillögu að 2-3 mismunandi strengjaleiðum sem kynntar verði í umhverfis- og skipulagsnefndum sveitarfélaganna.
Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar tillögu frá vinnuhópnum að mismunandi jarðstrengsleiðum frá Kífsá í norðri og upp fyrir Króksstaði í Eyjafjarðarsveit.

Skipulagsnefnd leggur áherslu á að við lagningu jarðstrengja náist sem mest samlegð við mannvirki sem fyrir eru eða eru fyrirhuguð á skipulagi, s.s. reiðleiða eða göngustíga. Horft verði til styttstu leiðar innan ramma hagkvæmni og með tilliti til rasks.

Skipulagsnefnd - 185. fundur - 20.08.2014

Innkomið svarbréf dagsett 8. ágúst 2014 frá Þórði Guðmundssyni forstjóra Landsnets vegna útsends bréfs Akureyrarbæjar og Eyjafjarðarsveitar dagsetts 2. júlí 2014 þar sem óskað var eftir samráðsvettvangi um útfærslu flutningsleiða raforku um sveitarfélögin.
Fram kemur í bréfinu að Landsnet þakkar sveitarfélögunum það jákvæða framlag sem erindið felur í sér en telur ótímabært að fara í nákvæma vinnu við útfærslu á flutningsleiðum með jarðstrengjum þar sem nú þegar sé rannsóknarverkefni í gangi á vegum Landsnets varðandi lagningu 132 kV og 220 kV jarðstrengja á Íslandi.
Landsnet telur því rétt að bíða niðurstaðna sérfræðingahópsins áður en lengra er haldið. Þegar þær liggja fyrir er Landsnet reiðubúið til samráðs við sveitarfélögin.

Lagt fram til kynningar.