Bæjarstjórn

4964. fundur 04. maí 2004
3176. fundur
04.05.2004 kl. 16:00 - 18:27
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Jakob Björnsson 1. varaforseti bæjarstjórnar
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Bjarni Jónasson
Gerður Jónsdóttir
Guðmundur Jóhannsson
Jóhannes G. Bjarnason
Jón Erlendsson
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Oktavía Jóhannesdóttir
Kristján Þór Júlíusson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


1 Helgamagrastræti leikskóli - aðalskipulag - breyting
2004040107
1. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 28. apríl 2004.
Lögð var fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem felur í sér stækkun á leikskólalóð á svæðinu milli Helgamagrastrætis og Þórunnarstrætis.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði send Skipulagsstofnun til athugunar og síðan auglýst, sbr. 17. og 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


2 Austurbyggð 17 - Hlíð - breyting á aðalskipulagi og deiliskipulagi
2004040108
2. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 28. apríl 2004.
Endurskoðaðar tillögur að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi lóðar dvalarheimilisins Hlíðar og nágrennis voru auglýstar skv. 18. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 5. mars 2004 sbr. bókun ráðsins 25. febrúar 2004 og rann frestur til að gera athugasemdir út 16. apríl sl.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi og feli umhverfisdeild að senda hana Skipulagsstofnun til afgreiðslu skv. 18. og 19. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ráðið leggur jafnframt til við bæjarstjórn að tillaga að deiliskipulagi verði samþykkt með þeirri breytingu að við bætist gangstétt austan Þórunnarstrætis frá Hrafnagilsstræti að FSA og að umhverfisdeild verði falið að annast gildistökuferli tillögunnar svo breyttrar skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Bæjarstjórn samþykkir tillögur umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


3 Verklagsreglur vegna ráðninga m.t.t. kynjasjónarmiða
2004020089
2. liður í fundargerð jafnréttis- og fjölskyldunefndar dags. 27. apríl 2004.
Lögð voru fram drög að verklagsreglum vegna ráðninga stjórnenda og annarra starfsmanna m.t.t.
kynjasjónarmiða. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd samþykkti reglurnar fyrir sitt leyti. Þessar reglur þurfa staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir verklagsreglurnar með 11 samhljóða atkvæðum.


4 Jafnréttislöggjöfin
2004040090
Fram fór umræða að ósk bæjarfulltrúa Oktavíu Jóhannesdóttur um 6. lið í fundargerð jafnréttis- og fjölskyldunefndar dags. 27. apríl 2004, vegna umræðna síðustu vikna um Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.
Oktavía Jóhannesdóttir óskar bókað: "Yfirlýsingar Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála um brot á ákvæðum jafnréttislaga vegna skipunar dómara í Hæstarétt, ganga gegn starfi því sem unnið hefur verið í jafnréttismálum um árabil á grundvelli þessara laga. Jafnréttislögin lýsa þeim vilja þjóðarinnar að efla réttlæti og frelsi í landinu, þau ber að virða, jafnt háir sem lágir, sveitarstjórnir og ríkisstjórn. Sú forneskja sem birtist í yfirlýsingum dómsmálaráðherrans er ólíðandi, honum ber því að biðjast afsökunar eða víkja ella."


5 Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð
2002090017
Fram fór umræða að ósk bæjarfulltrúa Oktavíu Jóhannesdóttur um tillögur verkefnisstjórnar um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð, möguleg viðbrögð bæjarstjórnar við þeim, hvaða mál bæjarstjórn mun hugsanlega leggja áherslu á og hver aðkoma bæjarfélagsins á að vera í framhaldinu.
Varabæjarfulltrúi Jón Erlendsson óskar bókað: "Öfugþróun í byggðamálum á Íslandi stafar fyrst og fremst af þeirri skefjalausu hægristefnu sem framfylgt hefur verið um árabil undir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir atbeina Framsóknarflokksins. Þessi stefna birtist í óheftum markaðsbúskap á flestum sviðum, einkavæðingu opinberra þjónustustofnana og fiskveiðistjórnunarkerfi sem tekur ekkert mið af byggðasjónarmiðum. Hún hefur leitt af sér samþjöppun auðs og valds á Suðvesturhorni landsins, hnignun þjónustu í dreifbýlinu, fækkun atvinnutækifæra og fólksflótta af landsbyggðinni. Nýtt vaxtarskeið hinna afskiptu byggða landsins mun ekki geta hafist fyrr en skipt verður um stjórnarstefnu og ríkisstjórn tekur við sem hefur skilning á vandamálum landsbyggðarinnar og vilja til þess að beita afli ríkisvaldsins henni til vaxtar og viðgangs."

Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:
Bæjarráð dags. 29. apríl 2004
Umhverfisráð dags. 28. apríl 2004
Framkvæmdaráð dags. 16. apríl 2004
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar dags. 23. apríl 2004
Menningarmálanefnd dags. 20. apríl 2004
Skólanefnd dags. 19. apríl 2004
Íþrótta- og tómstundaráð dags. 27. apríl 2004
Félagsmálaráð dags. 26. apríl 2004
Náttúruverndarnefnd dags. 15. apríl 2004
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd dags. 27. apríl 2004


Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar - www.akureyri.is - Stjórnkerfið - Fundargerðir.

Fundargerð Héraðsráðs Eyjafjarðar dags. 24. mars 2004 - meðfylgjandi til kynningar.


Fundi slitið.