Bæjarstjórn

3279. fundur 02. febrúar 2010
Bæjarstjórn - Fundargerð
3279. fundur
2. febrúar 2010   kl. 16:00 - 19:45
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Sigrún Björk Jakobsdóttir forseti bæjarstjórnar
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Helena Þuríður Karlsdóttir
Hermann Jón Tómasson
Hjalti Jón Sveinsson
Ólafur Jónsson
Sigrún Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Kristín Sigfúsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010
2010010128
15. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 27. janúar 2010:
Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar fundargerð 282. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda, dags. 13. janúar 2010. Fundargerðin er í 2 liðum.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að fundargerðin verði staðfest.
Bæjarstjórn staðfestir fundargerð skipulagsstjóra dags. 13. janúar 2010 með 11 samhljóða atkvæðum.


2.          Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010
2010010128
16. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 27. janúar 2010:
Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar fundargerð 283. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda, dags. 20. janúar 2010. Fundargerðin er í 2 liðum.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að fundargerðin verði staðfest.
Bæjarstjórn staðfestir fundargerð skipulagsstjóra dags. 20. janúar 2010 með 11 samhljóða atkvæðum.


3.          Miðbær austurhluti - deiliskipulag
2006020089
1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 29. janúar 2010:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu ásamt greinargerð að deiliskipulagi austurhluta miðbæjar og endurbætta tillögu að umhverfismati áætlunarinnar.
Einnig lagt fram minnisblað ALTA dags. 28. janúar 2010 um samráð við Skipulagsstofnun um umfang og áherslur umhverfismatsins.
Jón Ingi Cæsarsson óskar bókað:
Fyrir liggur tillaga að deiliskipulagi miðbæjarsvæðisins. Vinnan hefur staðið samfellt í rúmlega tvö ár og hefur verið unnin á grundvelli gildandi aðalskipulags 2005-2018 og samkvæmt stefnumörkun verðlaunatillögu Graeme Massie.
Frumhugmyndir þessa verks eiga rætur að rekja til íbúaþingsins Akureyri í öndvegi sem haldið var árið 2004.
Nú er vinnan á enda og kominn tími til að leggja hana í dóm bæjarbúa.
Ég sem formaður skipulagsnefndar vil þakka öllum þeim sem lagt hafa ómælda vinnu síðustu misseri við að móta þessa tillögu sem nú er lögð fyrir bæjarstjórn og óskað er eftir heimild til auglýsingar.
Næstu vikur munu bæjarbúar síðan segja skoðun sína á þessari deiliskipulagstillögu sem tekur til stefnumörkunar og uppbyggingar miðbæjarins til lengri tíma. Ferlið allt hefur verið mjög lýðræðislegt og skipulagsnefnd hefur lagt sig fram um að halda þessu máli sem sýnilegustu og hefur sýnt á spilin með formlegum hætti á vinnslustiginu.
Í þessum lokafasa verður engin breyting þar á og er það eindregin von mín að bæjarbúar segi skoðun sína á þessari tillögu með sem víðtækustum hætti þannig að skipulagsnefnd og bæjarstjórn velkist ekki í vafa um álit Akureyringa á uppbyggingu miðbæjarins.
Það er eindreginn vilji minn að þessu ferli ljúki á jafn lýðræðilegan hátt og ferlið allt hefur verið frá upphafinu árið 2004.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulagsnefnd, Ólafur Jónsson og Unnsteinn Jónsson, leggja fram eftirfarandi bókun:
Að baki því deiliskipulagi sem hér er lagt fram liggur gríðarlega mikil og vönduð vinna og við teljum mikilvægt að skipulagið nái fram að ganga. Íbúum og hagsmunaaðilum hefur gefist kostur á að fylgjast með þessari vinnu og eftir góða almenna kynningu sl. vor var aftur farið yfir verkefnið og tekið tillit til margra þeirra ábendinga sem fram komu þar m.a. hvað varðar hæð og stærð húsa.
Ein af hugmyndunum sem liggja til grundvallar skipulaginu snýst um að gera síki, 14 m breitt og 120 m langt frá Bótinni undir Glerárgötu að Skipagötu. Sú einstaka hugmynd, sem er í samræmi við gildandi aðalskipulag, hefur valdið hvað mestum deilum hér í bæ og margir íbúar ekki á eitt sáttir um þá framkvæmd. Við teljum því rétt að bæjarstjórn taki það til skoðunar að setja framkvæmdina um síkið í dóm kjósenda og að á haustmánuðum fari fram rafræn skoðanakönnun meðal íbúa Akureyrar um þetta mál. Fyrir þá könnun þarf að eiga sér stað ítarleg kynning meðal bæjarbúa á þessari hugmynd og þeirri framtíðarsýn sem verið er að draga upp með henni í deiliskipulaginu.
Við teljum hinsvegar mikilvægt að aðrir hlutar deiliskipulagsins nái fram að ganga nú í vor, enda mjög brýnt að ljúka skipulagi á reitum K og L þannig að áhugasamir uppbyggingaraðilar geti hafið framkvæmdir.

Haraldur S. Helgason greiddi atkvæði gegn deiliskipulagstillögunni m.a. vegna breytinga á Glerárgötu úr fjórum akreinum í tvær.
Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu meirihluta skipulagsnefndar með 8 atkvæðum gegn 3 atkvæðum Baldvins H. Sigurðssonar, Kristínar Sigfúsdóttur og Odds Helga Halldórssonar.


4.          Þjónustustefna Akureyrarbæjar
2009050146
2. liður í fundargerð stjórnsýslunefndar dags. 27. janúar 2010:
Halla Margrét Tryggvadóttir starfsmannastjóri og Ingunn H. Bjarnadóttir formaður vinnuhóps um þjónustustefnu Akureyrarbæjar komu á fundinn og gerðu grein fyrir tillögum vinnuhópsins. Leitað hefur verið eftir sjónarmiðum íbúa, starfsmanna og stjórnenda Akureyrarbæjar auk þess sem vinnuhópurinn hefur haft hliðsjón af þjónustustefnum annarra sveitarfélaga og fyrirtækja. Hópurinn gerir tillögu um þjónustustefnu sem byggir á gildunum fagmennsku, lipurð og trausti og um aðgerðir til að ná markmiðum stefnunnar. Hópurinn gerir einnig tillögu um leiðbeiningar til starfsmanna um hvernig þeir geti náð markmiðum stefnunnar.
Stjórnsýslunefnd þakkar vinnuhópnum störf hans og Ingunni H. Bjarnadóttur fyrir góða kynningu.
Stjórnsýslunefnd vísar stefnunni til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu um þjónustustefnu Akureyrarbæjar með 11 samhljóða atkvæðum.


5.          Ríkisútvarpið - framtíð Svæðisútvarps Norðurlands
2008120007
Rætt um fyrirhugaðan niðurskurð á þjónustu Ríkisútvarpsins á Norðurlandi.
Lögð var fram tillaga að bókun svohljóðandi:
   "Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir harðlega þeim mikla niðurskurði á starfsemi Ríkisútvarpsins á Akureyri sem nýlega var tilkynntur. Svæðisbundin starfsemi útvarpsins skiptir miklu máli fyrir byggðina utan höfuðborgarsvæðisins og tryggir eðlilegt jafnvægi í fréttaflutningi af landinu öllu. Svæðisstöðvarnar gegna jafnframt mikilvægu hlutverki í að bæta upplýsingagjöf og efla samkennd íbúa á þeim svæðum sem þær þjóna. Bæjarstjórn skorar þess vegna á stjórn Ríkisútvarpisins að endurskoða ákvörðun sína og þá forgangsröðun sem hún byggir á."
Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.


6.          Strokkur Energy ehf - rammasamningur
2010010199
1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 28. janúar 2010:
Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri Strokks Energy ehf og Magnús Þór Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar mættu á fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir rammasamninginn fyrir sitt leyti og felur bæjarstjóra að undirrita hann. Samningurinn verður lagður fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðan rammasamning með 11 samhljóða atkvæðum.


7.          Stefnuumræða í bæjarstjórn 2010 - skólanefnd
2010010138
Starfsáætlun skólanefndar.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar gerði grein fyrir starfsáætlun skólanefndar.
Almennar umræður urðu í kjölfarið.Fundi slitið.