Skipulagsbreytingar í Listagili - hugmyndavinna 2011

Málsnúmer 2011040137

Vakta málsnúmer

Stjórn Akureyrarstofu - 96. fundur - 27.04.2011

Farið yfir hugmyndir um breytingar í Listagilinu sem fela það m.a. í sér að Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðin í Listagili verði sameinuð.

Umræðu haldið áfram á næsta fundi.

Stjórn Akureyrarstofu - 100. fundur - 14.06.2011

Brynhildur Kristinsdóttir, Guðmundur Ármann, Sigurbjörg Árnadóttir, Valdís Viðars og Þórarinn Blöndal komu sem fulltrúar félagasamtaka og aðila sem starfa í Listagilinu á Akureyri og kynntu niðurstöður í hugmyndavinnu um framtíðarsýn fyrir Gilið.

Stjórn Akureyrarstofu þakkar gestunum fyrir greinargóða kynningu og afar góða vinnu við skýrslugerðina.

Stjórn Akureyrarstofu - 101. fundur - 28.06.2011

Framhald umræðu um skipulagsbreytingar í Listagili, sem áttu sér upphaf í vinnu við fjárhagsáætlunargerð síðasta haust. Lagt fram minnisblað um stöðu mála og næstu skref. Sóley Björk Stefánsdóttir vék af fundi við umræðu um málið.

Ákvörðun frestað til næsta fundar.

Stjórn Akureyrarstofu - 102. fundur - 30.06.2011

Framhald umræðna af síðasta fundi stjórnar. Farið var yfir stöðu mála og formaður lagði fram tillögu um næstu skref í skipulagsbreytingunum. Tillagan er eftirfarandi:
Lagt er til að Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðin í Listagili verði sameinuð í eina stofnun. Markmið breytinganna er að efla Listagilið sem miðstöð sjónlista utan höfuðborgarsvæðisins þar sem meðal annars verði lögð aukin áhersla á grasrótarstarf og fræðslu- og uppeldisstarf. Starf forstöðumanns sameiginlegrar stofnunar verði auglýst laust til umsóknar og rekstur hennar verði á höndum bæjarins.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir tillöguna og felur framkvæmdastjóra að fara í þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til. Stjórnin telur að með þessari breytingu náist það markmið að Gilið birtist sem ein heild sem styrkir aftur ímynd Akureyrar.

Helena Karlsdóttir fulltrúi Samfylkingar óskar bókað:
Listagilið þjónar mikilvægu hlutverki sem staður viðburða, sköpunar og tilrauna. Ég samþykki fyrirliggjandi tillögu um sameiningu Listasafnsins á Akureyri og Menningarmiðstöðvarinnar í Listagilinu í eina stofnun á þeim forsendum og í trausti þess að unnið verði í samræmi við niðurstöðu skýrslu grasrótarhóps listamanna í Gilinu "Skapandi sókn í Listagilinu", að áformum um menningar-, fræðslu- og uppeldisstarf á sviði sjónlista verði fylgt eftir og að ná megi fram hagræðingu með sameiningunni. Ég legg áherslu á að hin nýja stofnun verði á vegum Akureyrarbæjar og að öll störf verði auglýst og faglega staðið að ráðningum. Listagilið býður upp á mikla möguleika og er mikilvægur þáttur í ferðamannabænum Akureyri. Ég treysti því að með sameiningu stofnananna muni starfsemin eflast og dafna og vera bakhjarl starfandi listafólks á Akureyri.

Stjórn Akureyrarstofu - 103. fundur - 25.08.2011

Lögð fram til umræðu drög að auglýsingu fyrir nýtt starf forstöðumanns Sjónlistamiðstöðvar í Listagili.
Sóley Björk Stefánsdóttir vék af fundi við umræðu og afgreiðslu þessa liðar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra að auglýsa starfið og ganga frá samningi við ráðningarstofu um vinnu við ráðningarferlið.

Stjórn Akureyrarstofu - 106. fundur - 06.10.2011

Farið yfir niðurstöður á mati á umsóknum og viðtölum við umsækjendur. Búið er að ræða einu sinni við þá umsækjendur sem til greina þóttu koma og þeir tveir sem metnir voru hæfastir hafa komið í annað viðtal. Í því tóku þátt auk ráðgjafa frá Capacent framkvæmdastjóri Akureyrarstofu og tveir fulltrúar úr stjórn Akureyrarstofu.

Framkvæmdastjóra Akureyrarstofu falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

Stjórn Akureyrarstofu - 110. fundur - 01.12.2011

Farið yfir stöðuna á vinnu við sameiningu Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og Listasafnsins á Akureyri. Hannes Sigurðsson verðandi forstöðumaður sjónlistamiðstöðvarinnar kom á fundinn og gerði ásamt framkvæmdastjóra Akureyrarstofu grein fyrir stöðu mála. Rætt um nafn á hina nýju miðstöð, auglýsingar um störf og þau verkefni sem lögð hafa verið upp á fyrstu misserum sjónlistamiðstöðvarinnar.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir þá tillögu sem fram kom á fundinum að nýja menningarmiðstöðin verði framvegis kölluð Sjónlistamiðstöðin.

Stjórnin þakkar Hannesi fyrir komuna á fundinn og góðar umræður.

Stjórn Akureyrarstofu - 110. fundur - 01.12.2011

Guðrún Þórsdóttir V-lista spyr hvers vegna ráðning nýrrar stöðu forstöðumanns nýrrar stofnunar bæjarins, sjónlistamiðstöðvarinnar, hafi ekki verið afgreidd á fundi stjórnar Akureyrarstofu.

Framkvæmdastjóri Akureyrarstofu svaraði því til að málinu hafi verið lokið á fundi stjórnarinnar 6. október 2011. Þá var bókað að framkvæmdastjóra væri falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum. Það fól í sér að samkomulag var um hver yrði ráðinn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði snerust annars vegar um tímabundna ráðningu og hins vegar um viðveruskyldu þar sem umsækjandinn sem fyrir valinu varð heldur tvö heimili. Bókunin frá 6. október var því ekki nægilega nákvæm um málalok.