Bæjarstjórn

5766. fundur 15. febrúar 2005
3188. fundur
15.02.2005 kl. 16:00 - 16:47
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar
Gerður Jónsdóttir
Jón Erlendsson
Ágúst Hilmarsson
Jakob Björnsson
Jóhannes G. Bjarnason
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Oktavía Jóhannesdóttir
Steingrímur Birgisson
Þórarinn B. Jónsson
Kristján Þór Júlíusson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 Kosning skrifara bæjarstjórnar
2004050104
Kosning skrifara bæjarstjórnar til júní 2005, aðalmanns í stað Valgerðar H. Bjarnadóttur sem er í tímabundnu leyfi. Fram kom tillaga með nafni Jóns Erlendssonar.
Þar sem ekki komu fram fleiri nöfn en kjósa átti, lýsti forseti Jón Erlendsson rétt kjörinn.


2 Kaupskylda og forkaupsréttur á félagslegum íbúðum 2005
2005010096
1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 3. febrúar 2005.
Fram var lögð tillaga að bókun svohljóðandi:
"Með vísan til IV. kafla í ákvæðum til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998, sbr.
3. gr. laga nr. 86/2002, samþykkir bæjarstjórn Akureyrar að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti bæjarins af öllum félagslegum eignaríbúðum í sveitarfélaginu frá og með 15. september 2005.
Samþykkt þessi þarfnast staðfestingar félagsmálaráðherra."
Tillagan var borin upp og samþykkt með 10 atkvæðum gegn 1.


3 Borgarsíða 23 - breyting á deiliskipulagi
2005010094
10. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 9. febrúar 2005.
Erindi þar sem sótt var um breytingar á áður samþykktum byggingaskilmálum var sent í grenndarkynningu 19. janúar sl. Allir þátttakendur í kynningunni hafa lýst yfir samþykki sínu og telst grenndarkynningu því lokið. Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki deiliskipulagsbreytinguna og feli umhverfisdeild að annast gildistökuferlið.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


4 Sjallareitur
2004030095
Umræða um eftirfarandi dagskrárlið í fundargerð umhverfisráðs dags. 9. febrúar sl.
Erindi dagsett 2. febrúar 2005 frá Sigurði Sigurðssyni f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519 sem óskar eftir afgreiðslu umhverfisráðs og umhverfisdeildar Akureyrarbæjar á tillögum að skipulagi á Sjallareitnum. Meðfylgjandi eru tillöguteikningar eftir Orra Árnason á arkitektastofunni Zeppelín-arkitektar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að á svæðinu verði byggt tveggja hæða verslunar- og bílageymsluhús að grunnfleti 8.365 m². Ofan á þetta hús koma síðan þrír 14 hæða íbúðaturnar með um 150-170 íbúðum. Heildarflatarmál bygginga verður um 25.165 m². Hámarkshæð byggingar 47 m. Á fundinn mættu Sigurður Sigurðsson og Orri Árnason og gerðu grein fyrir tillögunni.
Umhverfisráð tekur jákvætt í tillöguna og heimilar umsækjanda að gera deiliskipulagstillögu er byggir á framkomnum hugmyndum, tillöguna skal vinna í samráði við skipulags- og byggingafulltrúa. Áður en tillagan er lögð fyrir umhverfisráð skal liggja fyrir samkomulag við alla eigendur lóða og fasteigna sem deiliskipulagið mun ná til. Fram komnar hugmyndir falla vel að markmiðum Akureyrarbæjar um þéttingu byggðar á miðbæjarsvæðinu, það er álit ráðsins að hugmyndirnar trufli ekki verkefnið "Akureyri í öndvegi" og eru þær í samræmi við gildandi Aðalskipulag Akureyrar 1998-2018.
Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:
"Bæjarstjórn Akureyrar vill af gefnu tilefni ítreka að hún stendur heilshugar að baki hugmyndasamkeppni Akureyrar í öndvegi og ekki stendur til að spilla fyrir forsendum keppninnar. Bæjarstjórn mun skoða vel þær tillögur keppenda sem bestar þykja og reyna að sjá til þess að uppbygging miðbæjarins verði í samræmi við þá heildarsýn sem ætla má að myndist í kjölfar keppninnar.
Mikilvægt er að hafa í huga við umræðu um skipulagsmál á svokölluðum Sjallareit að áherslur hafa verið í mörg ár hjá bæjaryfirvöldum um að þétta þar byggð og þær hugmyndir sem nú eru uppi hafa verið í umræðu á vettvangi bæjarmála í rúmt ár. Fyrir liggur að vinna við deiliskipulag á þessum reit er enn á frumstigi og engra frekari ákvarðana að vænta í því fyrr en löngu eftir að úrslit hugmyndasamkeppninnar liggja fyrir."
Tillagan var borin upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Eftirtaldar fundargerðir fastanefnda eru lagðar fram til kynningar:
Bæjarráð dags. 3. og 10. febrúar 2005
Umhverfisráð dags. 9. febrúar 2005
Framkvæmdaráð dags. 28. janúar 2005
Skólanefnd dags. 31. janúar 2005
Íþrótta- og tómstundaráð dags. 3. febrúar 2005
Félagsmálaráð dags. 31. janúar 2005


Fundi slitið.