Bæjarstjórn

3261. fundur 17. febrúar 2009
Bæjarstjórn - Fundargerð
3261. fundur
17. febrúar 2009   kl. 16:00 - 18:51
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Kristján Þór Júlíusson forseti bæjarstjórnar
Helena Þuríður Karlsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Hermann Jón Tómasson
Hjalti Jón Sveinsson
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason
Kristín Sigfúsdóttir
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Afgreiðslur skipulagsstjóra 2009
2009010169

10. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 11. febrúar 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram til samþykktar fundargerð 236. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum dags. 28. janúar 2009.
Skipulagsnefnd samþykkir fundargerð skipulagsstjóra og leggur til við bæjarstjórn að fundargerðin verði staðfest.
Bæjarstjórn staðfestir fundargerð skipulagsstjóra dags. 28. janúar 2009 með 11 samhljóða atkvæðum.


2.          Afgreiðslur skipulagsstjóra 2009
2009010169
11. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 11. febrúar 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram til samþykktar fundargerð 237. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum dags. 4. febrúar 2009.
Skipulagsnefnd samþykkir fundargerð skipulagsstjóra og leggur til við bæjarstjórn að fundargerðin verði staðfest.
Bæjarstjórn staðfestir fundargerð skipulagsstjóra dags. 4. febrúar 2009 með 11 samhljóða atkvæðum.


3.          Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - Skarðshlíð - íþróttasvæði
2009020093
1. liður í fundargerð skipulagsnefndar  dags. 11. febrúar 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna nýs íþróttasvæðis við Skarðshlíð á svæði sem skilgreint er í gildandi aðalskipulagi sem grænt svæði norðan íþróttasvæðis Þórs við Skarðshlíð. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni dags. 21. janúar 2009. Tillagan hefur verið kynnt með áberandi hætti sbr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga m.a. með auglýsingu í staðarblaðinu Dagskránni 4. febrúar 2009.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.


4.          Skarðshlíð - íþróttasvæði Þórs - deiliskipulag norðan Skarðshlíðar
2009020094
2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 11. febrúar 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi á íþróttasvæði norðan Skarðshlíðar austan Litluhlíðar. Tillagan er unnin af Arkitektur.is dags. 10. desember 2008.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.


5.          Krossaneshagi - áfangi C - deiliskipulag
2008120049
3. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 11. febrúar 2009:
Tillaga að deiliskipulagi C-áfanga í Krossaneshaga, athafnasvæði unnin af Ágústi Hafsteinssyni arkitekt hjá Form ehf. og Verkís (VST) dags. 2. desember 2008,  var auglýst frá 18. desember 2008 til 29. janúar 2009.
Engar athugasemdir bárust.
Í umsögn Norðurorku dags. 2. febrúar 2009 er ekki gerð athugasemd við skipulagið.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.


6.          Lundarhverfi - reitur 2.51.7 - deiliskipulag sunnan Eikarlundar
2009020095
6. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 11. febrúar 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi sunnan Eikarlundar, reitur 2.51.7 skv. Aðalskipulagi Akureyrar, ásamt greinargerð. Tillagan er unnin af Gísla Kristinssyni dags. 20. janúar 2009. Lögð var fram hljóðskýrsla Línuhönnunar um Miðhúsabraut og Brálund dags. 3. apríl 2008 auk minnisblaðs dags. 12. maí 2008 um umferðarmál. Einnig voru lagðar fram upplýsingar um jarðvegsdýpi á svæðinu.
Nafnanefnd kom saman til fundar þann 26. janúar 2009 og leggur til að ný gata frá Brálundi verði kölluð Daggarlundur.
Skipulagsnefnd samþykkir tillögu nafnanefndar að nafni götunnar.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 10 atkvæðum gegn 1 atkvæði Odds Helga Halldórssonar.


7.          Grímsey - sameiningarmál - fyrri umræða
2007110066
4. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 12. febrúar 2009:
Bæjarstjóri upplýsti um stöðu mála.
Lögð fram tillaga samstarfsnefndar um sameiningu Akureyrarkaupstaðar og Grímseyjarhrepps dags. 10. febrúar 2009  þar sem lagt er til að kosning um sameiningu sveitarfélaganna fari fram samhliða kosningum til Alþingis 25. apríl nk.
Bæjarráð vísar tillögunni til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Umræður fóru fram um tillögu samstarfsnefndar og afgreiðslu vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn.


8.          Leiguíbúðir Akureyrarbæjar - reglur
2008060053
8. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 9. febrúar 2009:
Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um leiguíbúðir Akureyrarbæjar.
Félagsmálaráð samþykkir framkomna breytingu og vísar málinu til bæjarráðs.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu að breytingu á reglum um leiguíbúðir Akureyrarbæjar með 11 samhljóða atkvæðum.


9.          Rannsóknarboranir á Þeistareykjum
2009020098
Að ósk bæjarfulltrúanna Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur og Hermanns Jóns Tómassonar er tekin til umræðu tillaga til þingsályktunar um rannsóknarboranir á Þeistareykjum sumarið 2009 og undirbúning fyrir álver á Bakka.

Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:
   "Bæjarstjórn Akureyrar styður eindregið hugmyndir um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að hægt verði að ráðast í rannsóknarboranir á Þeistareykjum sumarið 2009. Bæjarstjórn lítur svo á að það beri að rannsaka auðlindir þjóðarinnar og nýta þær eftir bestu getu, ekki síst á erfiðleikatímum eins og nú eru, til að skapa arðbær framtíðarstörf.
Virkjun þeirra miklu orkulinda sem eru á Þeistareykjasvæðinu og uppbygging atvinnufyrirtækja sem nýta þessa orku mun hafa mikil áhrif á  atvinnu- og búsetumál á Norðausturlandi.
Bæjarstjórn skorar þess vegna á stjórnvöld að tryggja framgang þessa máls."
Bókunartillagan var borin upp og samþykkt með 8 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Baldvins H. Sigurðssonar og Kristínar Sigfúsdóttur.
Oddur Helgi Halldórsson sat hjá við afgreiðslu.
       
Baldvin H. Sigurðsson og Kristín Sigfúsdóttir óska eftirfarandi bókað:
   "Það er ótækt að ríkið mismuni þeim aðilum, sem sækjast eftir að kaupa orku af Þeistareykjum ehf. Það samræmist ekki vinnubrögðum, sem stunduð eru við sölu á orku til orkufreks iðnaðar að ganga í berhögg við möguleika heimamanna til að hafa áhrif á hverjir kaupi orkuna. Þingsályktunartillagan gerir aðeins ráð fyrir að orkan sé seld til Alcoa vegna  álvers á Bakka.  Alcoa féll frá fyrirhuguðum stuðningi við rannsóknarboranir á Þeistareykjum á síðasta ári vegna verðhruns  og óvissu á mörkuðum.  Þar með hafa Þeistareykir ehf. ekki skuldbindingar gagnvart Alcoa á nokkurn hátt.
Við mótmælum harðlega að ríkið beiti sér fyrir fjármögnun rannsókna vegna álvers á Bakka og gerð fjárfestingasamninga við Alcoa nú, þegar umræður standa yfir við önnur fyrirtæki um kaup á raforku frá Þeistareykjum. Slíkt væri í hrópandi andstöðu við samkeppnisreglur.
Norðurorka er hluthafi í Þeistareykjum ehf. og hefur lagt mikið undir við fjármögnun á því félagi. Það er því óskiljanlegt að fram komi þingsályktunartillaga sem útilokar möguleika á sölu raforku frá svæðinu til atvinnuuppbyggingar, sem frekar er í sjónmáli en álver á Bakka. Skattgreiðendur á Akureyri eru í  ábyrgðum vegna fjármögnunar  hluta Norðurorku í Þeistareykjum ehf. og óásættanlegt að Norðurorku sé haldið í gíslingu Alcoa meðan afborganir og vextir hrannast upp.  Öruggasta  leiðin til að afla fjár til frekari rannsókna á Þeistareykjum er að áhugasamir kaupendur að orkunni finnist hið fyrsta og leggi fé í frekari rannsóknir til orkuöflunar inn í Þeistareyki ehf."


10.          Stefnuumræða í bæjarstjórn 2009 - skólanefnd
2009010152
Starfsáætlun skólanefndar 2006-2010.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar gerði grein fyrir starfsáætlun skólanefndar.
Almennar umræður urðu í kjölfarið


Fundi slitið.