Bæjarstjórn

5019. fundur 18. maí 2004
Bæjarstjórn - Fundargerð
3177. fundur
18.05.2004 kl. 16:00 - 18:55
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Valgerður H. Bjarnadóttir
Ágúst Hilmarsson
Gerður Jónsdóttir
Hermann Jón Tómasson
Jakob Björnsson
Jóhannes G. Bjarnason
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Þórarinn B. Jónsson
Kristján Þór Júlíusson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


Í upphafi fundar las forseti upp tilkynningu frá Framsóknarflokknum um breytingu í nefnd: Mínerva B. Sverrisdóttir, kt. 211067-5949, kemur inn sem varamaður í skólanefnd í stað Heiðu Hauksdóttur, kt. 211271-5319.
Einnig tilkynningu um breytingu í nefnd frá Samfylkingunni: Hafdís Björg Hjálmarsdóttir,
kt. 280267-3259, kemur inn sem varamaður í jafnréttis- og fjölskyldunefnd í stað Sigrúnar Stefánsdóttur, kt. 140367-5169.
1 Rammasamningur um lántökur Landsvirkjunar
2000050029
9. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 6. maí 2004.
Með bréfi dags. 28. apríl 2004 fór Landsvirkjun þess á leit við Akureyrarbæ að samþykkt væru þau atriði er tilgreind eru í bréfinu varðandi lántökur Landsvirkjunar er varða "Euro Medium Term Note Programme" eða "EMTN". Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að erindi Landsvirkjunar verði samþykkt.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


2 Starfsáætlanir 2004
2003100075
10. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 6. maí 2004.
Lagðar voru fram endurskoðaðar starfsáætlanir nefnda og sviða fyrir árið 2004.
Bæjarráð vísar áætlununum til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir starfsáætlanirnar með 11 samhljóða atkvæðum.


3 Dómsmál nr. E-124/2002
2001040079
9. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 13. maí 2004.
Lagður var fram dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli Guðrúnar Sigurðardóttur gegn Akureyrarbæ. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að dómi Héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar.
Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir gerði stuttlega grein fyrir vanhæfi sínu og afstöðu sinni til málsins. Lagði hún fram svohljóðandi bókun:
"Ég tel óþarft fyrir Akureyrarbæ að áfrýja þeim héraðsdómi sem nú er til umræðu. Þess í stað tel ég að bæjarstjórn ætti nú þegar að búa sig undir að bregðast við þeim fimm dómum sem þegar liggja fyrir og varða jafnrétti til launa, með því að eiga frumkvæði að allsherjarendurskoðun launakerfis sveitarfélaganna. Ég tel ljóst að í því kerfi viðgangist launamismunun sem réttlætt er eingöngu með kjarasamningum, en samkvæmt dómi Hæstaréttar í svokölluðu Ragnhildarmáli
nr. 11/2000 er það óheimilt. Þar fellst dómurinn á þau rök að: "markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf náist ekki ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar" og í framhaldi segir: "óhjákvæmilegt er, að samningsfrelsi á vinnumarkaði sæti þeim takmörkunum, er leiðir af ákvæðum jafnréttislaga þannig skýrðum" og enn segir í dómnum "mismunandi kjarasamningar geta ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla."
Valgerður vék síðan af fundi við meðferð og afgreiðslu málsins.

Bæjarfulltrúi Hermann Jón Tómasson lagði fram bókun svohljóðandi:
"Það þjónar best hagsmunum bæjarfélagsins að una dómi Héraðsdóms í máli Guðrúnar Sigurðardóttur. Það er bæjarfélaginu til álitshnekkis að stjórnendur þess sitji hvað eftir annað undir ásökunum um að hafa mismunað starfsmönnum sínum eftir kynferði. Ljóst má vera af þeim dómum sem fallið hafa í þessu máli og öðrum sambærilegum að lagatúlkanir stjórnenda bæjarins eiga ekki við rök að styðjast. Þess vegna er tímabært að viðurkenna mistök og taka afleiðingum þeirra."
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs með 9 atkvæðum gegn 1.


4 Sameining Hríseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar - fyrri umræða
2003110075
Tekin var til umræðu eftirfarandi tillaga samstarfsnefndar til bæjarstjórnar Akureyrar og hreppsnefndar Hríseyjar frá fundi mánudaginn 17. maí 2004:
"Samstarfsnefnd um sameiningu Hríseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar samþykkir að haldin verði almenn atkvæðagreiðsla um eftirfarandi tillögu laugardaginn 26. júní 2004:
"Lagt er til að Hríseyjarhreppur og Akureyrarkaupstaður verði sameinuð í eitt sveitarfélag."
Kynning, sbr. 5. mgr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga, á málefnaskrá fyrir nýtt sveitarfélag verður í höndum samstarfsnefndar.
Gert er ráð fyrir því að sameiningin taki gildi 1. ágúst 2004 og að bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar fari með stjórn hins sameinaða sveitarfélags fram að almennum sveitarstjórnarkosningum vorið 2006."
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að kjördagur um tillögu samstarfsnefndar verði laugardaginn 26. júní 2004.


5 Helgamagrastræti - deiliskipulagstillaga að leikskólalóð
2004050053
1. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 12. maí 2004. Lögð var fram deiliskipulagstillaga að leikskólalóð á svæði norðan Bjarkarstígs milli Helgamagrastrætis og Þórunnarstrætis, sem Árni Ólafsson arkitekt hefur unnið fyrir umhverfisdeild og Fasteignir Akureyrarbæjar.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði auglýst skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


6 Leiguíbúðir Akureyrarbæjar - reglur
2004020096
Lögð fram tillaga um að við reglur um leiguíbúðir dags. 20. apríl 2004 bætist svohljóðandi grein um endurupptökurétt:
"Hægt er að óska eftir endurupptöku máls ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ákvörðun hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Beiðni um endurupptöku skal beina til bæjarráðs innan 3ja mánaða frá birtingu ákvörðunar."
Greinin verði nr. 31 og kaflaheiti breytist til samræmis og verði "XIII. Málskots- og endurupptökuréttur".
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.


7 Reglur um styrki til fatlaðra skv. 27 gr. laga um málefni fatlaðra
2004050013
3. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 10. maí 2004.
Lögð voru fram drög að reglum um styrki samkvæmt 27. grein laga um málefni fatlaðra
nr. 59/1992. Félagsmálaráð leggur til við bæjarstjórn að reglurnar verði samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir reglurnar með 11 samhljóða atkvæðum.


8 Gjafasjóður Öldrunarstofnunar Akureyrarbæjar
2004050015
7. liður í fundargerð félagsmálaráðs dags. 10. maí 2004.
Lögð voru fram drög að Samþykkt fyrir Gjafasjóð Öldrunarstofnunar Akureyrarbæjar.
Félagsmálaráð leggur til við bæjarstjórn að samþykktin verði staðfest.
Bæjarstjórn staðfestir samþykktina með 11 samhljóða atkvæðum.


9 Fjölskyldustefna Akureyrarbæjar
2004010059
Lögð fram tillaga svohljóðandi:
"Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að hefja vinnu við endurskoðun fjölskyldustefnu Akureyrarbæjar og skal því verki vera lokið í síðasta lagi um mitt næsta ár. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd skipi sérstakan starfshóp til að vinna að verkefninu og setji honum erindisbréf. Vinnuhópurinn leggi mat á það hvernig til hefur tekist um framkvæmd stefnunnar og geri tillögur um breytingar ef þurfa þykir."
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.


10 Miðbær Akureyrar
2004050057
Lögð fram tillaga um málefni Miðbæjarins svohljóðandi.

"Bæjarstjórn Akureyrar fagnar því frumkvæði sem hagsmunaaðilar í Miðbænum hafa sýnt um mótun framtíðarhugmynda um Miðbæ Akureyrar.
Þróun og skipulag Miðbæjarins er mikilvægur þáttur í því hvernig Akureyringar vilja sjá bæinn þróast til framtíðar og því telur bæjarstjórn að íbúaþing gæti verið kjörinn vettvangur til að draga fram áherslur íbúa og hagsmunaaðila.
Í málefnasamningi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er einmitt stefnt að því að halda íbúaþing Akureyrar, með það að markmiði að fá fram sjónarmið íbúanna við framtíðarstefnumótun bæjarins.
Bæjarstjórn lýsir sig reiðubúna til að vinna af fullum krafti með hagsmunaaðilum í þessari vinnu og leggur áherslu á að gott samráð verði haft við almenning um framtíð Miðbæjarins."

Bæjarfulltrúi Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir bar fram breytingartillögu þess efnis að 3. málsgrein tillögunar falli út.
Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir óskar bókað að hún styður breytingartillöguna.
Breytingartillagan var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 4.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 7 atkvæðum. 4 sátu hjá við afgreiðslu.


Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:
Bæjarráð dags. 6. og 13. maí 2004
Umhverfisráð dags. 12. maí 2004
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar dags. 7. maí 2004
Menningarmálanefnd dags. 6. maí 2004
Skólanefnd dags. 3. maí 2004
Íþrótta- og tómstundaráð dags. 12. maí 2004
Félagsmálaráð dags. 10. maí 2004
Áfengis- og vímuvarnanefnd dags. 30. apríl 2004
Hægt er að nálgast fundargerðir fastanefnda á heimasíðu Akureyrarbæjar - www.akureyri.is - Stjórnkerfið - Fundargerðir.

Fundargerð Héraðsráðs Eyjafjarðar dags. 28. apríl 2004 meðfylgjandi til kynningar.

Fundi slitið.