Endurbætur í aðaleldhúsi ÖA

Málsnúmer 2014030072

Vakta málsnúmer

Félagsmálaráð - 1182. fundur - 26.03.2014

Gera þarf endurbætur á aðstöðu til djúpsteikinga í aðaleldhúsi og er leitað heimildar félagsmálaráðs til að sækja um endurbæturnar til Fasteigna Akureyrarbæjar.

Félagsmálaráð heimilar fyrir sitt leyti að leitað verði til Fasteigna Akureyrarbæjar með hönnun og kostnaðarútreikninga á fyrrnefndum breytingum núverandi húsnæðis í samráði við framkvæmdastjóra ÖA.

Dagbjört Elín Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi S-lista vék af fundi kl. 14:45 eftir lok umræðu um 6. lið.

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar - 241. fundur - 09.05.2014

Lögð fram beiðni dags. 24. mars 2014 frá framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og félagsmálaráði um kostnaðarmat við hönnun og endurnýjun á tækjakosti í eldhúsi Hlíðar og breytingar á vaktrýmum í Suðurhlíð.

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar fór yfir kostnaðaráætlunina og vísar málinu aftur til félagsmálaráðs.

Félagsmálaráð - 1185. fundur - 14.05.2014

Lagt fram svar frá Fasteignum Akureyrarbæjar varðandi kostnað við endurbætur og áætlaða breytingu á leigu til FA vegna þess.

Félagsmálaráð samþykkir erindið og felur Fasteignum Akureyrarbæjar að framkvæma breytingarnar í samráði við framkvæmdastjóra ÖA.

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar - 244. fundur - 01.07.2014

Lögð fram beiðni dags. 24. mars 2014 frá framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og félagsmálaráði um framkvæmdir og endurnýjun á tækjakosti í eldhúsi Hlíðar og breytingar á vaktrýmum í Suðurhlíð ásamt samþykki Félagsmálaráðs fyrir leigugreiðslum vegna verkefnisins.

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samþykkir erindið og skal það rúmast innan ramma fjárhagsáætlunar 2014.

Velferðarráð - 1279. fundur - 06.06.2018

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, kynnti kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra endurbóta í matsal Hlíðar að upphæð um kr. 6 milljónir. Tilefni endurbótanna er að núverandi tækjakostur í afgreiðslulínu þarfnast endurnýjunar. Markmiðið með endurskipulagningu er jafnframt að einfalda afgreiðsluna og koma til móts við aukinn fjölda gesta og aukinn fjölda notenda dagþjálfunar sem borða í matsal Hlíðar.

Framkvæmdastjóri lagði til að velferðarráð heimili áformaðar endurbætur og að í fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir greiðslu endurbótakostnaðar með innri leigu ÖA til Fasteigna Akureyrarbæjar.
Velferðarráð samþykkir að gert verði ráð fyrir hækkun innri leigu ÖA í næstu fjárhagsáætlun vegna tilgreindra endurbóta.

Velferðarráð - 1279. fundur - 06.06.2018

Velferðarráð fór í skoðunarferð í aðaleldhús ÖA á fundi sínum þann 17. apríl sl.

Í skoðunarferðinni kynntu matreiðslumenn ÖA og framkvæmdastjóri athuganir sínar varðandi framþróun og nýja möguleika við aðferðir "eldun og kæling", en í því felst að í framhaldi af eldun er maturinn hraðkældur og eftir atvikum, pakkað í minni eða stærri skammta til upphitunar. Áform um breytingar og tækjakaup í aðaleldhúsi ÖA vegna þessara aðferða eru einnig rakin í tillögu að 10 ára áætlun ÖA.

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, kynnti samtantekt sína um kostnað við endurnýjun tækja og kaup á nýjum tækjum, ásamt mögulegri hagræðingu t.d. við fækkun ferða með heimsendan mat. Tækjakaupin, sala á eldri tækjum og fjárhagslegt hagræði vegna aðkeyptrar þjónustu, gefur tilefni til að ætla að þessar breytingar séu mjög hagstæðar fjárhagslega og einnig út frá sjónarmiði nýtingar og gæða, auknu valfrelsi notenda og út frá umhverfissjónarmiði.
Velferðarráð fagnar þessari hugmynd að framþróun og hvetur til að haldið verði áfram með framkvæmd hugmyndarinnar.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 35. fundur - 26.06.2018

Lagt fram minnisblað dagsett 20. júní 2018 vegna beiðni frá Hlíð um fjármögnun á endurbótum á afgreiðslulínu í matsal Hlíðar að upphæð 6 milljónir króna á árinu 2018. Velferðarráð samþykkti hækkun á leigu vegna framkvæmdanna á fundi sínum þann 6. júní 2018.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir framkvæmdirnar með þeim fyrirvara að þær rúmist innan fjárfestingaráætlunar 2018.

Velferðarráð - 1304. fundur - 07.08.2019

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA rakti undirbúning sem staðið hefur yfir um tveggja ára skeið varðandi endurbætur á tækjum og búnaði í aðaleldhúsi ÖA og möguleikum til að aðlaga framleiðsluferlið að aðferðum "Cook and Chill". Málið var áður rætt á fundum velferðarráðs 18. apríl 2018 og 6. júní 2018.

Lagði framkvæmdastjóri ÖA fram samning við fyrirtækið RC-associates, International Foodservice Consultants, um framkvæmd á hagkvæmnisathugun, ráðgjöf og tillögugerð að skipulagi og tímaáætlun vegna þessara breyttu aðferða við matseld í eldhúsi ÖA.

Fyrir liggja styrkir frá Framkvæmdasjóði aldraðra vegna þessa verkefnis og þarf nú að útfæra nánar hvernig staðið verður að endurnýjun búnaðar og aðstöðu og þjálfunar starfsfólks. Markmiðið er að haga endurbótum þannig að samhliða verði hægt að halda uppi reglulegri starfsemi.

Lokahluti í hagkvæmnisúttektinni er kynning á niðurstöðum hennar.

Velferðarráð staðfestir fyrirliggjandi samning um hagkvæmnisathugun og tillögugerð varðandi endurbætur á aðaleldhúsi ÖA. Framkvæmdastjóra er falið að vinna áfram að framgangi þessa verkefnis.

Velferðarráð - 1308. fundur - 02.10.2019

Framkvæmdastjóri ÖA, Halldór S. Guðmundsson, greindi frá framvindu við hagkvæmnisathugun samanber fund velferðarráðs nr. 1304.

Áætluð verklok og skil á skýrslu um athugunina ásamt kynningu verður mánudaginn 14. október 2019 fyrir hádegi og er gert ráð fyrir að kynninguna sitji fulltrúar úr velferðarráði og fleiri aðilar.

Velferðarráð - 1309. fundur - 16.10.2019

Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri ÖA rakti undirbúning síðustu tveggja ára varðandi athugun á endurbótum á tækjum og búnaði í aðaleldhúsi ÖA og möguleikum þess að aðlaga framleiðsluferlið að aðferðum "Cook and Chill" (kokkað og kælt).

Málið hefur áður verið kynnt og rætt á fundum velferðarráðs.

Lagði framkvæmdastjóri ÖA fram og kynnti niðurstöður hagkvæmnisathugunar sem kynntar voru 14. október í samkomusal ÖA. Þar kynnti Róbert A. Croft, frá ráðgjafafyrirtækinu RC-associates International Foodservice Consultants, niðurstöður á hagkvæmnisathugun og tillögugerð sinni að skipulagi og tímaáætlun vegna þjálfunar og breytinga í eldhúsi ÖA. Leitast verður við að haga endurbótum þannig að samhliða verði hægt að halda uppi reglulegri starfsemi.

Framkvæmdastjóri ÖA lagði til að velferðarráð samþykkti að óska eftir aðkomu og vinnu umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar varðandi hönnun og kostnaðarútreikninga á þeim breytingum sem gera þarf á húsnæði eldhússins samkvæmt tillögu í hagkvæmnisúttektinni.

Lúðvík Freyr Sæmundsson rekstrarstjóri ÖA sat fundinn undir þessum lið.

Velferðarráð samþykkir tillögu Halldórs S. Guðmundssonar framkvæmdastjóra ÖA um að óska eftir aðkomu og vinnu umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar varðandi hönnun og kostnaðarútreikninga á þeim breytingum sem gera þarf á húsnæði eldhússins samkvæmt tillögu í hagkvæmnisúttektinni.