Framkvæmdaráð

1881. fundur 26. júní 2000

Framkvæmdaráð 26. júní 2000
2. fundur.


Ár 2000, mánudaginn 26. júní kl. 09.00 kom framkvæmdaráð saman til fundar að Geislagötu 9, 4. hæð. Neðanritaðir ráðsmenn sátu fundinn ásamt Guðmundi Guðlaugssyni yfirverkfræðingi.

Á fundi sínum þann 20. júní sl. kaus bæjarstjórn Ásgeir Magnússon sem formann framkvæmdaráðs og Sigurð J. Sigurðsson sem varaformann.

Þetta gerðist:

  1. Skólamötuneyti á Akureyri – skýrsla VSÓ ráðgjafar.
   Undir þessum lið sat Karl Guðmundsson sviðsstjóri félagssviðs fundinn. Fram var lögð skýrsla VSÓ ráðgjafar ehf. Akureyri sem þáverandi framkvæmdanefnd óskaði eftir í mars sl.

   Framkvæmdaráð óskar eftir, að sviðsstjóri félagssviðs og skólafulltrúi fari yfir skýrsluna og leggi tillögur sínar fyrir ráðið.

  2. Erindi frá Braga Steinssyni, Hraunholti 2 vegna vatnsaga á lóð.
   Tekið var fyrir erindi Braga Steinssonar dags. 17. maí varðandi vatnsaga á lóð hans að Hraunholti 2.

   Framkvæmdaráð felur yfirverkfræðingi að leita leiða til úrbóta í samvinnu við húseigendur.

  3. Inniloftsmál í Brekkuskóla.
   Fram kom að í sjónmáli væri samkomulag um úrbætur milli Akureyrarbæjar, Vinnueftirlits ríkisins og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

   Afgreiðslu frestað.

  4. Orlofshús í Búðargili – greinargerð og tillaga.
   Fram var lagt minnisblað yfirverkfræðings dagsett 6. júní sl. Framkvæmdaráð samþykkir eftirfarandi:

   Lagt er til að umhverfisráð úthluti svæði fyrir orlofshúsabyggð við ofanvert Búðargil samkvæmt aðalskipulagi. Framkvæmdaaðili sem fær svæðinu úthlutað láti vinna tillögu að deiliskipulagi þess í samráði við umhverfisráð sem sér um auglýsingu skipulagsins. Líklegt er að aðkoma verði bæði frá Lækjargötu og Þórunnarstræti og ætti því að vera mögulegt að sá hluti sem hefði aðkomu frá Þórunnarstræti gæti orðið byggingarhæfur með tiltölulega stuttum fyrirvara.

  5. Verkfundagerðir.
   Fram voru lagðar eftirgreindar verkfundagerðir. Lundarskóli, vfg. nr. 28, Sundlaug Akureyrar vfg. nr. 4 og 5 vegna útboðs 5. Leikskólinn Iðavöllur vfg. nr. 1 og 2. Skautahús vfg. nr. 45. Ketilhús vfg. nr. 1 og 2. Oddeyrarskóli vfg. nr. 1.
  6. Frágangur útivistarsvæðis sunnan, vestan og norðan lóðar Mýrarvegs 111 - 113 og gerð gangstéttar austan lóðar.
   Fram voru lagðar áætlanir umhverfisdeildar um frágang svæðisins og kostnað við hann sem er áætlaður 7 milljónir króna.

   Erindinu er vísað til endurskoðunar framkvæmdaáætlunar ársins.

  7. Erindi Nýherja hf. um þróun hugbúnaðar sem gerir bifreiðaeigendum kleift að greiða fyrir notkun bílastæða gegnum farsíma.

   Fram var lagt minnisblað Gunnars H. Jóhannessonar deildarverkfræðings um verkefnið.

   Framkvæmdaráð samþykkir tillögu Gunnars um þátttöku bifreiðastæðasjóðs í verkefninu.

8. Hringtorg á mótum Gleráreyra og Borgarbrautar.
   Yfirverkfræðingur upplýsti að unnið væri að lokahönnun framkvæmdarinnar og að verkið verði boðið út strax og hún liggur fyrir.
Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 10.57.

Sigurður J. Sigurðsson
Valgerður Hrólfsdóttir
Stefán Jóhannesson
Oddur Helgi Halldórsson
Jakob Björnsson
Guðmundur Guðlaugsson fundarritari