Bæjarstjórn

3356. fundur 20. maí 2014 kl. 16:00 - 17:25 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
 • Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar
 • Oddur Helgi Halldórsson 1. varaforseti
 • Inda Björk Gunnarsdóttir
 • Sigurður Guðmundsson
 • Halla Björk Reynisdóttir
 • Silja Dögg Baldursdóttir
 • Tryggvi Þór Gunnarsson
 • Víðir Benediktsson
 • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Logi Már Einarsson
 • Ólafur Jónsson
Starfsmenn
 • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
 • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Dagskrá
Silja Dögg Baldursdóttir L-lista mætti í forföllum Hlínar Bolladóttur.

Í upphafi fundar leitaði forseti afbrigða til að taka á dagskrá málið Sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 - kjörskrár, sem verði 8. liður á dagskrá og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

1.Aðalskipulagsbreyting - virkjun á Glerárdal

Málsnúmer 2013110020Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst deiliskipulag Glerárdals, sjá málsnr. 2014010132. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Innkomnar umsagnir:
1) Vegagerðin dags. 21. mars 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.

Bæjarstjórn vísaði málinu þann 6. maí 2014 á ný til skipulagsnefndar þar sem umsögn Umhverfisstofnunar barst í tölvupósti 30. apríl 2014 (dags. 28. apríl 2014), eftir að umsagnartíma lauk þann 6. apríl 2014 og eftir afgreiðslu skipulagsnefndar 16. apríl 2014.

2) Umhverfisstofnun dags. 28. apríl 2014.
a) Stofnunin telur skorta rökstuðning fyrir fullyrðingu um að engin áhrif verði á útivistargildi og náttúrufar.
b) Fram kemur í samanburði kosta að virkjun hafi rask í för með sér og sjónræn áhrif þar sem mannvirki verða sýnileg. Samræma þarf þá niðurstöðu í umfjöllun um hverfisvernd.
c) Að mati stofnunarinnar er rangt að segja að óbreytt ástand (engin virkjun) hafi mikil neikvæð áhrif á aðgengi til útivistar og ferðamennsku.
d) Að mati Umhverfisstofnunar munu framkvæmdir óhjákvæmilega hafa rask í för með sér og neikvæð sjónræn áhrif og þar með áhrif á útivistargildi. Að mati stofnunarinnar mun það hvernig mannvirki verða útfærð skipta máli varðandi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Stofnunin telur einnig mikilvægt að við framkvæmdir verði forðast allt óþarfa rask.
Engin athugasemd barst.
Svör við umsögnum:
Umsögn Vegagerðarinnar gefur ekki tilefni til svars.
Svar við umsögn frá Umhverfisstofnun sem barst í tölvupósti 30. apríl 2014 (dags. 28. apríl 2014):
1a) Bent er á að ekki er fullyrt að áhrif á útivistargildi og náttúrufar verði engin eins og fram kemur í umsögninni heldur að þau séu lítil. Einnig er vakin athygli á að fallpípa er niðurgrafin í jörð en stífla og inntakslón ekki og eru því áhrifin talin lítil sbr. töflu í áhrifamatskafla.
b) Tekið er tillit til athugasemdarinnar og viðeigandi breytingar gerðar á töflu í áhrifamatskafla í greinargerð sbr. athugasemd nr. 1.
c) Tekið er tillit til athugasemdarinnar og viðeigandi breytingar gerðar á töflu í greinargerð.
d) Tekið er undir að framkvæmdir munu hafa rask í för með sér á meðan á framkvæmdum stendur en lagt er upp með að forðast allt óþarfa rask næst framkvæmdasvæði. Einnig er áætlað að nota staðbundinn gróður til uppgræðslu á röskuðum svæðum. Lagt er til að umfjöllun um mótvægisaðgerðir verði bætt við niðurstöðukafla umhverfisskýrslu þar sem ofangreind atriði koma fram.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vöktu Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista og Halla Björk Reynisdóttir L-lista á því athygli að þau teldu sig vanhæf að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Geir Kristinn Aðalsteinsson og Halla Björk Reynisdóttir viku af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Í þeirra stað mætti Víðir Benediktsson L-lista á fundinn undir þessum lið.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 samhljóða atkvæðum.

2.Glerárdalur, virkjun - deiliskipulag

Málsnúmer 2014010132Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst aðalskipulagsbreyting vegna virkjunar á Glerárdal, sjá málsnr. 2013110020. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Deiliskipulagstillagan var kynnt á opnum íbúafundi í Ráðhúsi 3. febrúar 2014.
Innkomnar umsagnir:
1) Skipulagsstofnun dags. 7. mars 2014. Umsögn vegna umhverfisskýrslu.
a) Skipulagsstofnun bendir á að tilgreina þarf í umhverfisskýrslu hvort gert sé ráð fyrir vöktunaráætlun.
b) Sýna þarf á uppdrætti allt svæðið á náttúruminjaskrá þ.m.t. þann hluta sem er innan lóðar geymslusvæðis jarðefna.
2) Minjastofnun dags. 20. mars 2014.
Bent er á að fornleifaskráning á svæðinu uppfyllir ekki skilyrði og þurfi því að skrá fornleifar á svæðinu á fullnægjandi hátt þar sem staðsetningu á minjum frá þessum árum getur skeikað um tugi metra og er því nauðsynlegt að mæla aftur upp minjar á svæðinu.
3) Vegagerðin dags. 21. mars 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
4) Norðurorka hf dags. 5. mars 2014.
Lögð er áhersla á að akvegur frá skipulögðum áningarstað sunnan Fosslæks að vatnsbóli í Sellandslindum verði aukenndur sem þjónustuvegur og hann verði lokaður með hliðlæsingu fyrir almennri umferð.

Bæjarstjórn vísaði málinu þann 6. maí 2014 á ný til skipulagsnefndar þar sem umsögn Umhverfisstofnunar barst í tölvupósti 2. maí 2014 (dags. 30. apríl 2014), eftir að umsagnartíma lauk þann 6. apríl 2014 og eftir afgreiðslu skipulagsnefndar 16. apríl 2014.

5) Umhverfisstofnun dags. 30. apríl 2014.
a) Fram kemur í greinargerð að næst stíflu muni pípustæðið verða í vel grónum bökkum í gilinu en síðan liggja um hallandi mýri að jöfnunarþró við Byrgislæk. Upplýsingar vantar um stærð mýrlendisins.
b) Umhverfisstofnun er ekki sammála þeirri niðurstöðu sem fram kemur í lok umhverfismats að deiliskipulagið í heild muni hafa í för með sér jákvæð eða óveruleg áhrif á umhverfið. Áhrif á verndarsvæði eru neikvæð því með tillögunni eru framkvæmdir áætlaðar inn á svæði á náttúruminjaskrá.
c) Að mati Umhverfisstofnunar eru áhrif á útivist og ferðamennsku ekki endilega jákvæð og rangt að segja að núll kostur hafi neikvæð áhrif á útivist og ferðamennsku.
d) Stofnunin telur að framkvæmdir muni hafa neikvæð áhrif á lífríki Glerár þar sem rennsli breytist þar sem það minnkar töluvert.
e) Stofnunin telur að framkvæmdin hafi neikvæð áhrif á jarðfræði og jarðmyndanir.
f) Umhverfisstofnun telur að þótt reynt sé að lágmarka neikvæð áhrif á fuglalíf með því að forðast að hafa framkvæmdir á varptíma sé ekki hægt að telja það jákvæð áhrif á fuglalíf.
g) Að mati Umhverfisstofnunar er niðurstöðutaflan ekki rétt. Í deiliskipulaginu eru áætlaðar framkvæmdir á svæði sem er ósnortið og hefur náttúruverndar- og útivistargildi. Að mati Umhverfisstofnunar er verið að fórna verndarsvæði fyrir virkjun, áhrifin eru talin góð á samfélagið vegna meira raforkuöryggis.
Engin athugasemd barst.
Svör við umsögnum:
1a) Ekki er talin þörf á vöktunaráætlun vegna mögulegra umhverfisáhrifa og er það tilgreint í umhverfisskýrslu.
b) Tekið er tillit til athugasemdarinnar og viðeigandi lagfæringar gerðar á uppdrætti.
2) Samráð mun verða haft við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast og svæðið skoðað með það í huga að forðast að skerða huganlegar fornleifar á svæðinu.
3) Gefur ekki tilefni til svars.
4) Skipulagstillagan gerir ráð fyrir að þjónustuvegurinn verði lokaður frá áningarstað með hliðlæsingu fyrir almennri umferð.

Svar við umsögn Umhverfisstofnunar sem barst í tölvupósti 30. apríl 2014 (dags. 28. apríl 2014):
5a) Stærð mýrlendisins er u.þ.b. 1.5 ha og nýtur því ekki sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999.
b) Afmörkun svæðisins á náttúruminjaskrá byggir á örnefnum sem síðar voru dregnar línur á milli við vinnslu gildandi aðalskipulags. Sú afmörkun er því ónákvæm og fer um raskað svæði að hluta til s.s. á svæði 508 við Réttarhvamm enda svæðið utan hins eiginlega Glerárgils. Fram kemur í breytingartillögu aðalskipulagsins að mannvirkjagerð sé heimil á svæði 508 og að þar sé einungis gert ráð fyrir 60 m2 stöðvarhúsi, sbr. ákvæði deiliskipulagsins.
c) Áhrif á útivist og ferðamennsku eru talin jákvæð þar sem verið er að nýta framkvæmdir vegna virkjunar sem ávinning fyrir útivistarfólk, m.a. með uppbyggingu stígakerfis, áningastaða/bílastæða. Tekið er tillit til athugasemdarinnar um að áhrif á útivist og ferðamennsku séu neikvæð í núllkosti og viðeigandi breytingar gerðar á texta og töflu í umhverfisskýrslu.
d) Í skýrslu Dr. Tuma Tómassonar fiskifræðings frá 2012 "Fiskistofnar Glerár og mat á fiskræktarmöguleikum" kemur fram að enginn fiskur fannst í Gleránni á Glerárdal. Talið er að áin sé of skjóllítil og köld til að þar geti þrifist sjálfbærir fiskistofnar. Mögulegt er að áhrif minnkandi rennslis verði neikvæð á botndýralíf í ánni. Lónið gæti hins vegar skapað nýja möguleika fyrir botndýralíf og í heildina eru neikvæð áhrif á lífríki Glerár ekki talin veruleg.
e) Ekki er talið að framkvæmdin hafi neikvæð áhrif á sérstakar jarðmyndanir á svæðinu. Jarðmyndanir eins og fossbrúnir verða fyrir áhrifum vegna minnkandi rennslis en þau áhrif eru afturkræf og því ekki um veruleg neikvæð áhrif að ræða.
f) Tekið er undir að áhrifin eru talin óveruleg og viðeigandi breytingar gerðar á texta og töflu í greinargerð.
g) Í samræmi við ofangreint eru viðeigandi breytingar gerðar á texta og niðurstöðutafla uppfærð í umhverfisskýrslu greinargerðar.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Edward H. Huijbens fulltrúi V-lista vill ítreka bókun frá 16. apríl sl. um mikilvægi umhverfismats við undirbúning Glerárvirkjunar II. Umsögn Umhverfistofnunar og svör við henni sýna að fullt tilefni er til að ráðast með formlegri hætti en gert hefur verið í mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vöktu Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista og Halla Björk Reynisdóttir L-lista á því athygli að þau teldu sig vanhæf að fjalla um þennan lið. Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Geir Kristinn Aðalsteinsson og Halla Björk Reynisdóttir viku af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Í þeirra stað mætti Víðir Benediktsson L-lista á fundinn undir þessum lið.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 samhljóða atkvæðum.

3.Aðalskipulagsbreyting Naustahverfi - Hagar

Málsnúmer 2014010276Vakta málsnúmer

3. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 5. mars með athugasemdafresti til 13. apríl 2014. Samhliða var auglýst deiliskipulag fyrir Hagahverfi og breyting á reit 28 og Naustabraut, sjá málsnr. SN080099.
Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á vefsíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Umsögn um skipulagslýsingu barst of seint og er því tekin fyrir nú.
1) Umhverfisstofnun dags. 14. febrúar 2014.
a) Koma þarf fram hvernig umhverfisáhrif af nýrri legu Naustabrautar og uppfyllingar í stað brúar á Naustagili eru samanborið við eldri áætlun.
b) Koma þarf fram hvernig svæðið fyrir verslun og þjónustu fer saman við græna svæðið við Naustagötu og starfsemi á svæði fyrir þjónustustofnanir.
c) Koma þarf fram hvort græna svæðið við Naustagötu rýrnar við breytinguna.
Tvær umsagnir um tillöguna bárust eftir athugasemdafrest:
1) Minjastofnun Íslands barst 16. apríl 2014 (dags. 15. apríl 2014).
Minnt er á skráðar minjar og einnig má gera ráð fyrir óþekktum minjum við gamla bæjarstæði Nausta. Gera þarf könnunarskurði þar sem jarðrask verður vegna Naustavegar og óskað er eftir samvinnu við Akureyrarbæ um slíka könnun áður en til framkvæmda kemur.

Bæjarstjórn vísaði málinu þann 6. maí 2014 á ný til skipulagsnefndar þar sem umsögn Umhverfisstofnunar dags. 2. maí 2014, barst eftir að umsagnartíma lauk þann 16. apríl 2014 og eftir afgreiðslu skipulagsnefndar 30. apríl 2014.

2) Umhverfisstofnun dags. 2. maí 2014.
Stofnunin tekur undir að þar sem byggð er skipulögð nærri umferðargötum séu mótvægisaðgerðir í formi hljóðmana nauðsynlegar. Stofnunin bendir á að strax í upphafi skipulags er hægt að gera ráð fyrir nægilegri fjarlægð frá byggð að umferðargötu til að viðmiðunarmörk hljóðvistar náist án mótvægisaðgerða.
Engin athugasemd barst.
Svör við umsögn um skipulagslýsingu:
1a) Við val á veglínu var lögð áhersla á að skerða sem minnst fornleifar á Naustum. Vegurinn mun taka sveigju framhjá minjunum og koma á fyllingu í Naustagili. Gönguleið skal lögð undir veginn um göng til að tengja saman útivistarsvæði ofan og neðan vegarins. Tengibraut á brú yfir Naustagil yrði meira áberandi mannvirki en gatan í breyttri legu. Að auki eru samfélagsleg áhrif af breyttri legu tengibrautar jákvæð þar sem framkvæmdin verður mun ódýrari.
b) Núverandi þjónustusvæði minnkar á kostnað nýs verslunarsvæðis meðfram Kjarnagötu. Stærð græna svæðisins við Naust minnkar því lítillega vegna þeirra breytinga. Aðkoma að verslunar- og þjónustulóðinni er um hringtorg frá Naustavegi en sú gata tengist Kjarnagötu og Naustabraut. Einnig er gert ráð fyrir gönguleiðum frá austri til vesturs og frá Hagahverfi að núverandi íbúðabyggð.
c) Grænu svæðin við Naustagötu og Kjarnagötu minnka um 1.7 ha við breytinguna en á móti stækkar óbyggt svæði neðan Naustabrautar um u.þ.b. 0.7 ha.

Svör við umsögnum:
1) Samráð mun verða haft við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast og svæðið skoðað með það í huga að forðast að skerða hugsanlegar fornleifar á svæðinu.
2) Skipulagsnefnd bendir á að ekki er verið að gera breytingar á umfangi íbúðarsvæðisins frá samþykktu aðalskipulagi að öðru leyti en því að norðurjaðar þess breytist lítillega og landið nýtt eins og best verður á kosið, ekki síst vegna umhverfissjónarmiða. Til þess að það verði hægt er þörf á hljóðmönum meðfram tengibrautinni. Að öðru leyti gefur umsögnin ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Hagahverfi - deiliskipulag Naustahverfi 3. áf. - dsk, breyting, reitur 28

Málsnúmer SN080099Vakta málsnúmer

4. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Tillaga að deiliskipulagi Naustahverfis 3. áfanga ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 28 og Naustabraut var auglýst frá 5. mars með athugasemdafresti til 13. apríl 2014. Breyting á aðalskipulagi Akureyrar var auglýst samhliða, sjá málsnr. 2014010276.
Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, vefsíðu skipulagsdeildar Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær umsagnir og tvær athugasemdir bárust sem eru í fylgiskjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014".
Einnig barst fundargerð nafnanefndar dags. 17. mars 2014 þar sem lagðar eru til breytingar frá fyrri tillögu að götunöfnum.

Bæjarstjórn vísaði málinu þann 6. maí 2014 á ný til skipulagsnefndar þar sem umsögn Umhverfisstofnunar dags. 2. maí 2014, barst eftir að umsagnartíma lauk þann 16. apríl 2014 og eftir afgreiðslu skipulagsnefndar 30. apríl 2014.

1) Umhverfisstofnun dags. 2. maí 2014:
Stofnunin tekur undir að gera þurfi mótvægisaðgerðir vegna hávaða s.s. hljóðmanir meðfram Naustabraut og Wilhelmínugötu svo viðmiðunarmörk náist við húsvegg. Einnig er mikilvægt að viðmiðunarmörk hljóðvistar náist innandyra með öðrum tæknilausnum til mótvægis við umferðarhávaða. Bent er á að hægt væri í upphafi að gera ráð fyrir nægilegri fjarlægð frá byggð að umferðargötum svo ekki þurfi að fara í ofangreindar mótvægisaðgerðir.

Stefán Friðrik Stefánsson áheyrnarfulltrúi D-lista lagði fram tillögu um að deiliskipulagstillögunni verði breytt á þann veg, að gerð verði umferðartenging frá Naustabraut inn í Nonnahaga milli lóða nr. 5 og 7 og þar með hugsanlega fella niður lóðir til að ná tengingunni, vegna reynslu frá 1. áfanga Naustahverfis.
Svör við umsögnum og athugasemdum eru í skjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014". Tekið er tillit til athugasemdar nr. 1 og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum. Einnig er tekið tillit til breytingartillagna nafnanefndar um götunöfn og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum.

Svar við umsögn Umhverfisstofnunar dags. 2. maí 2014:
1) Mótvægisaðgerðir eru skilgreindar í hljóðskýrslu til að uppfylla viðmiðunarmörk hljóðvistar á svæðinu með það að leiðarljósi að nýta landið eins og best verður á kosið, ekki síst vegna umhverfissjónarmiða. Til þess að það verði hægt er þörf á hljóðmönum meðfram tengibrautinni. Að öðru leyti gefur umsögnin ekki tilefni til svars.

Svar við tillögu Stefáns Friðriks Stefánssonar:
Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir aðkomu að Hagahverfi á fjórum stöðum, þar af tveimur frá tengibrautinni Naustabraut. Rammaskipulag Naustahverfis var haft til hliðsjónar við vinnslu deiliskipulags Hagahverfis en þar er einungis gert ráð fyrir einni tengingu við Hagahverfi frá Naustabraut. Skipulagstillagan gerir hinsvegar ráð fyrir tengingu við Wilhelmínugötu og við Davíðshaga en fjarlægðin þarna á milli er uþb. 350m. Með því að opna á tengingu á milli Naustabrautar og Nonnahaga mun einbýlishúsalóðum fækka og gæði lóðanna m.a. við Nonnahaga rýrna vegna aukinnar bílaumferðar, auk þess sem nýting safngötunnar Wilhelmínugötu mun minnka. Skipulagsnefnd getur því ekki fallist á tillöguna.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt ásamt breytingartillögu um reit 28 og Naustabraut verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku þeirra.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista.

5.Hálönd - frístundabyggð, deiliskipulag 2. áfangi

Málsnúmer 2013080065Vakta málsnúmer

6. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 26. mars með athugasemdafresti til 7. maí 2014. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.
Með tillögunni er lögð fram hljóðskýrsla sem unnin var vegna breytingartillögu akstursíþróttasvæðisins, dags. 19. apríl 2014.

Óskað var eftir umsögnum frá þrettán aðilum og bárust átta umsagnir.
1) KKA Akstursíþróttafélag dags. 2. apríl 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
2) Vegagerðin dags. 4. apríl 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
3) Minjastofnun dags. 14. apríl 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
4) Hestamannafélagið Léttir dags. 29. apríl 2014. Óskað er eftir að gert verði ráð fyrir göngu- og reiðstíg í gegnum skipulagssvæði Hálanda, sem tengir fyrirhugaðan fólkvang á Glerárdal og hesthúsahverfið Hlíðarholt.
5) Norðurorka dags. 2. maí 2014.
Norðurorka vill koma á framfæri að stækkun húsa á svæðinu muni hugsanlega leiða til þess að lagnakerfi þurfa að taka aukinn flutning miðað við upphafsáætlun um stærðir húsa. NO telur þó að umrædd stækkun sé ekki svo mikil að breyta þurfi hönnun núverandi kerfis.
6) Vetraríþróttamiðstöð Íslands dags. 6. maí 2014.
Gerð var tilraun um nýja skíðaleið frá skíðahóteli að Hálöndum. Skíðaleiðin liggur í gegnum frístundabyggðina sem kallar á endurskoðun skipulags Hálanda. Með því að setja niður bílastæði sunnan við Hlíðarfjallsveg við Hálönd væri hægt að lengja skíðasvæðið umtalsvert.
7) Hlíðarfjall, Guðmundur K. Jónsson forstöðumaður dags. 6. maí 2014.
Sama athugasemd og nr. 6.
8) Umhverfisstofnun dags. 13. maí 2014. Umhverfisstofnun gerir ekki athugasemd vegna tillögunnar.
Engar athugasemdir bárust.
Svör við umsögnum:
1) Gefur ekki tilefni til svars.
2) Gefur ekki tilefni til svars.
3) Gefur ekki tilefni til svars.
4) Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið en vísar því að öðru leyti til endurskoðunar aðalskipulags Akureyrar.
5) Gefur ekki tilefni til svars.
6) Frístundabyggðin í Hálöndum er á skilgreindu eignarlandi og því ekki í eigu Akureyrarbæjar. Skipulag svæðisins er unnið í samráði við eiganda svæðisins og miðað við þá nýtingu sem óskað var eftir. Skipulagsnefnd sér ekkert því til fyrirstöðu að skíðaleiðin verði notuð en þó þannig að hún endi ofan Hálanda.
7) Sjá svar við nr. 6.
8) Gefur ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Logi Már Einarsson S-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Logi Már Einarsson vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 samhljóða atkvæðum.

6.Hafnarsvæði sunnan Glerár - deiliskipulagsbreyting Grímseyjargata 3 og Strýta

Málsnúmer 2014030057Vakta málsnúmer

7. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Erindi dags. 7. mars 2014 frá Þresti Sigurðssyni þar sem hann f.h. Ásverks ehf, kt. 590994-2009, óskar heimildar til að vinna deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðina Grímseyjargötu 3 vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar.
Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 9. apríl 2014 að leggja fram, í samráði við skipulagsstjóra, tillögu að breytingu á deiliskipulaginu.
Í tillögunni er einnig gert ráð fyrir stækkun á byggingarreit til austurs við húsnæði Strýtu við Laufásgötu landnr. 149144.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Sandgerðisbót - breyting á dsk, vegna Óseyrar 19

Málsnúmer 2013110167Vakta málsnúmer

8. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sandgerðisbótar, dags. 14. maí 2014 sem tekur mið af athugasemdum Minjastofnunar. Tillagan er unnin af Gísla Kristinssyni frá Arkitektur.is.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Tryggvi Þór Gunnarsson L-lista á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Tryggvi Þór Gunnarsson vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Víðir Benediktsson L-lista mætti á fundinn undir þessum lið í stað Tryggva Þórs Gunnarssonar.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

8.Sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 - kjörskrá

Málsnúmer 2014010075Vakta málsnúmer

Lagt er til að bæjarlögmanni verði veitt heimild til að afgreiða athugasemdir við kjörskrá sem berast kunna og leiðrétta kjörskrá.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

9.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta bæjarstjórnarfundi.
Í lok fundar mælti forseti svo:
Þar sem að fundurinn í dag er væntanlega síðasti bæjarstjórnarfundur kjörtímabilsins þá vil ég þakka bæjarfulltrúum og starfsmönnum Akureyrarbæjar fyrir ánægjulegt samstarf síðastliðin fjögur ár. Hér sitja í dag nokkrir bæjarfulltrúar sem ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn og vil ég sérstaklega óska þeim velfarnaðar í sínum störfum á öðrum vettvangi.

Þá vil ég færa bæjarfulltrúanum Oddi Helga Halldórssyni sérstakar kveðjur enda kveður hann nú bæjarstjórn eftir 20 ára setu, þrjú ár sem varabæjarfulltrúi og 17 ár sem bæjarfulltrúi. Eru honum þökkuð góð störf í þágu Akureyrarbæjar í þessi 20 ár.

Bæjarstjóri Eiríkur Björn Björgvinsson og bæjarfulltrúarnir Logi Már Einarsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, Inda Björk Gunnarsdóttir, Ólafur Jónsson, Halla Björk Reynisdóttir, Tryggvi Þór Gunnarsson, Sigurður Guðmundsson og Oddur Helgi Halldórsson, kvöddu sér hljóðs og þökkuðu forseta, bæjarfulltrúum og starfsmönnum samstarfið á kjörtímabilinu og óskuðu þeim allra heilla.

Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur skipulagsstjóra 8. og 14. maí 2014
Bæjarráð 8. og 15. maí 2014
Framkvæmdaráð 9. maí 2014
Íþróttaráð 8. maí 2014
Kjarasamninganefnd 2. maí 2014
Samfélags- og mannréttindaráð 7. maí 2014
Skipulagsnefnd 14. maí 2014
Skólanefnd 5. maí 2014
Stjórn Akureyrarstofu 15. apríl, 8. og 14. maí 2014
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar 9. maí 2014
Umhverfisnefnd 13. maí 2014

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar / www.akureyri.is /
Stjórnkerfið / Fundargerðir

Fundi slitið - kl. 17:25.