Leikskólinn Iðavöllur - úttekt á skólastarfi

Málsnúmer 2010030057

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 26. fundur - 06.12.2010

Tilkynning dags. 6. september 2010 frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem tilkynnt er um niðurstöður úttektar á leikskólanum Iðavelli. Fyrir fundinum lá skýrsla um niðurstöðurnar. Kristlaug Þ. Svavarsdóttir skólastjóri leikskólans kynnti niðurstöðurnar sem eru að leikskólinn Iðavöllur uppfyllir þau ákvæði sem fram koma í þeim viðmiðum sem lögð voru til grundvallar. Þetta á við um aðstöðu og búnað leikskólans, stjórnunarhætti og samskipti innan leikskólans og við aðila utan hans. Helstu styrkleikar í starfi leikskólans felast í sveigjanlegum starfsháttum, styrkri stjórn og upplýsingamiðlun. Sérstaða leikskólans felst í faglegu uppeldis- og menntastarfi sem tekur mið af því að gefa börnum fjölbreytt tækifæri til að læra með því að uppgötva og reyna sjálf í gegnum leik. Á Iðavelli ríkir jákvæður og góður starfsandi og starfsmenn bera traust til stjórnenda leikskólans. Foreldrar eru einnig ánægðir með samstarf og áherslur í leikskólastarfinu og telja að börnunum líði vel. Það sem betur má fara er að skólanámskrá þarf að vera markvissari m.t.t. markmiða, leiða og í daglegu starfi, innra mat leikskólans þarf að vera markvissara og sýnilegra og framsetning og innihald skriflegra gagna þarf að vera markvissara.

Skólanefnd lýsir ánægju sinni með jákvæða niðurstöðu matsins og þakkar stjórnendum og starfsfólki Iðavallar fyrir gott og metnaðarfullt starf og óskar þeim áframhaldandi velgengni.

Skólanefnd - 18. fundur - 19.11.2012

Lagt fram til kynningar bréf dags. 12. nóvember 2012 frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna úttektar á skólastarfi Iðavallar.

Málinu frestað til næsta fundar.

Skólanefnd - 19. fundur - 10.12.2012

Lagt var fram bréf dags. 12. nóvember 2012 frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu með ósk um úrbætur á skólanámskrá Iðavallar, innra mati og framsetningu skriflegra gagna.

Ráðuneytinu verður sent svarbréf þess efnis að leikskólinn Iðavöllur hefur orðið við þessum athugasemdum og hefur nú þegar lagt fram endurskoðaða skólanámskrá sem send verður með sem fylgiskjal.

Skólanefnd þakkar starfsfólki Iðavallar fyrir vönduð vinnubrögð.