Hrísey

6079. fundur 11. maí 2005

6. fundur.

Ár 2005, miðvikudaginn 12. janúar var fundur haldinn í samráðsnefnd um málefni Hríseyjar.

Mættir voru: Kristinn Fr. Árnason formaður, Þröstur Jóhannsson, Þorgeir Jónsson, og Ingimar Ragnarsson.

Formaður setti fund og stjórnaði. Ingimar skráði fundargerð í bók.

Fundargerð síðasta fundar lesin upp, engar athugasemdir voru gerðar við hana.

                                    DAGSKRÁ

1. Heimsókn bæjarstjóra.

    Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri kom í heimsókn 5. janúar sl. og tók formaður samráðsnefndar Kristinn Árnason á móti honum og áttu þeir fund saman.

Umræðuefnið var um stöðu og gang mála í eyjunni og ekki er annað hægt að segja en að staðan í eyjunni sé í ágætis farvegi. Fólk vantar í vinnu ef eitthvað er og jafnvel hefur borið á húsnæðisskorti. Komið var inn á byggingu fjölnota hússins sem er á fjárhagsáætlun hjá Fasteignum Akureyrarbæjar 2005 og 2006. samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 1989 er gert ráð fyrir opinberri eða fjölnota byggingu ofan við sundlaug og er ekkert því til fyrirstöðu að fjölnotasalurinn komi til með að rísa þar.

Í framhaldi af þessari umræðu skoðaði samráðsnefnd sér til gamans teikningar og kostnaðaráætlun sem til var um byggingu íþróttahúss frá árinu 1979.

Samráðsnefnd óskar eftir því við bæjaryfirvöld að fá að fylgjast vel með þessari vinnu um byggingu fjölnotahúss í Hrísey.

 

 2. Umræður um Norðurskel ehf, og atvinnumál almennt.

 Nú er loksins eitthvað að skýrast varðandi framtíð Norðuskeljar ehf. Vinna við að auka hlutafé í fyrirtækinu hefur tekið mjög langan tíma og eftir því sem forráðamenn fyrirtækisins hafa sagt er þeirri vinnu að ljúka á næstu dögum.

Atvinnumálin eru annars í ágætri stöðu og hafa menn talað um að það vanti fólk í vinnu hjá Sjávarfangi og einnig vantar fólk í línubeitningu hjá Hvammi ehf.

 

3. Ferðamál og framtíð Hríseyjarhátíðar (Fjölskylduhátíðar)

 Rætt var um að vinnu við skipulagningu og tilhögun ferðamála og fjölskylduhátíðar fyrir næsta sumar yrði að hefjast á næstu vikum.

Stefnan er sú að Fjölskylduhátíð fullveldisins í Hrísey eins og hún hefur jafnan verið kölluð verði áfram og að sjálfsögðu í höndum heimamanna þrátt fyrir sameiningu, enda ljóst að svona hátíð stendur og fellur með heimamönnum.

Eftirfarandi var bókað tengt þessum málum:

Þar sem skýrsla ferðamálafulltrúa og uppgjör v/ hátíðar 2004 hefur enn ekki borist til samráðsnefndar var ákveðið að senda ferðamálafulltrúa og formanni hátíðanefndar 2004 Haraldi Inga Haraldssyni bréf um að þessari vinnu yrði að fara að ljúka og fær hann frest til 1. febrúar n.k. til að skila skýrslu um ferðamál og lokauppgjör vegna fjölskylduhátíðar 2004.

 Fleira ekki gert.

 Fundi slitið kl 20:00.

Kristinn Fr. Árnason formaður

Þröstur Jóhannsson varaformaður.

Þorgeir Jónsson

Ingimar Ragnarsson.

 

Fundarritari: Ingimar Ragnarsson

Fundargerð skráð í tölvu af Kristni Árnasyni.