Hrísey

6007. fundur 07. desember 2004

Samráðsnefnd um málefni Hríseyjar 7. desember 2004

4. fundur.

Ár 2004, þriðjudaginn 7. desember var fundur haldinn í samráðsnefnd um málefni Hríseyjar. Mættir voru: Kristinn Fr.Árnason formaður, Þröstur Jóhannsson, Þorgeir Jónsson, Ingimar Ragnarsson og Heimir Áslaugsson 1. varam. ( fyrir Almar Björnsson)

Formaður setti fund og stjórnaði. Ingimar skráði fundargerð í bók.

Fundargerð síðasta fundar lesin upp, engar athugasemdir voru gerðar við hana.

Dagskrá

1. Formaður las bréf sem hann sendi Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra dags 16. nóvember sl. sem innihélt spurningar varðandi heimasíðu Hríseyjar og málefni Hleinar.

Svar barst frá Kristjáni 29. nóvember sl.

1. Heimasíða Hríseyjar.

Fyrir liggur tilboð um færslu upplýsinga af vef Hríseyjar, breytingu á veftré og fleiri atriði. (áfram verður þó slóðin hrísey.is)

Hvað varðar umsjónaraðila er allt opið í þeim efnum. (Samráðsnefnd lagði til á síðasta fundi að Kristín Björk Ingólfsdóttir yrði umsjónarmaður Hríseyjarvefsins.)

2. Málefni Hleinar.

Varðandi Hlein er það að frétta að beðið er eftir að félagsmálaráðuneyti láti Íbúðalánasjóð sjá um sitt varðandi áhvílandi lán en engar frekari fréttir eru um vinnu ráðuneytisins í því að koma þarna inn einhverri starfsemi.

Kristján kom svo inn á í bréfi sínu varðandi fjárhagsáætlun næsta árs.

Þar segir orðrétt: Varðandi fjárhagsáætlun næsta árs þá er gert ráð fyrir að reksturinn verði í ósköp svipuðu formi í eynni og var á síðasta ári, væntanlega þurfum við þó að fara í einhverjar snyrtingar hér og þar í rekstrinum til að þetta geti allt komið heim og saman.

Varðandi fjárfestingar þá gerum við ráð fyrir í áætlun næsta árs hjá FAK ( Fasteignum Akureyrarbæjar) að hafinn verði undirbúningur að ek.. fjölnota húsi í stað Sæborgar og það komi inn á til framkvæmda 2006 skv. þeirri tillögu sem ákv. verður að fylgja.

Lagt fram til kynningar og er þetta gleðileg fregn ef áætlun um byggingu fjölnota húss hér í Hrísey kemur til með að standa.

2. Önnur mál.

1. Byggðakvóti/úthlutun 2004.

Lögð var inn umsókn um byggðakvóta 30. september sl. vegna byggðalagsins Hríseyjar.

Til Hríseyjar komu 115 tonn. Er þetta það mesta sem við höfum fengið frá því að við fengum fyrst úthlutað 2002. Það verður svo í höndum sveitarfélagsins að skipta þessum kvóta í Hrísey.

Samráðsnefnd getur nú ekki annað en fagnað þessari úthlutun í ár.

2. Skýrsla ferðamálafulltrúa.

Enn hefur ekki borist skýrsla frá ferðamálafulltrúa v/2004.

Samráðsnefnd telur mjög mikilvægt að kalla eftir henni.

Formanni falið að halda áfram að kalla eftir skýrslunni.

3. Hjartastuðtæki.

Rætt var um hvernig best sé að standa að hjartastuðtækinu sem Sparisjóður Svarfdæla gaf hreppnum í vor.

Ákveðið að kalla saman þá aðila sem eru í sjúkraflutningum og fá það á hreint hvernig þessi mál gætu verið, en það er mjög brýnt að koma þessum málum á hreint.

Samráðsnefnd leggur til að þessi mál þ.e. sjúkraflutningar, slökkviliðsmál og björgunarmál verði komið á eina hendi í eyjunni.

Þorgeiri falið að hefja viðræður sem fyrst við þá sem hlut eiga að máli.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.00.

Kristinn Fr. Árnason formaður

Þröstur Jóhannsson varaformaður

Þorgeir Jónsson

Ingimar Ragnarsson

Heimir Áslaugsson

Fundarritari Ingimar Ragnarsson

Fundargerð skráð í tölvu af Kristni Árnasyni.