Framkvæmdaráð

171. fundur 18. júlí 2008
Framkvæmdaráð - Fundargerð
171. fundur
18. júlí 2008   kl. 08:44 - 11:00
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Helena Þuríður Karlsdóttir formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Eva Hrund Einarsdóttir
Helgi Már Pálsson
Jón Birgir Gunnlaugsson
Jónas Valdimarsson
Aðalheiður Magnúsdóttir fundarritari
1.          Fráveita - skilgreining viðtaka
2008070048
Kynnt var tillaga að skilgreiningu á Eyjafirði, sem síður viðkvæmum viðtaka, sbr. reglugerð 798/1999. Tillagan var unnin af verkfræðistofunni Línuhönnun og Verkfræðistofu Norðurlands í júní / júlí á þessu ári. Niðurstöður mælinga sýna að magn persónueininga ( PE ) eru um 65.000 þar sem um 17.000 PE koma frá íbúum Akureyrar og þá koma um 48.000 PE frá vinnsluvatni í iðnaði í bænum. Viðmið vegna umhverfismats á hreinsimannvirkjum er 50.000 PE og gert er að tillögu að ef áframhaldandi mælingar sýna há mæligildi, þ.e. umfram 50.000 PE þá verði sett losunarmörk á fyrirtæki í bænum sem losa hvað mest af lífrænum efnum í fráveitukerfið.
Framkvæmdaráð samþykkir tillögu frá Línuhönnun um skilgreiningu á Eyjafirði, sem síður viðkvæmum viðtaka, þar sem gert er ráð fyrir að ný skólphreinsistöð taki við minna en 50.000 PE.  Jafnframt er starfsmönnum falið að endurskoða reglugerð um fráveitu Akureyrarbæjar.


2.          Fráveita - bygging hreinsistöðvar
2006100064
Jónas Karelsson verkfræðingur hjá VST mætti á fundinn og fór yfir samanburð verkfræðistofunnar á áður kynntri tæknilausn frá Varmaverki / Meva (163. fundur, 15. febrúar sl.) og sambærilegri lausn frá Röst / Huber. VST hefur gert verðfyrirspurn til þessara tveggja aðila og skoðað gæði beggja lausna og voru niðurstöður kynntar á fundinum. Taka þarf afstöðu til þeirra og eins um hugsanlega endurröðun á framkvæmdaáætlun 2008-2010, en 200,0 mkr. eru áætlaðar til framkvæmda við hreinsimannvirki á þessu ári auk 75,0 mkr. vegna útrásar.
Framkvæmdaráð felur deildarstjóra framkvæmdadeildar að fara yfir samanburð tæknilausna frá Varmaverki og Röst og leggja fyrir framkvæmdaráð að nýju.  Ennfremur samþykkir framkvæmdaráð að fresta byggingu hreinsistöðvar. En áætluð verklok breytast ekki. En flýta framkvæmdum við dælustöð við Krossanes.


3.          Krossanes - námuvinnsla
2008070049
Skútaberg ehf., áður Arnarfell hf., hefur til margra ára verið með samkomulag um námu- og efnisvinnslu í Krossanesi. Væntanlega fer að sjá fyrir endann á þessari námuvinnslu innan næstu tveggja ára og því nauðsynlegt að gera samkomulag við viðkomandi um það með hvaða hætti frágangi á svæðinu og skilum á námunni verði háttað.
Einnig þarf að meta hvort sækja þurfi um framkvæmdaleyfi fyrir námunni vegna nýrra náttúruverndarlaga er tóku gildi 1. júlí sl.
Framkvæmdaráð felur deildarstjóra framkvæmdadeildar að gera drög að samkomulagi við Skútaberg ehf. um frágang á námavinnslusvæðinu í Krossanesi, með hvaða hætti skilum á námunni skuli háttað og hvenær verklok skulu vera.  Ennfremur er deildarstjóra falið að skoða hvort sækja þurfi um framkvæmdaleyfi fyrir námunni vegna nýrra náttúruverndarlaga sem tóku gildi 1. júlí sl.


4.          Vegagerðin - þjóðvegir í þéttbýli - forgangsröðun
2008070051
Á fjárhagsáætlun Vegagerðarinnar á þessu ári eru áætlaðar 21,0 mkr. til framkvæmda við þjóðveg í þéttbýli (væntanlega tengt gatnamótun Grænugötu, sbr. fjárhæð 10,0 mkr. árið 2007 og 21,0 mkr. árið 2008. Frá þessari upphæð dragast nú um 5,0 mkr. vegna uppgjörs á framkvæmdum við hringtorg á Hörgárbraut / Síðubraut, en áður fóru 10,0 mkr. af áætlun ársins 2007 til greiðslu á kostnaði við hringtorgið sem Akureyrarbær hafði fjármagnað og unnið á árinu 2006.
Skoða þarf forgangsröðun framkvæmda m.a. vegna framkvæmdaáætlunar Akureyrarbæjar, þar sem gert er ráð fyrir 20,0 mkr. árið 2009 vegna gerðar undirganga á Hörgárbraut .
Vegna vinnu við framtíðarskipulag Akureyrarvallar telur framkvæmdaráð rétt að frestað verði framkvæmdum við gatnamót Grænugötu þar sem þau tengjast framtíðarskipulagi vallarins. Að mati framkvæmdaráðs eru undirgöng undir Hörgárbraut / þjóðveg 1 forgangsverkefni sem beri að fara í hið fyrsta. Ráðið leggur því áherslu á að það fjármagn sem Vegagerðin áætlar í vegaáætlun 2008 fari í gerð undirganganna að viðbættu því fjármagni sem nauðsynlegt er til að ljúka gerð undirganganna á árinu 2009.  Ráðið felur deildarstjóra framkvæmdadeildar að senda erindi þess efnis til Vegagerðarinnar.
Framkvæmdaráð beinir því til bæjarráðs að þrýsta á um að fjármagn fáist frá Vegagerðinni til verksins.


5.          Framkvæmdaáætlun  2008
2008070050
Farið yfir stöðu fjárhags- og framkvæmdaáætlunar ársins 2008.
 Framkvæmdaráð þakkar fyrir yfirferð yfir stöðu fjárhags- og framkvæmdaáætlunar 2008.Fundi slitið.