Bæjarstjórn

3376. fundur 16. júní 2015 kl. 16:00 - 18:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Sigríður Huld Jónsdóttir 1. varaforseti
 • Ingibjörg Ólöf Isaksen
 • Sóley Björk Stefánsdóttir
 • Anna Hildur Guðmundsdóttir
 • Dagbjört Elín Pálsdóttir
 • Halldóra Kristín Hauksdóttir
 • Silja Dögg Baldursdóttir
 • Bergþóra Þórhallsdóttir
 • Eva Hrund Einarsdóttir
 • Margrét Kristín Helgadóttir
 • Þórunn Sif Harðardóttir
Starfsmenn
 • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
 • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Dagskrá
Í upphafi fundar bauð 1. varaforseti varabæjarfulltrúana Dagbjörtu Elínu Pálsdóttur S-lista, Halldóru Kristínu Hauksdóttur B-lista og Þórunni Sif Harðardóttur D-lista velkomnar á þeirra fyrsta fund í bæjarstjórn og Önnu Hildi Guðmundsdóttur L-lista á hennar fyrsta fund í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili.

Því næst leitaði 1. varaforseti afbrigða til að taka á dagskrá málin "Kaup á listaverki til heiðurs Vilhelmínu Lever" sem verði 1. liður á dagskrá og "Bæjarstjórn Akureyrar - breytingar í nefndum" sem verði 2. liður á dagskrá og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Einnig leitaði 1. varaforseti afbrigða til að skipa Evu Hrund Einarsdóttur D-lista fundarstjóra til vara á þessum bæjarstjórnarfundi og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

1.Kaup á listaverki til heiðurs Vilhelmínu Lever

Málsnúmer 2015060135Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:
Bæjarstjórn samþykkir að keypt verði listaverk til heiðurs Vilhelmínu Lever sem var fyrsta konan til að kjósa til sveitastjórnar á Íslandi árið 1863 hér á Akureyri. Listaverkið verður gjöf til bæjarbúa í tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna til Alþingis árið 2015.
Bæjarstjórn leggur til að bæjarstjóra verði falið að leita til listakonu til að vinna verkið.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Bæjarstjórn Akureyrar - breytingar í nefndum 2014-2018

Málsnúmer 2014060234Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga frá L-lista um tímabundna breytingu á skipan aðalmanns og formanns í framkvæmdaráði svohljóðandi:
Frá og með 1. ágúst 2015 til og með 31. júlí 2016 tekur Halla Björk Reynisdóttir, kt. 170967-5189, sæti aðalmanns og formanns í framkvæmdaráði í stað Dags Fannars Dagssonar, kt. 101278-5659.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi

Málsnúmer 2015060128Vakta málsnúmer

Lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun:

Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi hefur starfað á Akureyri frá árinu 2002. Starfsemin hefur ávallt byggt á ósérhlífni hugsjónafólks og er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að þar hafi verið unnið ómetanlegt starf í gegnum tíðina. Aflið hefur átt í góðu samstarfi við þá aðila sem koma að þjónustu við þolendur ofbeldis, svo sem Akureyrarbæ, lögregluna á Akureyri, slysa- og bráðamóttöku SAk, geðdeild SAk, Kvennaathvarfið í Reykjavík og Símey.
Fyrir marga er það mjög stórt skref að leita sér hjálpar. Það skiptir því máli að aðgengið að þjónustunni sé gott, en Aflið hefur opinn síma allan sólarhringinn, auk þess að taka við beiðnum í tölvupóstum og á samskiptamiðlum. Ráðgjafar eru í viðbragðsstöðu og stökkva til með litlum fyrirvara ef nauðsyn krefur. Mikilvægt er að þolendur geti unnið úr reynslu sinni í heimabyggð óháð efnahag.
Fjárframlög af hálfu hins opinbera hafa verið af mjög skornum skammti. Starfsemi Aflsins hefur liðið fyrir fjárskort og allt of mikill tími og orka hefur farið í fjáröflun til að standa undir brýnustu verkefnum. Aflið hefur því reglulega sent út neyðarkall sem félagasamtök, einstaklingar og fyrirtæki víðs vegar á Norðurlandi hafa svarað með fjárframlögum. Þrátt fyrir að framlög til Aflsins hafi aukist lítillega á undanförnum árum er staðan sú að starfsemi samtakanna er í uppnámi. Aflið hefur ekki efni á að ráða starfsmann, þó ekki væri nema í hálft starf. Öll umsýsla og fjáröflun hvílir því á herðum sjálfboðaliða.
Aflið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki á Akureyri og á Norðurlandi öllu, ef ekki víðar. Þótt það sé jákvætt að þjónusta við þolendur sé efld með ráðningu sálfræðings á SAk kemur það ekki í stað þeirrar þjónustu sem Aflið veitir. Rannsóknir hafa sýnt að jafningjastuðningur við úrvinnslu ofbeldisreynslu er afar mikilvægur í bland við faglegan stuðning. Þar gegna félagasamtök mjög mikilvægu hlutverki.
Fyrir hönd samfélagsins og þolenda ofbeldis óskum við þess að félagsmálaráðherra tryggi Aflinu nauðsynlegt fjármagn til að standa vörð um sambærilega þjónustu á landsbyggðinni og veitt er á höfuðborgarsvæðinu.
Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista á því athygli að hún teldi sig vanhæfa að fjalla um þennan lið.
Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Sóley Björk Stefánsdóttir vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 10 samhljóða atkvæðum.

4.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - Lögmannshlíð, breyting á landnotkun

Málsnúmer 2015050185Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 10. júní 2015:
Skipulagsstjóri lagði fram aðalskipulagsbreytingu dagsetta 10. júní 2015 vegna breyttrar landnotkunar við Lögmannshlíðarkirkjugarð sem unnin er af Árna Ólafssyni frá Teiknistofu Gylfa Guðjónssonar og félaga ehf. Samhliða verður unnið deiliskipulag af svæðinu (mál nr. 2015040106).
Fyrir liggur umsögn Norðurorku dagsett 3. júní 2015 þar sem ekki er gerð athugasemd við aðalskipulagsbreytinguna en bent er á að lagnir Norðurorku eru innan svæðisins.
Fyrir liggur umsögn Minjastofnunar Íslands dagsett 3. júní 2015. Fornleifaskráning uppfyllir ekki lágmarksskilyrði Minjastofnunar Íslands um skráningu fornleifa vegna deiliskipulags. Því er nauðsynlegt að endurskoða fornleifaskráninguna í samræmi við staðla Minjastofnunar áður en gengið verður frá deiliskipulagi.
Breyting þessi felur ekki í sér stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og er hún því ekki háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Breytingin er óveruleg og hefur hvorki áhrif á ósnortna náttúru, jarðmyndanir né vistkerfi, sem njóta sérstakrar verndar, verndarsvæði né skráðar fornminjar. Þó verður sérstaklega hugað að endurskráningu fornleifa á svæðinu í samráði við Minjastofnun Íslands vegna vinnslu deiliskipulags svæðisins sbr. umsögn Minjastofnunar. Breytingin hefur ekki í för með sér neikvæð áhrif á nágranna eða landnotkun og nýtingu aðliggjandi svæða.

Skipulagsnefnd leggur því til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Sérfræðiþjónusta leik- og grunnskóla

Málsnúmer 2014020004Vakta málsnúmer

4. liður í fundargerð bæjarráðs dagsett 11. júní 2015:
1. liður í fundargerð velferðarráðs dagsett 3. júní 2015:
Lagt fram minnisblað Helgu Vilhjálmsdóttur forstöðumanns sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla og Guðrúnar Ólafíu Sigurðardóttur framkvæmdastjóra fjölskyldudeildar dagsett 22. maí 2015 um þörf fyrir viðbótarmönnun í sérfræðiþjónustunni.
Velferðarráð samþykkir tillöguna fyrir sitt leiti og vísar málinu til bæjarráðs.
Guðrún Ólafía Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjölskyldudeildar mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir fjárveitingu að upphæð kr. 2,5 milljónir vegna sérfræðiþjónustu og að gerður verði viðauki sem lagður verði fyrir bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðan viðauka með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Starfsáætlun og stefnuumræða nefnda 2015 - samfélags- og mannréttindaráð

Málsnúmer 2015040004Vakta málsnúmer

Starfsáætlun og stefnuumræða samfélags- og mannréttindaráðs.
Silja Dögg Baldursdóttir bæjarfulltrúi og formaður samfélags- og mannréttindaráðs gerði grein fyrir starfsáætlun ráðsins.
Almennar umræður.

7.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta bæjarstjórnarfundi.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur skipulagsstjóra 4. og 11. júní 2015
Atvinnumálanefnd 10. júní 2015
Bæjarráð 4. og 11. júní 2015
Framkvæmdaráð 22. maí og 5. júní 2015
Íþróttaráð 4. júní 2015
Samfélags- og mannréttindaráð 29. maí og 11. júní 2015
Skipulagsnefnd 10. júní 2015
Skólanefnd 1. júní 2015
Stjórn Akureyrarstofu 21. og 28. maí 2015
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar 5. júní 2015
Umhverfisnefnd 9. júní 2015
Velferðarráð 3. júní 2015


Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar / www.akureyri.is /
Stjórnkerfið / Fundargerðir

Fundi slitið - kl. 18:00.