Bæjarstjórn

3319. fundur 17. apríl 2012 kl. 16:00 - 19:45 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Brynjar Davíðsson
Starfsmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Hlín Bolladóttir
  • Ólafur Jónsson
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Tryggvi Þór Gunnarsson
  • Víðir Benediktsson
  • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Hermann Jón Tómasson
  • Sigurður Guðmundsson
  • Dagný Magnea Harðardóttir fundarritari
Dagskrá
Í upphafi fundar bauð forseti Brynjar Davíðsson L-lista velkominn á sinn fyrsta fund í bæjarstjórn.

1.Aðalskipulag - Blöndulína 3. Breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer SN080072Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 28. mars 2012:
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi á leið Blöndulínu 3 ofan Akureyrar frá sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar að fyrirhuguðu tengivirki við Kífsá og jarðstrengjaleið þaðan að Rangárvöllum, unnin af Árna Ólafssyni arkitekt f.h. Teiknistofu arkitekta ehf. var auglýst frá 1. febrúar - 15. mars 2012.
Ein athugasemd barst á auglýsingartíma.
Rósa María Stefánsdóttir handhafi að erfðafestulandi Kífsár og er eigandi eignarlands að Hesjuvöllum mótmælir fyrirhugaðri staðsetningu á jarðstreng við landamerki að báðum þessum landskikum.
Innkomið bréf dags. 16. mars 2012 frá Skipulagsstofnun sem gerir ekki athugasemd við umhverfisskýrsluna. Innkomið bréf dagsett 5. mars 2012 frá Umhverfisstofnun sem gerir ekki athugasemd við umrædda tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar.
Samkvæmt framlögðum uppdrætti sem sýnir landamerki, mörk erfðafestu og legu slóða og jarðstrengs kemur fram að lega jarðstrengsins og slóði er utan eignarlands Hesjuvalla en innan erfðafestulands í landi Kífsár sem er í eigu Akureyrarbæjar. Í 8. gr. erfðafestusamnings sem gerður var 26. apríl 1995 er bæjarstjórn heimilt að leggja skólpræsi, vatnsæðar, rafveitutaugar og annað því um líkt um erfðafestulandið endurgjaldslaust, enda sé landi eigi spillt með þessu. Í þessu tilviki er um að ræða vegslóða að spennivirki og rafstreng grafinn í jörðu í eða við hann til að raska sem minnstu svæði. Staðsetning slóðans var valin m.a. með tilliti til legu í landi og vegna fornleifa sem eru kringum bæjarstæði Kífsár sem er rétt norðan erfðafestulandsins.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Með vísan í bréf Skipulagsstofnunar dags. þann 16. mars 2012 þar sem óskað er eftir greinargerð sveitarstjórnar sbr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana, leggur skipulagsstjóri fram greinargerð um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og hvernig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfisskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma.
Skipulagsstjóri leggur til við bæjarstjórn að greinargerðin verði samþykkt.

Helgi Snæbjarnarson L-lista lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi:

Akureyrarkaupstaður áskilur sér rétt til að hafa áhrif á gerð línumastra á línuleiðinni við veitingu framkvæmdaleyfis þegar að því kemur.

Ólafur Jónsson D-lista lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi:

Akureyrarkaupstaður áskilur sér rétt til að hafa áhrif á gerð línumastra á línuleiðinni við veitingu framkvæmdaleyfis þegar að því kemur.

Jafnframt leggur bæjarstjórn Akureyrar áherslu á að þegar kemur til að tengja línuna áfram austur að þá verði leitað lausna sem tryggi áfram fullt öryggi í aðflugi að Akureyrarflugvelli og að öðru leiti verði boðið upp á lausnir sem tryggja umhverfissjónarmið en um leið rekstraröryggi og raforku á samkeppnishæfu verði.

Tillaga Ólafs var borin upp og felld með 6 atkvæðum gegn atkvæðum Ólafs Jónssonar D-lista og Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista.

Hlín Bolladóttir, Víðir Benediktsson og Halla Björk Reynisdóttir fulltrúar L-lista sátu hjá við afgreiðslu.

Tillaga Helga Snæbjarnarsonar L-lista um bókun var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

Borin var upp tillaga skipulagsstjóra og var hún samþykkt með 10 atkvæðum.

Ólafur Jónsson D-lista sat hjá við afgreiðslu.

2.Naustahverfi 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi - Sómatún 9-49

Málsnúmer 2012020086Vakta málsnúmer

6. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 28. mars 2012:
Lögð fram tillaga, dags. 28. mars 2012 að breytingu á deiliskipulagi. Tillagan er unnin af Loga Má Einarssyni frá Kollgátu ehf, sbr. bókun nefndarinnar frá 15. febrúar 2012 um lóðirnar nr. 9-25 og 33-35 við Sómatún.
Breytingarnar eru eftirtaldar:
a) Breytingar eru gerðar á lóðarnúmerum á reitnum.
b) Á lóð 9-17 komi 10 íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum í stað 7 íbúða raðhúss á tveimur hæðum. Engar bílgeymslur verða á lóðinni. Kvöð verður um lóðarveggi.
c) Á lóð 29 komi einbýlishús á tveimur hæðum í stað parhúss á tveimur hæðum. Bílgeymsla verði innbyggð og aðkoma verður beint frá götu.
d) Leyfilegt byggingarmagn á lóðum 9-17 og 29 minnkar.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista.

3.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2011 - fyrri umræða

Málsnúmer 2011110164Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 29. mars 2012:
Lagður fram ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2011.
Hólmgrímur Bjarnason og Aðalsteinn Sigurðsson endurskoðendur frá Deloitte mættu á fundinn og skýrðu ársreikninginn.
Einnig sat Karl Guðmundsson verkefnastjóri fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2011 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Fram kom tillaga um að vísa ársreikningnum til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Bakkahlíð - framtíðaráform

Málsnúmer 2012040019Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 11. apríl 2012:
Brit Bieltvedt framkvæmdastjóri og Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri ÖA fóru yfir framtíðaráform varðandi Bakkahlíð.
Félagsmálaráð leggur til að starfsemi sem nú er í Bakkahlíð, íbúar og starfsfólk, flytji í eina einingu í Vestursíðu þegar nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun. Málinu vísað til bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu félagsmálaráðs með 10 atkvæðum.

Hermann Jón Tómasson S-lista sat hjá við afgreiðslu.

5.Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 657. mál og Frumvarp til laga um veiðigjöld (heildarlög), 658. mál

Málsnúmer 2012030265Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði á fundi sínum þann 12. apríl sl. 4. lið: Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 657. mál og 5. lið: Frumvarp til laga um veiðigjöld (heildarlög), 658. mál, til frekari umræðu í bæjarstjórn.

Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:
Fyrir Alþingi liggja nú frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og um veiðigjald. Því hefur ítrekað verið haldið fram að nái frumvörpin fram að ganga geti það haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir afkomu útgerðarfyrirtækja og þar með stöðu einstakra sveitarfélaga og íbúa þeirra. Mikilvægt er þess vegna að fara vandlega yfir áhrif frumvarpanna áður en þingmenn taka afstöðu til þeirra.
Bæjarstjórn Akureyrar leggur þunga áherslu á að Ríkisstjórn Íslands og Alþingi láti vinna hlutlausa úttekt á áhrifum frumvarpanna á rekstrarskilyrði útgerðarinnar í bráð og lengd og þar með atvinnu og byggð í landinu. Niðurstöður þessarar úttektar verði aðgengilegar þingi og þjóð áður en kemur að endanlegri ákvörðun í málinu.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

6.Stefnuumræða í bæjarstjórn 2012 - skólanefnd

Málsnúmer 2012010347Vakta málsnúmer

Starfsáætlun skólanefndar.
Í samræmi við 21. grein í Samþykkt um stjórn Akureyrarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar og samþykkt bæjarstjórnar frá 17. maí 2005 um þátttöku nefndarformanna utan bæjarstjórnar í bæjarstjórnarfundum mætir Preben Jón Pétursson formaður skólanefndar og gerir grein fyrir starfsáætlun nefndarinnar.

Hlín Bolladóttir L-lista vék af fundi bæjarstjórnar við umræðu þessa liðar vegna vanhæfis og Nói Björnsson varamaður hennar mætti á fundinn undir þessum lið.

Almennar umræður urðu í kjölfarið.

7.Stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar - endurskoðun

Málsnúmer 2010040041Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skólanefndar dags. 11. apríl 2012:
Fyrir fundinn voru lagðar tillögur stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Tillögurnar fela meðal annars í sér að unnið verði að sameiningu leikskóla þannig að á hverjum þeirra verði 90-150 börn, hvatt verði til aukinnar teymisvinnu skólastjórnenda og kennara í öllum skólum bæjarins og dreifstýring verði aukin í leikskólum til samræmis við það sem er í grunnskólum. Markmið tillagnanna er að efla faglegt starf innan skóla Akureyrarbæjar.
Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is
Meirihluti skólanefndar samþykkir tillögur stýrihópsins og vísar þeim til bæjarstjórnar.
Helgi Vilberg Hermannsson A-lista og Logi Már Einarsson S-lista sátu hjá við afgreiðslu.
Logi Már Einarsson S-lista bókar eftirfarandi:
Lögð hefur verið áhersla á sjálfstæði grunnskóla Akureyrar til þróunar kennsluhátta samhliða auknu frelsi foreldra til að velja börnum sínum skóla. Samfylkingin á Akureyri leggur ríka áherslu á að skólar bæjarins starfi samkvæmt aðalnámskrá og stjórnun þeirra sé fagleg, hagkvæm og árangursrík. Tekið er undir ýmislegt sem fram kemur í skýrslu stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Þó þarf að tryggja að ekki sé þrengt um of að sjálfstæði skólanna til að þróa kennsluhætti og skólastarf, þannig að fölbreytni verði sem mest.

Brynjar Davíðsson L-lista, Hermann Jón Tómasson S-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista véku af fundi bæjarstjórnar við umræðu og afgreiðslu þessa liðar vegna vanhæfis.

Bæjarstjórn samþykkir bókun meirihluta skólanefndar og tillögu stýrihópsins með 6 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Andreu Sigrúnar Hjálmsdóttur V-lista og Ólafs Jónssonar D-lista.

Fundi slitið - kl. 19:45.