Jafnréttisnefnd

5700. fundur 25. janúar 2005
32. fundur
25.01.2005 kl. 08:00 - 10:00
Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Gerður Jónsdóttir formaður
Alfreð Almarsson
Elín M. Hallgrímsdóttir
Þorlákur Axel Jónsson
Íris Dröfn Jónsdóttir
Katrín Björg Ríkarðsdóttir ritaði fundargerð


1 Afmælisárið 2005
2005010077
Í ár verða liðin 90 ár frá því konur á Íslandi fengu kosningarétt til Alþingis og 30 ár frá kvennafrídeginum. Rætt var um að kalla saman áhugasama einstaklinga og félög sem saman gætu unnið að viðburðum á afmælisárinu.
Jafnréttisráðgjafa falið að auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum og félögum.


2 Kynjahlutfall í samstarfsnefndum og vinnuhópum
2004110087
Farið yfir úttekt jafnréttisráðgjafa frá október sl. á kynjahlutfalli í samstarfsnefndum og vinnuhópum.
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd felur jafnréttisráðgjafa að senda úttektina til nefnda og ráða til upplýsingar.


3 Reglur um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ
2004040054
Formaður kynnti tillögur vinnuhóps um reglur um yfirvinnu hjá Akureyrarbæ sem bæjarstjórn samþykkti 18. janúar sl. og er m.a. ætlað að auka gegnsæi launa og jafnrétti milli stétta og kynja.
Almennar og gegnsæjar reglur um launagreiðslur eru nauðsynlegar. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þessar breytingar hafa á laun starfsmanna út frá kynjasjónarmiði og teljum við þurfa nánari útlistanir og meiri yfirsýn hvað það varðar.


4 Starfsáætlun jafnréttis- og fjölskyldunefndar 2004
2004010125
Farið yfir starfsáætlun síðasta árs.5 Dómsmál nr. 258/2004
2001040079
Tekinn til umfjöllunar dómur Hæstaréttar frá 20. janúar sl. í máli Akureyrarbæjar gegn Guðrúnu Sigurðardóttur og gagnsök.
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd Akureyrar fagnar því að niðurstaða sé komin í málaferlum Akureyrarbæjar og deildarstjóra fjölskyldudeildar vegna launamismununar.
Niðurstaðan er ljós og hefur fordæmisgildi á vinnumarkaði, kjarasamningar réttlæta ekki kynbundinn launamun og unnt er að meta sambærileika ólíkra starfa með starfsmati.
Hjá Akureyrarbæ hefur margt breyst til hins betra á undanförnum árum. M.a. hafa verið innleiddir sérstakir embættismannasamningar sem æðstu stjórnendur bæjarins taka laun skv. að undangengnu starfsmati. Þá hefur Akureyrarbær ásamt öðrum aðilum Launanefndar sveitarfélaga og viðsemjendum innleitt kynhlutlaust starfsmatskerfi.
En launamunur kvenna og karla í íslensku samfélagi hefur ekki aðeins falist í grunnlaunum heldur einnig yfirvinnugreiðslum. Til þess að sporna við slíku samþykkti bæjarstjórn fyrir skömmu tillögu að sérstökum reglum um yfirvinnugreiðslur þar sem kveðið er á um að einungis verði greitt fyrir unna yfirvinnu. Tillögur að reglum þessum voru settar með það í huga að auka gegnsæi launa og jafnrétti kynja.
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd Akureyrar beinir því til stéttarfélaga og atvinnurekenda um allt land að vinna að því að leita leiða til þess að koma í veg fyrir að kynbundinn launamunur geti myndast vegna mismunandi kjarasamninga eða annarra þátta og hvetur jafnframt til notkunar kynhlutlauss starfsmats hvar sem því verður við komið.

Þorlákur Axel Jónsson óskar bókað: Harma ber að Akureyrarbær hafi enn á ný verið dæmdur til þess að greiða starfsmanni sínum skaðabætur vegna brota á jafnréttislögum. Komið hefur í ljós að málarekstur bæjarins í jafnréttismálum undangenginna ára hefur ekki verið byggður á haldbærum rökum. Taka ber mið af þessari reynslu í afgreiðslu sambærilegra mála sem upp kunna að koma.
Fundi slitið.