Stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar - endurskoðun

Málsnúmer 2010040041

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 24. fundur - 18.10.2010

Fyrir fundinum lá tillaga um að skipa stýrihóp sem vinni tillögur að endurskipan stjórnkerfis skóla í Akureyrarbæ og skili tillögum á fundi skólanefndar í janúar 2011.

Skólanefnd samþykkir að skipa stýrihóp sem verði þannig samsettur að einn fulltrúi verði úr skólanefnd, tveir fulltrúar frá HA og þá sitji fræðslustjóri og leikskólafulltrúi í hópnum. Skólanefnd óskar eftir tilnefningum frá HA innan viku.

Skólanefnd - 25. fundur - 15.11.2010

Á fundinum var farið yfir stöðu verkefnisins, skipan stýrihóps og tillögu að verkáætlun ásamt kostnaðaráætlun.

Skólanefnd samþykkir að fulltrúar skólanefndar í stýrihópnum verði tveir, Preben Jón Pétursson fyrir hönd meirihlutans og minnihlutinn tilnefni einn fulltrúa fyrir sína hönd. Skólanefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu að verk- og kostnaðaráætlun.

Skólanefnd - 26. fundur - 06.12.2010

Á fundinum var gerð grein fyrir framvindu verkefnisins frá síðasta fundi.
Umræður.

Skólanefnd - 27. fundur - 20.12.2010

Fyrir fundinn var lögð ályktun fundar Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla í 6. svæðadeild, sem haldinn var 30. nóvember 2010. Þar kemur meðal annars fram að leikskólakennarar hvetja til þess að faglegar og rekstrarlegar forsendur liggi fyrir þegar ákvörðun verður tekin að lokinni úttekt á stjórnkerfi skóla, samfélaginu til heilla.
Þá var einnig farið yfir störf stýrihópsins frá síðasta fundi skólanefndar.

Skólanefnd þakkar fyrir þær ábendingar sem fram koma í ályktuninni og tekur undir mikilvægi þess að unnið sé faglega að verkefninu og ákvarðanatöku í kjölfar þess.

Skólanefnd - 2. fundur - 24.01.2011

Skólanefnd var gerð grein fyrir stöðu málsins.

Skólanefnd - 3. fundur - 07.02.2011

Á fundinn mættu þær Sigurbjörg Rún Jónsdóttir og Bryndís Elfa Valdemarsdóttir og kynntu helstu niðurstöður viðtalsrannsóknar sinnar meðal skólastjóra leik- og grunnskóla á Akureyri. Fram kom að þær vinna að skýrslu um niðurstöðurnar og verður hún gerð opinber þegar hún liggur fyrir.
Kristín Jóhannesdóttir deildarstjóri í Lundarskóla sat fundinn sem gestur undir þessum lið.

Skólanefnd þakkar Sigurbjörgu Rún og Bryndísi Elfu fyrir kynninguna.

Kristín Jóhannesdóttir, Anna Lilja Sævarsdóttir, Sigurbjörg Rún Jónsdóttir og Bryndís Elfa Valdimarsdóttir yfirgáfu fundinn kl. 15:07.

Skólanefnd - 4. fundur - 21.02.2011

Fyrir fundinn var lögð ályktun frá skólaráði Giljaskóla dags. 14. febrúar 2011 þar sem þess er krafist að réttindi barna og gæði skólastarfs verði lögð til grundvallar öllum ákvörðunum bæjaryfirvalda varðandi hugsanlegar skipulagsbreytingar á skólastarfi á Akureyri. Þá er kallað eftir raunverulegu samráði við starfsmenn skóla og foreldra áður en ákvarðanir eru teknar.
Fyrir fundinn var einnig lögð skýrsla með niðurstöðum úr viðtalsrannsókn við leik- og grunnskólastjóra Akureyrar, ásamt fundargerðum stýrihóps. Helstu niðurstöður viðtalsrannsóknarinnar eru:
Skólastjórinn er faglegur leiðtogi, starfsmannastjóri og rekstrarstjóri.
Stjórnunarstíll stjórnenda er misjafn og hefur áhrif á verkaskiptingu á milli stjórnenda.
Mestur tími fer í að láta daginn ganga upp - púsla, dekka, redda.
Starfsmannastjórnun vegur þyngst í starfi skólastjórans og veldur mestu álagi.
Álag í starfsmannamálum kallar á stuðning eða handleiðslu fyrir stjórnandann.
Fjarvera starfsmanna er mesti álagsþátturinn í starfsmannastjórnuninni.
Stjórnendum finnst þeir vera límið í húsinu, sú manneskja sem hefur yfirsýn, utanumhald og alla heildarmyndina.
Stjórnendum finnst vellíðan starfsmanna og nemenda skipta miklu máli og þeim finnst þeir bera ábyrgð á henni.
Hindranir koma í veg fyrir breytingar og hafa áhrif á þróun faglegs starfs.
Ytri kröfur eru miklar og fara vaxandi og eru álagsþáttur í starfi skólastjórans.
Sálgæsluhlutverk skólastjórans hefur aukist.
Skortur er á starfsfólki til að vista verkefni á.
Stjórnendur kunna að meta það sjálfstæði sem skólarnir hafa og vilja halda "karaktereinkennum" þeirra.
Eldhúsið er hjarta leikskólans.
Stjórnendum hugnast frekar sameining eða samrekstur á sömu skólastigum.
Skýrsluna í heild sinni og fundargerðir stýrihóps má nálgast á vefsíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd fullvissar alla aðila skólasamfélagsins á Akureyri um að engar meiriháttar breytingar verða gerðar á skipulagi skóla án ítarlegs samráðs við þá alla. Skólanefnd bendir á að fram að þessu hefur áherslan í undirbúningsvinnu stýrihópsins verið á að greina störf og viðhorf skólastjóranna. Nú liggur niðurstaða þeirrar vinnu fyrir og er verið að skoða næstu skref. Skólanefnd samþykkir að fela fræðslustjóra að funda með starfsmönnum þeirra skóla sem þess óska til að upplýsa um gang og stöðu mála. Þá samþykkir skólanefnd að boða skólaráð grunnskólanna og foreldraráð leikskóla, fulltrúa starfsmanna og stjórnenda í leikskólum til funda, til að upplýsa um stöðu málsins og næstu skref.

Skólanefnd - 10. fundur - 04.04.2011

Skólanefnd var gerð grein fyrir stöðu málsins. Einnig fylgdi með til fróðleiks og upplýsingar, skýrsla sem unnin var af Menntavísindasviði Háskóla Íslands um tillögur til sameiningar skóla í Reykjavík.

Skólanefnd - 12. fundur - 18.04.2011

Kynntar voru umræður sem fram fóru á fundi stýrihóps og faghóps sem haldinn var 7. apríl sl.

Skólanefnd - 14. fundur - 02.05.2011

Fyrir fundinn voru lagðar til kynningar tvær fundargerðir stýrihópsins dags. 23. febrúar og 30. mars 2011 og ein fundargerð stýrihóps og faghóps dags. 8. apríl 2011.

Skólanefnd - 17. fundur - 26.05.2011

Á fundinn mættu fulltrúar í stýrihópi um endurskoðun stjórnkerfis skóla á Akureyri en þeir eru Trausti Þorsteinsson lektor við HA, Birna Svanbjörnsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar HA, Gerður Jónsdóttir fulltrúi minnihluta skólanefndar í hópnum og Kristín Jóhannesdóttir sem starfað hefur með hópnum. Í stýrihópnum voru einnig Preben Jón Pétursson varaformaður skólanefndar, Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi og Gunnar Gíslason fræðslustjóri.
Kynntar voru tillögur hópsins sem fram koma í skýrslu sem lögð var fyrir fundinn. Stýrihópurinn lagði fram tillögur að viðmiðunum sem unnið verður eftir og aðrar tillögur taka mið af. Þessi viðmið eru:
- Að taka tillit til vilja stjórnenda sem fram kom í viðtölunum um að fara varlega í að sameina skóla milli skólastiga nema þá í tilraunaskyni ef stjórnendur skóla sýna vilja til þess.
- Efla faglega og framsækna forystu í skólum Akureyrar og koma á virkri þátttöku og skuldbindingu allra til að efla nám og kennslu.
- Grunnskólar séu heildstæðir, með að jafnaði 450-500 börn, undantekning Oddeyrarskóli með 220 nemendur. (Rekstrarlega hagkvæmar einingar - Vífill Karlsson.)
- Ekki raska hverfaskiptingu með því að sameina grunnskóla.
- Veita miðlægan stuðning við starfsmannamál og aðra rekstrartengda þætti.
- Miða stærð leikskóla við 90-150 börn.

Þá lagði stýrihópurinn fram almennar tillögur sem eru:
- Að ráðinn verði til starfa aðili sem stutt getur skólastjórnendur í starfsmannamálum, aðili með sérfræðiþekkingu í mannauðsstjórnun.
- Samræming í innkaupum og stjórn skólamötuneyta, samræmdur matseðill sem taki mið af gæðastuðlum Lýðheilsustofnunar.
- Leikskólar verði sameinaðir til að falla að gefnum stærðarviðmiðum.
- Skólastjórum verði veitt ráðgjöf til að skerpa á stjórnunarfyrirkomulagi skólanna og skilgreina ábyrgðarhlutverk, starfsskyldur og vinnubrögð, s.s. umsjónarkennara, deildarstjóra og aðstoðarskólastjóra og að sett verði erindisbréf fyrir stjórnendur í leikskólum sambærileg erindisbréfum í grunnskóla.
- Styðja við og koma á teymiskennslu/teymisvinnu í öllum skólum.
- Setja saman teymi skólastjóra leik- og grunnskóla í sama hverfi og styðja það í að vinna markvisst saman að kennslufræðilegum málum að lágmarki vikulega.
- Efla faglega forystu stjórnenda í skólunum
- Skipuleggja faglegan samvinnudag alla skólastjóra á Akureyri mánaðarlega þar sem unnið verður með leiðir til að uppfylla stefnu og sýn sem birtist í skólastefnu Akureyrarbæjar og aðalnámskrá. Þar verði unnið út frá framkvæmdaáætlunum og þróunaráætlunum.
- Stöður deildarstjóra í leikskólum verði lagðar af og hlutverk skólastjóra og aðstoðarskólastjóra sem faglegra forystumanna verði styrkt.

Stýrihópurinn lagði fram eftirfarandi sértækar tillögur:
- Með sameiningu Síðusels og Holtakots yrði til stofnun með 100 rýmum en þar eru nú samtals 97 börn. Til að byrja með getur starfsemin skipst á tvo staði.
- Með sameiningu Pálmholts og Flúða yrði til stofnun með 134 rýmum en þar eru nú samtals 140 börn. Skólarnir eru staðsettir hlið við hlið og auðvelt ætti að vera að koma starfsseminni fyrir í óbreyttu fyrirkomulagi.
- Krógaból er í leiguhúsnæði í Glerárkirkju og verður næstu 10 ár. Lagt er til að byggt verði yfir leikskólann við Síðuskóla og þá verði leikskólinn fyrir 120 börn.
- Í Lundarseli verður fjölgað um 14 börn haustið 2011 (verða þá 84) og verða þau í skála á lóð Lundarskóla og verður þróað enn meira samstarf milli skólanna í tengslum við þá staðsetningu elstu barna Lundarsels.
- Horft er til þess að byggt verði við Síðusel og Lundarsel þannig að í framtíðinni rúmi þeir um 90 - 100 börn hvor um sig.
- Sunnuból er starfrækt í leiguhúsnæði en samningur um það rennur út árið 2013. Ekki er lagt til að framlengja samning heldur verði skólinn lagður niður og börnum deilt á milli Lundarsels og Naustatjarnar en flest þeirra barna sem eru á Sunnubóli nú eru búsett í hverfum sem liggja að Lundarseli og Naustatjörn. Forsenda þess að hægt sé að bæta við börnum á Naustatjörn er samnýting húsnæðis Naustatjarnar og Naustaskóla og náin samvinna skólanna.
- Skólastjórnendur á Naustatjörn og í Naustaskóla hafa lýst áhuga á því að gera tilraun um samþættingu skólanna tveggja eða jafnvel sameiningu. Þegar Naustaskóli var stofnaður var horft sérstaklega til þessa og strax á fyrsta starfsári hans var hluti starfssemi Naustatjarnar hýst innan veggja Naustaskóla og mötuneyti leikskólans nýtt fyrir Naustaskóla. Samstarf skólanna tveggja hefur þróast á farsælan hátt og ástæða til að ætla að það geti þróast enn frekar.
- Hlíðaból er einkarekinn leikskóli og er ekki gert ráð fyrir breytingum þar að sinni, en verið er að skoða stöðu skólans með tilliti til viðmiðana sem hér eru lagðar til.

Skólanefnd samþykkir samhljóða að leggja þessar tillögur fram til umræðu og óskar eftir ábendingum við þær innan þriggja vikna. Skólanefnd felur fræðslustjóra að senda skýrsluna og tillögurnar til rýnihópa sem ákveðið var að fengju þær til umsagnar.

Skólanefnd - 18. fundur - 08.06.2011

Farið var yfir fyrirliggjandi viðbrögð við tillögum skólanefndar vegna endurskoðunar á stjórnkerfi skóla á Akureyri.

Í ljósi athugasemda við skilafrest á greinargerðum og ábendingum við tillögur skólanefndar sem fram koma í skýrslu um endurkoðun á stjórnkerfi skólanna, samþykkir skólanefnd að lengja skilafrestinn til 1. september 2011.

Skólanefnd - 19. fundur - 20.06.2011

Umræður voru um tillögur í fyrirliggjandi skýrslu og framkomin viðbrögð.

Skólanefnd - 22. fundur - 22.08.2011

Farið yfir stöðu málsins nú þegar umsagnarfrestur er að renna út og með hliðsjón af kjaraviðræðum sveitarfélaga og FL.

Skólanefnd samþykkir að lengja umsagnarfrest við skýrslu um endurskoðun á stjórnkerfi skóla til 12. september 2011.

Skólanefnd - 27. fundur - 03.10.2011

Fyrir fundinn voru lagðar til kynningar og umræðu athugasemdir sem borist hafa við skýrslu sem lögð var fram í maí 2011.

Skólanefnd þakkar öllum þeim sem skiluðu inn greinargerðum um fyrirliggjandi skýrslu, fyrir þá miklu vinnu sem lögð var í þær.

Skólanefnd - 35. fundur - 19.12.2011

Ályktun dags. 14. desember 2011 frá leikskólastjórum í leikskólum Akureyrarbæjar. Þar er þess krafist að skólanefnd ljúki því vinnuferli sem fór af stað fyrir rúmu ári síðan á endurskoðun og úttekt á stjórnkerfi skóla á Akureyri. Er óskað eftir skýrum svörum sem allra fyrst og eigi síðar en 15. janúar 2012.

Skólanefnd harmar að vinnan við verkefnið hefur dregist svo á langinn, en fyrir því eru óviðráðanlegar ástæður. Skólanefnd leggur áherslu á að hraða vinnunni og ljúka henni sem fyrst á nýju ári.

Skólanefnd - 2. fundur - 23.01.2012

Á fundinum var farið yfir stöðu mála hjá stýrihópi um verkefnið. Fram kom að stýrihópurinn mun skila af sér innan skamms.
Kristlaug Svavarsdóttir yfirgaf fundinn kl. 16:10.

Skólanefnd - 6. fundur - 19.03.2012

Fyrir fundinn voru lagðar tillögur stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Tillögurnar fela meðal annars í sér að heildstæðir grunnskólar með 400-500 nemendum á aldrinum 6-16 ára verði festir í sessi, unnið verði að sameiningu leikskóla þannig að á hverjum þeirra verði 90-150 börn, hvatt verði til aukinnar teymisvinnu kennara í öllum skólum bæjarins og dreifstýring verði aukin í leikskólum til samræmis við það sem er í grunnskólum. Markmið tillagnanna er að efla faglegt starf innan skóla Akureyrarbæjar.
Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd samþykkir að fresta afgreiðslu á tillögunum til næsta fundar svo tækifæri gefist til frekari skoðunar, kynningar og umræðu.

Skólanefnd - 7. fundur - 28.03.2012

Á fundinum var rætt um tillögur stýrihóps um stjórnkerfisbreytingar sem lagðar voru fram á síðasta fundi skólanefndar.
Logi Már Einarsson S-lista yfirgaf fundinn kl. 09:07.

Skólanefnd - 8. fundur - 11.04.2012

Fyrir fundinn voru lagðar tillögur stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Tillögurnar fela meðal annars í sér að unnið verði að sameiningu leikskóla þannig að á hverjum þeirra verði 90-150 börn, hvatt verði til aukinnar teymisvinnu skólastjórnenda og kennara í öllum skólum bæjarins og dreifstýring verði aukin í leikskólum til samræmis við það sem er í grunnskólum. Markmið tillagnanna er að efla faglegt starf innan skóla Akureyrarbæjar.
Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Meirihluti skólanefndar samþykkir tillögur stýrihópsins og vísar þeim til bæjarstjórnar.

Helgi Vilberg Hermannsson A-lista og Logi Már Einarsson S-lista sátu hjá við afgreiðslu.

Logi Már Einarsson S-lista bókar eftirfarandi:

Lögð hefur verið áhersla á sjálfstæði grunnskóla Akureyrar til þróunar kennsluhátta samhliða auknu frelsi foreldra til að velja börnum sínum skóla. Samfylkingin á Akureyri leggur ríka áherslu á að skólar bæjarins starfi samkvæmt aðalnámskrá og stjórnun þeirra sé fagleg, hagkvæm og árangursrík. Tekið er undir ýmislegt sem fram kemur í skýrslu stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Þó þarf að tryggja að ekki sé þrengt um of að sjálfstæði skólanna til að þróa kennsluhætti og skólastarf, þannig að fölbreytni verði sem mest.

Bæjarstjórn - 3319. fundur - 17.04.2012

1. liður í fundargerð skólanefndar dags. 11. apríl 2012:
Fyrir fundinn voru lagðar tillögur stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Tillögurnar fela meðal annars í sér að unnið verði að sameiningu leikskóla þannig að á hverjum þeirra verði 90-150 börn, hvatt verði til aukinnar teymisvinnu skólastjórnenda og kennara í öllum skólum bæjarins og dreifstýring verði aukin í leikskólum til samræmis við það sem er í grunnskólum. Markmið tillagnanna er að efla faglegt starf innan skóla Akureyrarbæjar.
Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is
Meirihluti skólanefndar samþykkir tillögur stýrihópsins og vísar þeim til bæjarstjórnar.
Helgi Vilberg Hermannsson A-lista og Logi Már Einarsson S-lista sátu hjá við afgreiðslu.
Logi Már Einarsson S-lista bókar eftirfarandi:
Lögð hefur verið áhersla á sjálfstæði grunnskóla Akureyrar til þróunar kennsluhátta samhliða auknu frelsi foreldra til að velja börnum sínum skóla. Samfylkingin á Akureyri leggur ríka áherslu á að skólar bæjarins starfi samkvæmt aðalnámskrá og stjórnun þeirra sé fagleg, hagkvæm og árangursrík. Tekið er undir ýmislegt sem fram kemur í skýrslu stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Þó þarf að tryggja að ekki sé þrengt um of að sjálfstæði skólanna til að þróa kennsluhætti og skólastarf, þannig að fölbreytni verði sem mest.

Brynjar Davíðsson L-lista, Hermann Jón Tómasson S-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista véku af fundi bæjarstjórnar við umræðu og afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.

Bæjarstjórn samþykkir bókun meirihluta skólanefndar og tillögu stýrihópsins með 6 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista og Ólafs Jónssonar D-lista.

Skólanefnd - 19. fundur - 10.12.2012

Lögð fram til kynningar staða verkefna skv. minnisblaði dags. 10. desember 2012 um breytingar á stjórnkerfi skóla.

Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri vék af fundi kl. 15:19.