Fræðsluráð

16. fundur 18. september 2017 kl. 13:30 - 16:00 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Dagbjört Elín Pálsdóttir formaður
  • Dagný Þóra Baldursdóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Anna Rósa Magnúsdóttir
  • Brynhildur Pétursdóttir
  • Anna María Hjálmarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Soffía Vagnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs ritaði fundargerð
  • Hrafnhildur G Sigurðardóttir leikskólafulltrúi
  • Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður rekstrardeildar
Fundargerð ritaði: Soffía Vagnsdóttir sviðsstjóri fræðslusviðs
Dagskrá
Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista mætti í forföllum Siguróla Magna Sigurðssonar.
Anna Rósa Magnúsdóttir D-lista mætti í forföllum Baldvins Valdemarssonar.

1.Top to top - umhverfisverkefni á alþjóðavísu

Málsnúmer 2017090105Vakta málsnúmer

Dario Schwoerer er svissneskur loftlagsfræðingur og fjallaleiðsögumaður sem býr um borð í skútu sinni ásamt eiginkonu og sex börnum en hún er nú staðsett í Akureyrarhöfn. Yngsta barnið fæddist fyrir réttum mánuði á Akureyri. Dario hefur á ferðum sínum um heiminn upplifað viðkvæmt umhverfið sem hann vísar til sem "sitt eigið vinnuumhverfi" og tók því ákvörðun fyrir rúmum sextán árum um að helga líf sitt fræðslu til almennings, ekki síst fyrir börn, um hvernig á að virða náttúruna og verja hana fyrir komandi kynslóðir.

Dario mætti á fundinn og sagði frá verkefninu Top to top sem hann stofnaði til ásamt eiginkonu sinni Sabine.
Fræðsluráð þakkar Dario fyrir einstaklega áhugavert og fræðandi erindi.

2.Barnabókasetur Íslands

Málsnúmer 2017090094Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. september 2017 frá Brynhildi Þórarinsdóttur f. h. Barnabókaseturs þar sem hún fagnar nýrri læsisstefnu, "Læsi er lykillinn" en vekur jafnframt athygli á mikilvægi aðgerða í kjölfar stefnunnar m.a. með auknu fjárframlagi til barnabókakaupa.
Fræðsluráð þakkar bréf frá Barnabókasetri og góðar ábendingar um að auka lestraráhuga nemenda á markvissan hátt með greiðum aðgangi að fjölbreyttum og spennandi bókum.Fræðsluráð leggur til að settar verði tvær milljónir króna til viðbótar til bókakaupa fyrir skólabókasöfn í skólum Akureyrar. Þessir fjármunir verði teknir af sameiginlegum lið.

3.Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2018 - 2021

Málsnúmer 2017090069Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð tillaga að fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir árið 2018. Tillagan gerði ráð fyrir því að það vanti kr. 37.995.000 upp á að rekstur ársins rúmist innan útgefins ramma sem er kr. 6.857.908.000. Tillagan gerði ekki ráð fyrir neinum breytingum á þjónustustigi skólanna og þeir yrðu reknir með sambærilegum hætti og verið hefur undangengin ár. Í tillögunni felst að gjaldskrár hækki um 2,5%, nema á fæðisgjald í grunnskólunum um 1,5%.

Lagt er til að tekið verði tillit til eftirtaldra þátta varðandi beiðni um hækkun á ramma:

1. Fjölgun kennslustunda í grunnskólunum, sem samsvarar um 4 stöðugildum kennara til að mæta fjölgun nemenda frá haustinu 2018.

2. Gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum.

3. Lautin - ný leikskóladeild í Glerárskóla.

4. Ýmsir liðir sem hækka að langmestu leyti í takt við launabreytingar s.s. rekstur leikskólans Hólmasólar.
Meirihluti fræðsluráðs samþykkir framlagðar tillögur og vísar málinu til frekari afgreiðslu í bæjarráði.Anna Rósa Magnúsdóttir D-lista sat hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar vegna þess að endanleg starfsáætlun liggur ekki fyrir.

4.Gjaldskrár fræðslusviðs 2018

Málsnúmer 2017090102Vakta málsnúmer

Árni Konráð Bjarnason forstöðumaður reksturs fræðslusviðs fór yfir tillögur um gjaldskrár fyrir árið 2018.

Gert er ráð fyrir hækkun á vistunar- og fæðisgjöldum í leikskólum um 2,5%.

Þá er gert ráð fyrir að fæðisgjald í grunnskólum hækki um 1,5%.

Vistunargjald í Frístund hækkar um 2,5%.

Gjaldskrá tónlistarskólans hækkar um 2,5%.
Skólanefnd samþykkir framlagðar tillögur og vísar málinu til afgreiðslu í bæjarráði.

Fundi slitið - kl. 16:00.