Hrísey

6084. fundur 12. maí 2005

Samráðsnefnd um málefni Hríseyjar 9. febrúar 2005.

7. fundur.

Ár 2005, miðvikudaginn 9. febrúar kl 18.00 var fundur haldinn í samráðsnefnd um málefni Hríseyjar.

Mættir voru: Kristinn Fr. Árnason formaður, Þröstur Jóhannsson, Þorgeir Jónsson, Ingimar Ragnarsson og Almar Björnsson.

Formaður setti fund og stjórnaði, Ingimar skráði fundargerð í bók.

Fundargerð síðasta fundar lesin upp,engar athugasemdir voru gerðar við hana.

                                   DAGSKRÁ

1. Byggðakvóti 2004/2005

Umsóknir um byggðakvóta 2004/2005 lagðar fram til kynningar, en þær verða teknar fyrir hjá bæjarráði á morgun 10. febrúar.
Líflegar umræður sköpuðust um þetta mál eins og oft vill verða.
Heyrst hefur að trillusjómenn séu ósáttir við að það séu tvö verð í gangi hjá fiskvinnslu sem tekur við byggðakvóta, þ.e.a.s. minna verð fyrir innlegg á byggðakvóta.

2. Hríseyjarhátíð-Fjölskylduhátíð

Formaður hátíðarnefndar skilaði reikningum fyrir "Fjölskylduhátíð 2004" til formanns samráðsnefndar 2. febrúar sl, þeir lagðir fram til umræðu og málefni hátíðarinnar almennt. Ljóst er að verulegt tap var á hátíðinni og má segja að ástæðurnar séu m.a. að styrkir skiluðu sér ekki eins og til var ætlast, hætta þurfti að rukka inn um tíma v/klögumála til Vegagerðarinnar ( en hátíðargjaldið var rukkað inn upp á Árskógssandi og var fargjald með ferjunni innifalið) og svo var veðurspáin óhagstæð fyrir okkar svæði sem ekkert varð svo úr.
Endurskoða þarf framkvæmd og fjárhagslegan grunn fjölskylduhátíðarinnar og ákvað samráðsnefnd að boðað verði til almenns fundar um ofangreint málefni helst í þessum mánuði.

3. Ferðamál-Dráttarvélaferðir

Þar sem dráttarvélaferðir eða vagnferðir eins og þær hafa verið kallaðar hafa verið í umsjón ferðamálafulltrúa Hríseyjarhrepps, þarf að endurskoða þann rekstur þar sem líklegt er að ekki verði ráðinn ferðamálafulltrúi í sumar hér í Hrísey á vegum sveitarfélagsins.
Samráðsnefnd telur að best væri að hér yrði stofnað einhverskonar félag um þennan rekstur og einstaklingur væri með þessar dráttarvélaferðir á sinni könnu.
Þetta umrædda félag gæti þá jafnvel líka tekið til sín rekstur og framkvæmd á fjölskylduhátíðinni og jafnvel ferðamál hér í Hrísey almennt.
Ljóst er að þessi ofangreind málefni standa og falla með samfélaginu hér í eyjunni.
Þetta er einnig hægt að ræða á fundinum sem boðaður verður v/ fjölskylduhátíðarinnar.

4. Samráðsnefnd og bæjaryfirvöld

Bæta þarf samskipti samráðsnefndar við bæjaryfirvöld og þurfum við að kynna okkur betur starfsemi Ráðhússins á Akureyri og vita hvert við eigum að snúa okkur með ýmis mál sem koma upp á okkar svæði. Einnig eru þegar ýmis málefni sem eru í lausu lofti eftir því sem við best vitum og þarfnast þau umræðu og festu í sveitarfélaginu.
Formanni falið að taka niður punkta um þessi málefni og óska síðan eftir fundi helst með öllum oddvitum flokkanna sem eru við völd í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar.

5. ADSL fyrir internettengingar í Hrísey.

Síminn hefur sent íbúum hér bréf þar sem leitað er eftir viðskiptavinum til að tengjast ADSL þjónustu Símans, en til þess að Síminn sjái sér fært að setja upp og starfrækja ADSL stöð í Hrísey þarf að vera fjárhagslegur rekstrargrundvöllur fyrir þjónustunni.
Ef nægilegur fjöldi viðskiptavina skrifar sig á lista og skuldbindur sig í áskrift að þjónustunni í 12 mánuði mun Síminn kanna grundvöll fyrir ADSL þjónustuna og í framhaldinu setja upp ADSL stöð í Hrísey.
Samráðsnefnd fagnar þessu framtaki Símans og hvetur fólk til þess að skrá sig fyrir þessari þjónustu og þakkar Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra fyrir að ýta þessu máli af stað.

 

Fleira ekki gert.
Fundi slitið kl 19.45.

Kristinn Fr. Árnason formaður
Þröstur Jóhannsson varaformaður
Þorgeir Jónsson
Ingimar Ragnarsson
Almar Björnsson

Fundarritari Ingimar Ragnarsson
Fundargerð skráð í tölvu af Kristni Árnasyni