Viðhorf foreldra til starfs og starfshátta í leikskólum á Akureyri - 2011

Málsnúmer 2011120005

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 34. fundur - 05.12.2011

Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar sem lögð var fyrir sl. vor. Helstu niðurstöður eru:
Almenn ánægja ríkir meðal foreldra með leikskóla Akureyrarbæjar hvort sem litið er til innra starfs eða aðbúnaðar barnanna í leikskólanum. Ákveðinn afstöðumunur er þó í svörum foreldra m.t.t. hvar í leikskóla börn þeirra eru.
Langflestir foreldrar telja að leikskólinn hafi veitt þeim fullnægjandi upplýsingar um stefnu skólans og áherslur. Þeir eru sammála því að leikskólinn hafi skýra stefnu fyrir starfi sínu og starfið í leikskólanum sé í samræmi við stefnuna.
Tveir þriðju foreldrahópsins sem þátt tók í könnuninni segir leikskólana leggja sig fram um að kynna þeim aðalnámskrá leikskólans. Mikill mismunur er á afstöðu foreldra að þessu leyti m.t.t. leikskóla.
Helmingur foreldrahópsins segist hafa kynnt sér skólastefnu Akureyrarbæjar vel en 40% illa. Þeir sem kváðust hafa kynnt sér skólastefnuna vel lögðu mat á starf skólanna og kváðu það í samræmi við stefnu bæjarfélagsins.
85% foreldra er sammála því að starfshættir leikskólanna hvetji til samstarfs og samvinnu starfsfólks, foreldra og nærsamfélags. Afstaða foreldra er þó talsvert mismunandi eftir því hvar í leikskóla barn þeirra er.
Leikskólarnir virðast ekki leggja áherslu á að virkja foreldra í uppeldisstarfi leikskólanna né að veita þeim upplýsingar um hvernig þeir geta stuðlað að auknum þroska barnsins.
Foreldrar virðast almennt telja að leikskólinn beri umhyggju fyrir börnunum. Þeir telja að komið sé til móts við þarfir barnanna, gerðar kröfur til þeirra og þeim veitt þjónusta lendi þau í erfiðleikum.
Í heildina tekið virðast foreldrar þeirrar skoðunar að leikskólar haldi í heiðri áherslur aðalnámskrár leikskóla í innra starfi sínu.
Ólík afstaða kemur fram gagnvart hollustu fæðis eftir leikskólum en almennt eru foreldrar sammála því að börnunum þyki maturinn góður. Ekki er mikill áhugi meðal foreldra að breyta morgunverði og er meirihluti þeirra reiðubúinn að greiða hærra fæðisgjald til að standa undir þjónustunni.
Almennt eru foreldrar sammála um að gjaldskrá leikskólans sé sanngjörn. Tæp 60% foreldra fallast ekki á að taka á sig hærra hlutfall af raunkostnaði leikskólans. Um 40% segjast hins vegar reiðubúnir til þess.
Fáir foreldrar virðast leita upplýsinga á vefsíðu skóladeildar um leikskólana en þeir eru hins vegar ánægðir með upplýsingar af hálfu leikskólanna.
Foreldrar telja mikið stökk fyrir nemendur að færast úr leikskóla í grunnskóla. Meirihluti þeirra sem afstöðu taka telja ekki mikilvægt að halda skólastigunum aðgreindum og svipað hlutfall telur að réttlætanlegt geti verið að sameina tvo leikskóla í einn.
Algengast er að foreldrar hallist að því að æskileg stærð leikskóla sé 61-90 börn.

Skólanefnd þakkar Trausta Þorsteinssyni fyrir góða yfirferð og foreldrum leikskólabarna fyrir þátttökuna.