Stytting hringvegarins - athugasemd við aðalskipulag Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar

Málsnúmer 2010060123

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 3229. fundur - 01.07.2010

Bæjarráð Akureyrarbæjar lýsir yfir vonbrigðum með að í tillögum að aðalskipulagi Húnvatnshrepps og Blönduósbæjar er ekki gert ráð fyrir að leggja megi nýjan veg um svonefnda Svínavatnsleið (Húnavallaleið) í Austur-Húnavatnssýslu.

Þessi vegur myndi stytta leiðina milli Norðausturlands og vesturhluta landsins um tæplega 14 km og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi, skemmri aksturstíma, minni eldsneytiseyðslu og mengun og lægri flutningskostnaði og þar með aukinni samkeppnishæfni Norðausturlands. Þetta er vafalítið eitt af stærstu hagsmunamálum fyrirtækja og íbúa á Akureyri.

Bæjarráð skorar á fyrrgreind sveitarfélög að endurskoða tillögurnar.

Bæjarráð - 3239. fundur - 16.09.2010

Lögð fram til kynningar afgreiðsla hreppsnefndar Húnavatnshrepps á athugasemdum við aðalskipulag Húnavatnshrepps 2010-2022 dags. 8. september 2010.

Bæjarráð - 3241. fundur - 07.10.2010

Lögð fram til kynningar afgreiðsla bæjarstjórnar Blönduóssbæjar á athugasemdum við aðalskipulag Blönduóssbæjar 2010-2030 dags. 22. september 2010.

Bæjarráð - 3265. fundur - 10.03.2011

Vegagerðin hefur að undanförnu kynnt tillögu um nýjan stofnveg, svonefnda Húnavallaleið, sem myndi stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 14 km.
Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Njáll Trausti Friðbertsson D-lista fóru á fund umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, 8.mars sl.
Tilgangur fundarins var að koma sjónarmiðum Akureyrarbæjar á framfæri varðandi styttingu leiðarinnar á milli Akureyrar og Reykjavíkur, en umhverfisráðherra á eftir að úrskurða um málið. Rætt var um umhverfislegan ávinning sem og fjárhagslegan ávinning íbúa Akureyrar í formi flutningskostnaðar, en ekki hvað síst um umferðaröryggi á umræddum köflum leiðarinnar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með sveitarstjórum Blönduóssbæjar og Húnavatnshrepps til þess að ræða mismunandi hagsmuni sveitarfélaganna.

Bæjarráð - 3268. fundur - 31.03.2011

Lögð fram bókun stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra frá 15. mars 2011.

Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk Reynisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Eiríkur Björn Björgvinsson gerðu grein fyrir fundi sínum með fulltrúum Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitafélagsins Skagastrandar vegna bókunar bæjarráðs um lagningu Húnavallabrautar og styttingar á Þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Fundurinn var málefnalegur og upplýsandi. Fulltrúar Akureyrarbæjar komu sjónarmiðum sínum á framfæri m.a. um lækkun flutningskostnaðar og að búast megi við um tæplega þrefaldri fækkun umferðaróhappa miðað við núverandi vegarkafla. Fulltrúar Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagastrandar komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðilar eru sammála því að auka samstarf og samskipti milli sveitarfélaganna í framtíðinni.

Bæjarráð Akureyrarkaupstaðar telur mikilvægt að skoðun fyrirtækja, einstaklinga og sveitarfélagsins fái að koma fram, en virðir að sjálfsögðu skipulagsvald sveitarfélaganna.

Bæjarráð - 3320. fundur - 24.05.2012

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskaði eftir umræðu varðandi vegstyttingu við Blönduós.

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við hörmum embættisfærslu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem hann viðhefur í bréfi til Vegagerðarinnar dagsettu 13. apríl síðastliðinn. Þar er Vegagerðinni gert skylt að draga hugmyndir sínar að nýrri veglínu svokallaðrar Húnavallabrautar til baka. Vegagerðin hafði áður óskað eftir að gert yrði ráð fyrir vegstæðinu í nýju aðalskipulagi Blönduóssbæjar og Húnavatnshrepps. Vegagerðin hefur skilgreint hlutverk sitt nánar með eftirfarandi hætti: Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Í maí 2011 úrskurðaði núverandi umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir að gert skyldi ráð fyrir vegstæðinu sem hér er fjallað um í aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem hér eiga í hlut, sú ákvörðun var fyrst og fremst byggð á 28. gr. 2. mgr. Vegalaga frá 2007.
Með boðvaldsákvörðun sinni gengur innanríkisráðherra freklega fram gegn undirstofnun sinni og tilgangi og anda þeirra laga sem hér er getið að framan.