Hörgársveit, aðalskipulagstillaga 2012-2024 - ósk um umsögn

Málsnúmer 2013020088

Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd - 152. fundur - 13.02.2013

Innkominn tölvupóstur dagsettur 25. febrúar 2013 frá Guðmundi Sigvaldasyni f.h. Hörgársveitar, þar sem óskað er eftir umsögn um drög að tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Óskað er eftir að umsögn berist fyrir 20. febrúar 2013, ef kostur er á.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við drögin en áskilur sér rétt til að gera athugasemdir við aðalskipulagstillöguna á auglýsingartíma.

Skipulagsnefnd - 194. fundur - 14.01.2015

Erindi dagsett 12. desember 2014 frá Guðmundi Sigvaldasyni þar sem hann f.h. Hörgársveitar óskar eftir umsögn um tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024.
Skipulagsnefnd felur formanni nefndarinnar og skipulagsstjóra að ganga frá umsögn í samræmi við umræður á fundinum.

Skipulagsnefnd - 195. fundur - 28.01.2015

Erindi dagsett 12. desember 2014 frá Guðmundi Sigvaldasyni þar sem hann f.h. Hörgársveitar óskar eftir umsögn um tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024.
Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar fagnar framkomnu aðalskipulagi Hörgársveitar og þakkar tækifærið til að geta komið með athugasemdir. Að því sögðu vill skipulagsnefnd koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

1. Bent er á að rétt sé að leita umsagnar Norðurorku um skipulag Hörgársveitar þar sem aðveitulagnir hita- og vatnsveitu fyrirtækisins liggja um land sveitarfélagsins auk þess sem Norðurorka þjónar hluta íbúa Hörgársveitar.

2. Bent er á að stofnhitaveitulögn frá Arnarnesi/Hjalteyri er ekki sýnd á uppdrætti en aftur á móti eru stofnlagnir hita- og vatnsveitu frá Laugalandi á Þelamörk sýndar. Þyrfti að samræma.

3. Bent er á að líklega sé skynsamlegasta meðhöndlun fráveitu frá byggð á Lónsbakka sú að tengja hana inn á kerfi Akureyrar sem Norðurorka sér um. Mögulega væri hægt að stefna að slíku í aðalskipulagi. Meðhöndlun fráveitu á Akureyri mun væntanlega taka stakkaskiptum á næstu misserum.

4. Skipulagsnefnd fagnar fyrirhugaðri uppbyggingu á Dysnesi og bendir á að huga þurfi að raflögnum þangað vegna raforkunotkunar í tengslum við iðnaðar- og hafnarstarfsemi.

5. Bent er á að heppilegt sé að víðtækara samráð verði haft um efnistöku í landi sveitarfélagsins þótt það sé Hörgársveitar að taka ákvarðanir um slíkt. Akureyrarbær hefur átt gott samstarf við Hörgársveit varðandi aðgang að efni. Skipulagsnefnd fagnar því ef Hörgársveit getur stuðlað að því að efnistökusvæði verði færri en nú er. Landleiðin frá vestri inn í Eyjafjörð er um Moldhaugaháls og því leggur skipulagsnefnd áherslu á að efnis- og athafnasvæði á Moldhaugahálsi verði svo snyrtilegt og lítið áberandi frá þjóðvegi 1 sem verða má.

6. Bent er á að í fyrirliggjandi drögum að Landskipulagsstefnu er framtíð skógræktar sett í samhengi við útivist og landbúnað og að hún falli að landslagsgerðum.

7. Bent er á að skilja megi texta um Byggðalínu þannig að Hörgársveit æski þess að svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar ákvarði legu raflína um sveitarfélagið. Jafnframt vill skipulagsnefnd Akureyrarbæjar undirstrika enn og aftur að flutningur raforku til Eyjafjarðar er Akureyrarbæ gríðarmikið hagsmunamál sem og fyrir alla byggð í Eyjafirði.

8. Bent er á að göngu-, hjóla- og reiðstígatengingar við land Akureyrarbæjar eru óljósar auk þess sem vegtenging frá þéttbýlinu við Lónsbakka er ekki rétt staðsett samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins. Því leggur skipulagsnefnd til að þær merkingar á uppdrætti sem sýndar eru inni á landi Akureyrarbæjar verði fjarlægðar og samræmdar þegar endurskoðun aðalskipulags Akureyrar er lokið en gert er ráð fyrir að því verði lokið á kjörtímabilinu.