Bæjarstjórn

4805. fundur 16. mars 2004

3173. fundur
16.03.2004 kl. 16:00 - 19:13
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Gerður Jónsdóttir
Guðný Jóhannesdóttir
Jakob Björnsson
Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir
Oktavía Jóhannesdóttir
Steingrímur Birgisson
Valgerður H. Bjarnadóttir
Kristján Þór Júlíusson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


Í upphafi fundar minntist forseti bæjarstjórnar Jóhanns G. Sigurðssonar rafiðnaðarfræðings sem lést sl. föstudag. Jóhann starfaði að bæjarmálum, var m.a. formaður húsnæðisnefndar á liðnu kjörtímabili og formaður stjórnar Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands. Honum voru þökkuð störf í þágu bæjarfélagsins. Forseti bað viðstadda að rísa úr sætum og minnast hans.
1 Flutningur starfsemi leikskólans á Klöppum
2004010172
1. liður í fundargerð skólanefndar dags. 8. mars 2004.
Meirihluti skólanefndar leggur til að starfsemi leikskólans á Klöppum verði flutt í leikskólann í Tröllagili haustið 2004. Foreldrum sem eiga börn á Klöppum stendur til boða pláss í þessum nýja leikskóla eða í öðrum leikskólum bæjarins. Þorlákur Axel Jónsson og Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir bókuðu mótmæli við tillögunni og óskuðu eftir að málinu yrði vísað til úrskurðar bæjarstjórnar.
Fyrirliggjandi gögn undir málinu:
Bréf dags. 5. mars 2004 frá starfsfólki leikskólans Klöppum.
Ályktun dags. 11. mars sl. frá fundi í Brekkuskóla.
Ódags. yfirlýsing frá Foreldrafélaginu Hólmasól.
Undirskriftalistar með 146 nöfnum starfsmanna á leikskólum Akureyrarbæjar og 773 nöfnum annarra bæjarbúa.
Bréf dags. 11. mars 2004 (móttekið 15. mars 2004) frá stjórn 6. deildar Félags leikskólakennara.
Fram kom tillaga frá bæjarstjóra Kristjáni Þór Júlíussyni f.h. meirihlutans svohljóðandi:
"Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að fela umhverfisráði og skólanefnd að hraða svo sem kostur er undirbúningi að byggingu leikskóla við Helgamagrastræti og skal vinna nefndanna miðast við að skólinn taki til starfa í síðasta lagi á fyrri hluta ársins 2006.
Jafnframt tekur bæjarstjórn undir tillögu skólanefndar um að starfsemi leikskólans að Klöppum verði lögð af. Leikskólarekstri að Klöppum ljúki þó ekki í haust eins og tillaga skólanefndar gerir ráð fyrir heldur þegar nýr leikskóli tekur til starfa við Helgamagrastræti. Felur bæjarstjórn skólanefnd umsjón með framkvæmd málsins."

Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir bar fram tillögu svohljóðandi:
"Valgerður H. Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs leggur til að starfsemi leikskólans að Klöppum verði tryggð í núverandi formi a.m.k. þar til nýr leikskóli opnar við Helgamagrastræti, þ.e. í sama skólahverfi. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2006 verði kannað hvort enn kunni að vera þörf fyrir starfsemina og ef ekki, þá verði nemendum Klappa boðið að flytja beint á nýja leikskólann."

Tillaga meirihlutans var borin undir atkvæði og samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum.
Tillaga Valgerðar var borin undir atkvæði og felld með 7 atkvæðum gegn 4.

Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir, með stuðningi bæjarfulltrúa Oktavíu Jóhannesdóttur, lagði fram bókun svohljóðandi:
"Ég sit hjá við afgreiðslu á tillögu meirihlutans. Ég fagna því að meirihlutinn skuli hafa tekið tillit til þeirra mótmæla sem komið hafa fram síðustu daga, en ég get ekki á þessari stundu ákveðið að leggja niður starfsemi Klappa 2006."2 Reglur um ábyrgðarmörk
2004010087
1. liður í fundargerð stjórnsýslunefndar dags. 10. mars 2004.
Stjórnsýslunefnd leggur til að samþykktar verði reglur um ábyrgðarmörk og starfshætti stjórnenda, kjörinna fulltrúa og nefndarmanna í stjórnsýslu Akureyrarbæjar. Reglurnar skilgreina ábyrgðarmörk milli ráðinna stjórnenda bæjarins annarsvegar og kjörinna fulltrúa og nefndarmanna hinsvegar. Einnig skilgreina þær stöðu framkvæmdastjórnar í stjórnkerfinu og ábyrgðarmörk milli ráðinna stjórnenda innbyrðis.
Fram kom tillaga við 10. lið í kafla II. frá bæjarfulltrúa Oktavíu Jóhannesdóttur þess efnis að formaður bæjarráðs eigi sæti í framkvæmdastjórninni.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með 9 atkvæðum gegn 1.
Reglurnar voru síðan samþykktar með 9 samhljóða atkvæðum.3 Stefnumiðað árangursmat fyrir bæjarstjórn Akureyrar og Akureyrarbæ
2003070065
3. liður í fundargerð stjórnsýslunefndar dags. 10. mars 2004.
Stjórnsýslunefnd leggur til að þær skilgreiningar á markmiðum og stefnumálum bæjarstjórnar sem unnar hafa verið í samvinnu við ráðgjafa IMG/Deloitte, verði notaðar við vinnu nefnda, sviða og deilda við gerð starfsáætlana fyrir árið 2005.
Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir bar fram tillögu þess efnis að vísa málinu aftur til stjórnsýslunefndar með ósk um frekari umfjöllun.
Tillagan var borin upp og felld með 7 atkvæðum gegn 2.
Tillaga stjórnsýslunefndar var síðan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum.4 Samningur um skipulag og framkvæmdir á "Sjallareit"
SN030039
2. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 10. mars 2004.
Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við SS Byggi ehf. um uppbyggingu skv. deiliskipulagi á svonefndum "Sjallareit" sem afmarkast af Glerárgötu, Strandgötu, Geislagötu og Gránufélagsgötu. Samningurinn taki m.a. til þess hvernig Akureyrarbær komi að uppkaupum eigna og gerð deiliskipulags svæðisins. Hafður verði tímarammi á verkefninu til að framkvæmdir raski sem minnst umhverfi Miðbæjarins.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 9 samhljóða atkvæðum.

Bæjarfulltrúi Valgerður H. Bjarnadóttir óskar eftirfarandi bókunar:
"Valgerður H. Bjarnadóttir bæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs situr hjá við afgreiðslu á tillögu umhverfisráðs. Hún fagnar umræðu um framkvæmdir á Miðbæjarsvæðinu en telur eðlilegt, þegar um er að ræða úthlutun á svona mikilvægum byggingarreit í bæjarlandinu, að lóðin/reiturinn sé auglýst áður en gengið er til samninga við einn aðila öðrum fremur."5 Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2003 - fyrri umræða
2004020109
1. liður í fundargerð bæjarráðs dags. 11. mars 2004.
Bæjarráð vísaði ársreikningnum til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Fram kom tillaga um að vísa ársreikningnum til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.


Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:
Bæjarráð dags. 4. og 11. mars 2004
Stjórnsýslunefnd dags. 10. mars 2004
Umhverfisráð dags. 10. mars 2004
Framkvæmdaráð dags. 5. mars 2004
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar dags. 27. febrúar 2004
Skólanefnd dags. 8. mars 2004
Íþrótta- og tómstundaráð dags. 9. mars 2004
Kjaranefnd STAK og Akureyrarbæjar dags. 3. mars 2004
Félagsmálaráð dags. 8. mars 2004
Áfengis- og vímuvarnanefnd dags. 27. febrúar 2004

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar -
www.akureyri.is - Stjórnkerfið - Fundargerðir.

Fundi slitið.