Bæjarstjórn

3355. fundur 06. maí 2014 kl. 16:00 - 18:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar
  • Hlín Bolladóttir
  • Sigurður Guðmundsson
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Oddur Helgi Halldórsson
  • Silja Dögg Baldursdóttir
  • Tryggvi Þór Gunnarsson
  • Edward Hákon Huijbens
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Ólafur Jónsson
  • Ragnar Sverrisson
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss
Dagskrá
Silja Dögg Baldursdóttir L-lista mætti í forföllum Indu Bjarkar Gunnarsdóttur.
Edward Hákon Huijbens V-lista mætti í forföllum Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur.
Ragnar Sverrisson S-lista mætti í forföllum Loga Más Einarssonar.

1.Aðalskipulagsbreyting - Miðbær Akureyrar

Málsnúmer 2014010277Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. apríl 2014:
Aðalskipulagsbreyting vegna Miðbæjar Akureyrar var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst deiliskipulag Miðbæjar Akureyrar, sjá málsnr. 2012110172. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Fjórar umsagnir bárust:
1) Umhverfisstofnun, dags. 3. apríl 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
2) Hafnasamlag Norðurlands, dags. 27. mars 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
3) Vegagerðin, dags. 2. apríl 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna. Sjá einnig málsnr. 2012110172.
4) Minjastofnun Íslands, dags. 11. apríl 2014 sem ekki gerir athugasemd við tillöguna en bendir á hafa þarf í huga varðveislu Torfunefsbryggju vegna menningarsögulegs gildis.
Tvær athugasemdir bárust:
1) Jóhannes Árnason, dags. 28. mars 2014.
Hann mótmælir því að hætt sé við síki í miðbænum og telur að heimild fyrir síki eigi að vera inni á skipulagi en einnig verði heimilt að gera það ekki.
2) Hjalti Jóhannesson, dags. 4. apríl 2014.
Hann styður þrengingu Glerárgötunnar og telur nauðsynlegt að endanleg tillaga verði samþykkt eins og hún liggur fyrir núna.
Umsagnir gefa ekki tilefni til svars.
Svar við athugasemdum:
1) Samkvæmt stefnuskrá L-listans, stefnu fleiri framboða og í kjölfar fjölda athugasemda frá bæjarbúum var gert ráð fyrir að síki yrði fellt úr skipulagi og er því skipulagstillagan í samræmi við þá stefnu og athugasemdir.
2) Gefur ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 samhljóða atkvæðum.

Ólafur Jónsson D-lista sat hjá við afgreiðslu.

2.Miðbær Akureyrar - deiliskipulag

Málsnúmer 2012110172Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. apríl 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst aðalskipulagsbreyting vegna Miðbæjar Akureyrar, sjá málsnr. 2014010277. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun. Tillögunni fylgir húsakönnun dags. 11.4.2014.
22 athugasemdir bárust auk umsagna frá Norðurorku, Skipulagsstofnun, Hafnasamlagi Norðurlands og Vegagerðinni. Umsögn barst of seint frá Minjastofnun Íslands dags. 14.4.2014.
Útdráttur úr umsögnum og athugasemdum eru í fylgiskjali merktu "Miðbær deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 16.4.2014".
Drög að deiliskipulagstillögunni voru kynnt á opnum íbúafundi í Ráðhúsi Akureyrar 27. júní 2013. Deiliskipulagstillagan var svo kynnt enn frekar á opnum íbúafundi í Hofi 2. desember 2013.
Svör við umsögnum og athugasemdum eru í skjali merktu "Miðbær deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 16.4.2014".

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Stefán Friðrik Stefánsson áheyrnarfulltrúi D-lista óskar bókað:
Ég leggst eindregið gegn hugmyndum um þrengingu Glerárgötu og lýsi yfir áhyggjum af tilhögun bílastæðamála í tillögunni og tel mjög mikilvægt að huga að bílastæðahúsi í miðbænum. Einnig leggst ég gegn staðsetningu umferðarmiðstöðvar í tillögunni.

Sigurður Guðmundsson A-lista er samþykkur heildartillögunni en gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði:
Bílastæðamál í miðbænum eru að mínu áliti óleyst. Lausnir á þeim eru sýndar með stæðum í jaðri miðbæjar og henta ekki miðbænum. Hentugast hefði verið að byggja bílastæðahús á einum byggingarreitnum við Skipagötu eða Hofsbót. Einnig er skipulag göngugötu ekki mér að skapi.

 Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista.

3.Aðalskipulagsbreyting - virkjun á Glerárdal

Málsnúmer 2013110020Vakta málsnúmer

3. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. apríl 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst deiliskipulag Glerárdals, sjá málsnr. 2014010132. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Ein umsögn barst frá Vegagerðinni dags. 21. mars 2014 sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Umsögnin gefur ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Fram kom tillaga um að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Glerárdalur, virkjun - deiliskipulag

Málsnúmer 2014010132Vakta málsnúmer

4. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 16. apríl 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 21. febrúar með athugasemdafresti til 6. apríl 2014. Samhliða var auglýst aðalskipulagsbreyting vegna virkjunar á Glerárdal, sjá málsnr. 2013110020. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á heimasíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Deiliskipulagstillagan var kynnt á opnum íbúafundi í Ráðhúsi 3. febrúar 2014.
Innkomnar þrjár umsagnir:
1) Skipulagsstofnun, dags. 7. mars 2014. Umsögn vegna umhverfisskýrslu.
a) Skipulagsstofnun bendir á að tilgreina þarf í umhverfisskýrslu hvort gert sé ráð fyrir vöktunaráætlun.
b) Sýna þarf á uppdrætti allt svæðið á náttúruminjaskrá þ.m.t. þann hluta sem er innan lóðar geymslusvæðis jarðefna.
2) Minjastofnun, dags. 20. mars 2014.
a) Bent er á að fornleifaskráning á svæðinu uppfyllir ekki skilyrði og þurfi því að skrá fornleifar á svæðinu á fullnægjandi hátt þar sem staðsetningu á minjum frá þessum árum getur skeikað um tugi metra og er því nauðsynlegt að mæla aftur upp minjar á svæðinu.
3) Vegagerðin, dags. 21. mars 2014, sem gerir ekki athugasemd við tillöguna.
Svör við umsögnum:
1a) Ekki er talin þörf á vöktunaráætlun vegna mögulegra umhverfisáhrifa og er það tilgreint í umhverfisskýrslu.
1b) Tekið er tillit til athugasemdarinnar og viðeigandi lagfæringar gerðar á uppdrætti.
2) Samráð mun verða haft við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast og svæðið skoðað með það í huga að forðast að skerða huganlegar fornleifar á svæðinu.
3) Gefur ekki tilefni til svars.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Edward H. Huijbens V-lista óskar bókað:
Ég vil lýsa yfir stuðningi við uppbyggingu fyrirhugaðrar Glerárvirkjunar II til eflingar sjálfbærrar orkuvinnslu í þágu íbúa á Akureyri. Samtímis vil ég ítreka að ganga skuli sem lengst til að tryggja vernd umhverfis verðandi fólkvangs bæjarbúa. Þannig geri ég kröfu um að farið verði í heildstætt umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, sem er til þess fallið að skapa frekari sátt um framkvæmdina og mun kortleggja grunnstöðu vistkerfa til viðmiðunar vegna mats á mögulegum framtíðaráhrifum af virkjun og skapa þannig forsendur vöktunar. Að lokum er fullt tilefni til að ítreka mikilvægi þess að aldrei verði lokað alfarið fyrir rennsli Glerár, eins og dæmi eru um nú frá Djúpadal.

Fram kom tillaga um að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Aðalskipulagsbreyting Naustahverfi - Hagar

Málsnúmer 2014010276Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 30. apríl 2014:
Skipulagstillagan var auglýst frá 5. mars með athugasemdafresti til 13. apríl 2014. Samhliða var auglýst deiliskipulag fyrir Hagahverfi og breyting á reit 28 og Naustabraut, sjá málsnr. SN080099.
Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, á vefsíðu skipulagsdeildar og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær umsagnir bárust eftir athugasemdafrest:
1) Umhverfisstofnun, dags. 14. febrúar 2014. Umsögn um skipulagslýsingu barst of seint og er því tekin fyrir nú.
a) Koma þarf fram hvernig umhverfisáhrif af nýrri legu Naustabrautar og uppfyllingar í stað brúar á Naustagili eru samanborið við eldri áætlun.
b) Koma þarf fram hvernig svæðið fyrir verslun og þjónustu fer saman við græna svæðið við Naustagötu og starfsemi á svæði fyrir þjónustustofnanir.
c) Koma þarf fram hvort græna svæðið við Naustagötu rýrnar við breytinguna.
2) Minjastofnun Íslands, dags. 15. apríl 2014.
Minnt er á skráðar minjar og einnig má gera ráð fyrir óþekktum minjum við gamla bæjarstæði Nausta. Gera þarf könnunarskurði þar sem jarðrask verður vegna Naustavegar og óskað er eftir samvinnu við Akureyrarbæ um slíka könnun áður en til framkvæmda kemur.
Engin athugasemd barst.
Svör við umsögnum:
1) a) Við val á veglínu var lögð áhersla á að skerða sem minnst fornleifar á Naustum. Vegurinn mun taka sveigju framhjá minjunum og koma á fyllingu í Naustagili. Gönguleið skal lögð undir veginn um göng til að tengja saman útivistarsvæði ofan og neðan vegarins. Tengibraut á brú yfir Naustagil yrði meira áberandi mannvirki en gatan í breyttri legu. Að auki eru samfélagsleg áhrif af breyttri legu tengibrautar jákvæð þar sem framkvæmdin verður mun ódýrari.
b) Núverandi þjónustusvæði minnkar á kostnað nýs verslunarsvæðis meðfram Kjarnagötu. Stærð græna svæðisins við Naust minnkar því lítillega vegna þeirra breytinga. Aðkoma að verslunar- og þjónustulóðinni er um hringtorg frá Naustavegi en sú gata tengist Kjarnagötu og Naustabraut. Einnig er gert ráð fyrir gönguleiðum frá austri til vesturs og frá Hagahverfi að núverandi íbúðabyggð.
c) Grænu svæðin við Naustagötu og Kjarnagötu minnka um 1.7 ha við breytinguna en á móti stækkar óbyggt svæði neðan Naustabrautar um u.þ.b. 0.7 ha.
2) Samráð mun verða haft við Minjastofnun Íslands áður en framkvæmdir hefjast og svæðið skoðað með það í huga að forðast að skerða hugsanlegar fornleifar á svæðinu.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.

Fram kom tillaga um að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Hagahverfi - deiliskipulag Naustahverfi 3. áf. - dsk breyting, reitur 28

Málsnúmer SN080099Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 30. apríl 2014:
Tillaga að deiliskipulagi Naustahverfis 3. áfanga ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 28 og Naustabraut voru auglýstar frá 5. mars með athugasemdafresti til 13. apríl 2014. Breyting á aðalskipulagi Akureyrar var auglýst samhliða, sjá málsnr. 2014010276.
Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, vefsíðu skipulagsdeildar Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær umsagnir og tvær athugasemdir bárust sem eru í fylgiskjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014".
Einnig barst fundargerð nafnanefndar dags. 17. mars 2014 þar sem lagðar eru til breytingar frá fyrri tillögu að götunöfnum.
Árni Ólafsson sat fundinn og þakkar nefndin honum fyrir hans yfirferð.
Svör við umsögnum og athugasemdum eru í skjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014". Tekið er tillit til athugasemdar nr. 1 og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum. Einnig er tekið tillit til breytingartillagna nafnanefndar um götunöfn og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt ásamt breytingartillögu reits 28 og Naustabrautar verði samþykktar og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku þeirra.

Fram kom tillaga um að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Ársreikningur Akureyrarbæjar 2013 - síðari umræða

Málsnúmer 2013110024Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 15. apríl 2014:
Ársreikningur Akureyrarbæjar 2013.
Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2013 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2013 var borinn upp í heild sinni og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.

Ársreikningurinn var síðan undirritaður.

8.Byggðastofnun - umsóknir í verkefnið Brothættar byggðir

Málsnúmer 2014040240Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um að Akureyrarbær sendi inn umsóknir til Byggðastofnunar fyrir byggðalögin Hrísey og Grímsey þar sem óskað er eftir þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir.
Upplýsingar um verkefnið má finna á slóðinni:
https://www.byggdastofnun.is/is/verkefni/brothaettar-byggdir

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að fela bæjarstjóra að vinna að og senda inn umsóknir til Byggðastofnunar fyrir byggðalögin Hrísey og Grímsey þar sem óskað er eftir þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir.

9.Sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 - undirkjörstjórnir

Málsnúmer 2014010075Vakta málsnúmer

Lagður fram listi með nöfnum þrjátíu og sex aðalmanna og þrjátíu og sex varamanna í undirkjörstjórnir við sveitarstjórnarkosningarnar þann 31. maí nk.

Bæjarstjórn samþykkir þær tilnefningar sem fram koma á listanum með 11 samhljóða atkvæðum.

10.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta bæjarstjórnarfundi.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur skipulagsstjóra 16. og 30. apríl 2014
Bæjarráð 15. og 28. apríl 2014
Félagsmálaráð 9. og 23. apríl 2014
Íþróttaráð 10. apríl 2014
Samfélags- og mannréttindaráð 23. apríl 2014
Skipulagsnefnd 16. og 30. apríl 2014
Skólanefnd

Fundi slitið - kl. 18:00.