Bæjarstjórn

6405. fundur 20. september 2005
3198. fundur
20.09.2005 kl. 16:00 - 18:35
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Oktavía Jóhannesdóttir
Bjarni Jónasson
Gerður Jónsdóttir
Ingimar Eydal
Jóhannes G. Bjarnason
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Valgerður H. Bjarnadóttir
Kristján Þór Júlíusson
Brynja Björk Pálsdóttir fundarritari


1 Hrafnabjörg - breyting á aðalskipulagi
2005090041
4. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 14. september 2005:
Lagður fram tillöguuppdráttur að breytingu á aðalskipulagi við Löngumýri/Hrafnabjörg í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi, sjá mál nr. SN050025. Umhverfisdeild leitaði álits Skipulagsstofnunar á því hvort deiliskipulagsbreytingin kallaði á breytingu á aðalskipulagi og var það niðurstaða stofnunarinnar að svo væri.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði send Skipulagsstofnun til athugunar og síðan auglýst, sbr. 17. og 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997, samhliða tillögu að breytingu á deiliskipulagi.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 10 samhljóða atkvæðum.


2 Meðhöndlun úrgangs - svæðisáætlun
2004110080
1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 8. september 2005.
Lögð fram drög að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020 dags. í apríl 2005. Drögin eru unnin af Verkfræðistofunni Línuhönnun hf. fyrir Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. Óskað er umsagnar sveitarfélagsins um drögin í bréfi Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. dags. 27. maí sl.
Bæjarráð er sammála þeim megin áherslum sem fram koma í áætluninni og leggur til við bæjarstjórn að hún verði samþykkt.
Bæjarstjórn samþykkir svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020 með 11 samhljóða atkvæðum.


3 Bifreiðastæðasjóður Akureyrar - gjaldskrá
2002100069
2. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 8. september 2005.
Lögð fram eftirfarandi tillaga að gjaldskrá Bifreiðastæðasjóðs Akureyrar:
"Í samræmi við 29. grein Samþykktar um Bifreiðastæðasjóð Akureyrar og 2. mgr. 83. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er lagt til að aukastöðugjald verði kr. 1.500. Jafnframt er lagt til með heimild í 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 að gjald vegna stöðubrota verði kr. 1.500. Einnig er lagt til að veittur verði 500 kr. afsláttur ef aukastöðugjald og gjald vegna stöðubrota er greitt innan 2ja virkra daga."
Bæjarráð vísar tillögunni til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa gjaldskrá Bifreiðastæðasjóðs Akureyrar aftur til bæjarráðs og til seinni umræðu í bæjarstjórn.


4 Kjör í undirkjörstjórnir vegna kosningar um sameiningu sveitarfélaga 8. október 2005
2005050029
Lagður fram listi með nöfnum 30 aðalmanna og 30 varamanna sem tilnefndir eru í undirkjörstjórnir við kosningu um sameiningu sveitarfélaganna Akureyrarkaupstaðar, Arnarneshrepps, Dalvíkurbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgárbyggðar, Ólafsfjarðarbæjar, Siglufjarðarkaupstaðar og Svalbarðsstrandarhrepps 8. október 2005.
Þar sem þetta voru jafnmargir og kjósa átti, lýsti forseti þetta fólk réttkjörið.


5 Fjölskyldustefna Akureyrarbæjar - endurskoðun 2004-2005
2004050085
4. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 1. september 2005:
1. liður í fundargerð jafnréttis- og fjölskyldunefndar dags. 23. ágúst 2005.
Tekið fyrir erindi bæjarráðs frá 23. júní 2005 þar sem óskað er umsagnar jafnréttis- og fjölskyldunefndar á breytingartillögum Oktavíu Jóhannesdóttur bæjarfulltrúa við tillögu að endurskoðaðri fjölskyldustefnu sem lögð var fram í bæjarstjórn 14. júní 2005 en vísað til bæjarráðs ásamt framkomnum breytingartillögum Oktavíu.
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd fór yfir tillögurnar og vísar umsögn sinni til bæjarráðs.
Bæjarráð vísar breytingartillögum jafnréttis- og fjölskyldunefndar ásamt endurskoðaðri fjölskyldustefnu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Bæjarfulltrúi Oktavía Jóhannesdóttir lagði fram eftirfarandi breytingartillögur:

"Unglingaráð
Til þess að raddir barna og unglinga fái að heyrast verði myndað unglingaráð með fulltrúum 13-18 ára unglinga sem taki til umfjöllunar ýmis málefni og framkvæmdir í bænum, sérstaklega þau sem varða börn og unglinga. Ráðið fái sér til aðstoðar starfsmann sem greitt getur götu þess og verið til ráðgjafar. Starfsemi ráðsins verði kynnt bæði í bæjarkerfinu og utan þess og hvatt til þess að börn og unglingar verði höfð með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau.
Einnig verði boðað til sérstakra funda um málefni líðandi stundar sem snerta ákveðna áhuga- og aldurshópa.
Með þessum aðgerðum verður börnum og unglingum gert auðveldara að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á málefni er varða þeirra áhugasvið.

Sértæk ráðgjöf og fræðsla
Sérstök aðstoð/námskeið standi þeim foreldrum og forráðamönnum til boða sem einhverra hluta vegna reynist foreldrahlutverkið erfitt. Einnig eigi foreldrar og aðrir uppalendur greiðan aðgang að markvissri ráðgjöf vegna barna sem eiga við sértækan vanda að stríða, svo sem fötlun eða hegðunar- og aðlögunarvanda.

Ráðgjöf vegna sambúðarvanda og áfalla
Foreldrar eigi greiðan aðgang að ráðgjöf vegna sambúðarvanda. Sérstök ráðgjöf standi foreldrum til boða við að styðja börn sín í gengum áföll eins og skilnað, dauðsföll o.fl. Öflug ráðgjöf við sameiginlega forsjá verði veitt. Kortlögð verði sú sambúðarráðgjöf og áfallahjálp sem fáanleg er á svæðinu. Þjónustan verði kynnt bæjarbúum.

Daggæsla
Dvöl barna hjá dagforeldrum er valkostur fyrir þá sem það kjósa. Daggæsla hjá dagforeldrum skal niðurgreidd á sambærilegan hátt og dvöl á leikskóla. Áhersla verði lögð ...

Ráðgjöf og úrræði í skólum
Nemendur með skilgreindar sérþarfir skulu eiga kost á þjónustu við hæfi í leik- og grunnskólum þar sem vönduð sérúrræði verði m.a. valkostur. Skólar og foreldrar eigi ávallt greiðan aðgang að fagfólki til að aðstoða við þau verkefni sem ekki er á færi starfsmanna skólanna eða foreldra að vinna úr. Náms- og starfsráðgjöf verði efld.

Leiguhúsnæði á vegum Akureyrarbæjar
Unnið verði að því að fjölskyldur sem þurfa aðstoð við öflun íbúðarhúsnæðis eigi kost á öruggu leiguhúsnæði hjá Akureyrarbæ á viðráðanlegum kjörum."

Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir lagði fram breytingartillögur svohljóðandi:
"a) Börn, unglingar og lýðræði (Þessi grein stefnunnar sé færð í það horf sem hún var fyrir, en sú breyting þó gerð að stjórnsýslunefnd verði ábyrg, auk íþrótta- og tómstundaráðs.)

Börn og unglingar eiga, samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, rétt á að hlustað sé á sjónarmið þeirra. Sums staðar á Norðurlöndum hafa verið gerðar tilraunir til að hafa unglinga með í ráðum í bæjarkerfinu, sérstaklega þar sem um framkvæmdir fyrir börn og unglinga er að ræða. Hefur það víða gefist vel, bæði skilað inn nýjum og þörfum hugmyndum og ábendingum til framkvæmdaraðila svo og glætt áhuga ungs fólks á stjórnmálum og því að vera þátttakendur í mótun síns bæjarfélags.

Verkefni: Unglingaráð
Myndað verði unglingaráð með fulltrúum 13-18 ára unglinga sem taki til umfjöllunar ýmis málefni og framkvæmdir í bænum, sérstaklega þau sem varða börn og unglinga. Ráðið móti sjálft sitt vinnulag og ákveði t.d. hvort og með hvaða hætti hugmyndum ráðsins verði komið á framfæri. Ráðið fái sér til aðstoðar starfsmenn sem greitt geti götu þess og verið til ráðgjafar sé þess óskað. Starfsemi ráðsins verði kynnt bæði í bæjarkerfinu og utan þess og hvatt til þess að börn og unglingar verði höfð með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau.

Ábyrgð: Íþrótta- og tómstundadeild / Stjórnsýslunefnd
Áfangar: Á árinu 2005 verði myndað unglingaráð. Starfsemi þess verði komin vel á veg vorið 2006. Í ársbyrjun 2007 liggi fyrir áfangaskýrsla um gang mála.

b) Sértæk (ráðgjöf og) fræðsla

í setninguna sem fyrir liggur verði bætt orðinu 'ráðgjafar', og hljóði setningin þá svo: Sérstök aðstoð í formi ráðgjafar, námskeiða eða hópastarfs standi....

c) Ráðgjöf vegna sambúðarvanda og áfalla
Foreldrar eigi greiðan aðgang að ráðgjöf vegna sambúðarvanda. Sérstök ráðgjöf standi foreldrum til boða við að styðja börn sín í gegnum áföll eins og skilnað, dauðsföll o.fl. Öflug ráðgjöf við sameiginlega forsjá verði veitt. Kortlögð verði sú sambúðarráðgjöf og áfallahjálp sem fáanleg er á svæðinu. Þjónustan verði kynnt bæjarbúum sérstaklega eftir að niðurstöður liggja fyrir.

Ábyrgð: Fjölskyldudeild og Heilsugæslustöð
Áfangar: Áætlun um samhæfingu og nýbreytni verði lokið fyrir árslok 2005. Kynning fari fram á árinu 2006."

Tillaga Oktavíu var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 2.

Tillaga Valgerðar var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 2.

Bæjarstjórn samþykkir breytingartillögur jafnréttis- og fjölskyldunefndar ásamt endurskoðaðri fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar með 7 samhljóða atkvæðum.6 Forvarnastefna fyrir Akureyri
2003100007
1. liður í fundargerð áfengis- og vímuvarnanefndar dags. 15. september 2005
Áfengis- og vímuvarnanefnd samþykkir forvarnastefnu Akureyrarbæjar í áfengis- og vímuvörnum fyrir sitt leyti og vísar henni til samþykktar bæjarstjórnar.
Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir lagði fram tillögu svohljóðandi:
"Forvarnastefnunni verði vísað aftur til áfengis- og vímuvarnanefndar til nánari athugunar. Óskað verði umsagnar grunn- og framhaldsskóla á Akureyri um stefnuna auk unglingafundar, áður en til endanlegrar samþykktar kemur."

Tillaga Valgerðar var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 4.

Bæjarstjórn samþykkir forvarnastefnu Akureyrarbæjar í áfengis- og vímuvörnum með 7 samhljóða atkvæðum.
Að lokum las forseti upp eftirfarandi tilkynningu frá Samfylkingunni um breytingu í nefnd:

Hafnarstjórn:
Hilmir Helgason verði aðalmaður í stað Oddnýjar Snorradóttur og Lára Stefánsdóttir verði varamaður.

Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Bæjarráð dags. 8. og 15. september 2005

Stjórnsýslunefnd dags. 14. september 2005

Umhverfisráð dags. 14. september 2005

Framkvæmdaráð dags. 2. september 2005

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar dags. 9. september 2005

Skólanefnd dags. 5. september 2005

Íþrótta- og tómstundaráð dags. 13. september 2005

Félagsmálaráð dags. 5. og 12. september 2005

Áfengis- og vímuvarnanefnd dags. 15. september 2005
Fundi slitið.