Framkvæmdaráð

7125. fundur 07. apríl 2006
121. fundur
07.04.2006 kl. 08:15 - 10:20
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Jakob Björnsson formaður
Þórarinn B. Jónsson
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Valgerður H. Bjarnadóttir
Ármann Jóhannesson
Jón Birgir Gunnlaugsson
Herborg Sigfúsdóttir fundarritari


Sigrún Björk Jakobsdóttir boðaði forföll.
1 Staðardagskrá 21 fyrir Akureyri - endurskoðun
2005010108
Tekin fyrir að nýju drög að Staðardagskrá 21, sem snúa að framkvæmdadeild, sem frestað var á fundi framkvæmdaráðs 3. mars 2006. Ingimar Eydal formaður náttúruverndarnefndar mætti á fundinn undir þessum lið.
Framkvæmdaráð leggur til að liðnum "hjólaleiðir við helstu götur" verði breytt þannig að í stað megin hjólaleiða meðfram götum komi, megin göngu- og hjólaleiða. Framkvæmdaráð samþykkir aðra þætti endurskoðaðrar Staðardagskrár 21 sem falla undir verksvið ráðsins.


2 Andapollur - framkvæmdir
2004120077
Kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir. Halldór Jóhannsson frá teiknistofunni Teikn á lofti mætti á fundinn undir þessum lið.
Framkvæmdaráð heimilar að unnið verði áfram á grundvelli skipulagsins. Ákvörðun um útboð og hugsanlega áfangaskiptingu verður tekin þegar kostnaðaráætlun liggur fyrir.


3 Rekstur tækni- og umhverfissviðs
2005080076
Greining rekstrar 2005 vegna framkvæmdadeildar og Slökkviliðs Akureyrar.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.


4 Mýrarvegur - hljóðvist og hraðatakmarkanir
2004110040
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs dags. 20. mars 2006 um aðgerðir til að draga úr umferð stórra bíla um Mýrarveg. Tillögurnar eru fram komnar vegna ákvörðunar bæjar- stjórnar 14. júní 2005. Tillögurnar voru til umfjöllunar í umhverfisráði 23. nóvember 2005. Einnig var málið til umfjöllunar í bæjarráði 16. febrúar sl. Sviðsstjóri lagði fram drög að reglum um styrki vegna hljóðvistar hjá Akureyrarbæ.
Framkvæmdaráð heimilar að ráðist verði í framkvæmdir samkvæmt tillögum þeim sem fram koma í minnisblaðinu frá 20. mars sl., þ.e. gerð hraðahindrana á Mýrarvegi og breytingu á gatnamótum Miðhúsabrautar og Þórunnarstrætis. Afgreiðslu á reglum um styrki vegna hljóðvistar er frestað.


5 Strætisvagnaskýli í göngugötu
2006020121
Í viðtalstíma bæjarfulltrúa 27. mars 2006 var farið fram á að strætisvagnaskýlið í göngugötu yrði fjarlægt. Vísað til framkvæmdaráðs.
Biðstöðin við suðurenda "göngugötunnar" gegnir mikilvægu hlutverki í þjónustu við farþega SVA. Framkvæmdaráð getur því ekki orðið við erindinu.


6 Styrkbeiðni
2006020128
Erindi dags. 24. febrúar 2006 frá Pétri Björgvini Þorsteinssyni djákna þar sem hann óskar eftir styrk í formi Akureyrarkorts þ.e. ókeypis notkun á strætó ásamt öðrum fríðindum, vegna erlendra sjálfboðaliða þeirra Martin Pleiss sem mun dvelja hér til 15. ágúst og Silviu Geiger sem mun dvelja til 15. september nk. Vísað af fundi íþrótta- og tómstundarráðs 28. mars 2006.
Framkvæmdaráð samþykkir erindið um frí afnot ofangreindra einstaklinga af SVA þann tíma sem þau dvelja á Akureyri. Framkvæmdaráð leggur til að mótaðar verði einfaldar reglur um úthlutun slíkra "fríðindakorta." Markaðs- og kynningadeild verði falið að afgreiða beiðnir sem berast og fái til þess árlegan fjárhagsramma og "kaupi" því aðgengi af viðkomandi stofnunum í hverju tilfelli.Fleira ekki gert.
Fundi slitið.