Leikskólagjöld fyrir börn með lögheimili utan Reykjavíkur - breyting á gjöldum

Málsnúmer 2011020147

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 5. fundur - 07.03.2011

Erindi dags. 21. febrúar 2011 frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram að Reykjavíkurborg mun ekki fara eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, vegna barna sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum en eru í leikskólum borgarinnar. Í erindinu er óskað eftir samstarfi við sveitarfélög vegna útfærslu á greiðslu kostnaðar vegna þessara barna.

Skólanefnd telur eðlilegt að þetta verkefni verði leyst á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskar því eftir að skólamálanefndin leiti ásættanlegrar lausnar.

Skólanefnd - 21. fundur - 15.08.2011

Kynntar breytingar sem Reykjavíkurborg er að gera á innheimtu kostnaðar vegna barna í leikskólum Reykjavíkurborgar sem ekki eiga lögheimili þar. Einnig kynnt viðbrögð við þessum breytingum.

Skólanefnd - 22. fundur - 22.08.2011

Farið yfir breytingar sem Reykjavíkurborg er að gera á innheimtu kostnaðar vegna barna í leikskólum Reykjavíkurborgar sem ekki eiga lögheimili þar.

Skólanefnd samþykkir eftirfarandi:

Skólanefnd Akureyrarbæjar gerði eftirfarandi bókun á fundi sínum þann 7. mars sl. vegna bréfs frá Reykjavíkurborg dags. 21. febrúar sl. þar sem fram kom að Reykjavíkurborg mun ekki fara eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, vegna barna sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum en eru í leikskólum borgarinnar:

"Skólanefnd telur eðlilegt að þetta verkefni verði leyst á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og óskar því eftir að skólamálanefndin leiti ásættanlegrar lausnar."

Þann 1. júlí kemur svo tölvupóstur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar þar sem tilkynnt er um að frá 1. júní 2011 innheimti borgin raunkostnað vegna leikskólaplássa þessara barna í stað þess að nota viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga og að verið sé að útbúa reikninga til Akureyrarbæjar fyrir tímabilið júní og júlí.

Þessum vinnubrögðum mótmælir skólanefnd Akureyrarbæjar harðlega og bendir á að á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga er starfandi hópur sem er að endurskoða viðmiðunarreglur Sambandsins og í honum á Reykjavíkurborg fulltrúa. Það er óásættanlegt með öllu að höfuðborg Íslands komi með þessum hætti fram við önnur sveitarfélög í landinu.

Í röksemdafærslu fyrir þessum breytingum er bent á að mun fleiri börn sem ekki eiga lögheimili í Reykjavík sæki þar leikskóla en börn frá Reykjavík í önnur sveitarfélög. Þetta er miðað við upplýsingar sem fram hafa komið hárrétt en flest þessara barna búa í nágrannasveitarfélögunum. Foreldrar þessara barna hafa val um það hvort þeir sækjast eftir leikskólavist í Reykjavík eða í sínu bæjarfélagi. Eðlilegt er að um slíkt sé samið sérstaklega enda er búið að ganga frá samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta á hins vegar alls ekki við um alþingismenn eða námsmenn sem eru tilneyddir að flytja aðsetur sitt til Reykjavíkurborgar, en það er einmitt hlutskipti þeirra fáu sem nýta sér leikskólapláss í Reykjavíkurborg og búa úti á landi.

Skólanefnd fer fram á að Reykjavíkurborg fari að viðmiðunarreglum Sambandsins vegna þeirra barna sem hér um ræðir og sætti sig við það þar til niðurstaða áðurnefnds starfshóps liggur fyrir.

Skólanefnd - 26. fundur - 19.09.2011

Kynnt var samkomulag sem náðist á fundi sem Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Gunnar Gíslason fræðslustjóri áttu með borgarstjóra, formanni borgarráðs og fjármálastjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Þar kemur fram að farið verður eftir viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna barna sem dvelja í leikskólum Reykjavíkur en eru með lögheimili á Akureyri. Þegar endurskoðun á viðmiðunargjaldskrá Sambandsins er lokið gildir sú gjaldskrá afturvirkt og verður gerður einn reikningur fyrir mismuninum á núverandi gjaldskrá og endurskoðaðri gjaldskrá fyrir það tímabil sem börnin dvelja í leikskólum borgarinnar en eiga lögheimili á Akureyri.