Bæjarstjórn

5236. fundur 07. september 2004
3181. fundur
07.09.2004 kl. 16:00 - 17:20
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi/Akureyri


Nefndarmenn: Starfsmenn:
Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar
Gerður Jónsdóttir
Valgerður H. Bjarnadóttir
Ágúst Hilmarsson
Guðmundur Jóhannsson
Laufey Petrea Magnúsdóttir
Oddur Helgi Halldórsson
Oktavía Jóhannesdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Björn Snæbjörnsson
Jakob Björnsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari


Í upphafi fundar minntist forseti bæjarstjórnar Ingólfs Árnasonar fyrrverandi rafveitustjóra á Akureyri sem lést þann 26. ágúst sl. á hjúkrunarheimilinu Seli hér á Akureyri.
Ingólfur var fæddur á Akureyri þann 5. ágúst 1924 og var því rétt orðinn áttræður að aldri.
Foreldrar hans voru hjónin Jónína Gunnhildur Friðriksdóttir húsmóðir og Árni Stefánsson smiður. Þau hjónin eignuðust 14 börn og komust 12 þeirra á legg.
Ingólfur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1945 og hóf síðan nám í skipaverkfræði í Svíþjóð, en hætti og sneri heim þegar faðir hans lést. Hann lagði síðar stund á rafmagnstæknifræði við Oslos Tekniske skole og útskrifaðist þaðan árið 1952.
Ingólfur var kennari í Stykkishólmi árin 1948-1949, en starfaði eftir það alla tíð hjá Rafmagnsveitum ríkisins að námsárunum undanskildum. Árið 1954 varð hann rafveitustjóri á Norðurlandi eystra með aðsetur á Akureyri og gegndi því starfi til áramóta 1993-1994, er hann lét af störfum vegna aldurs.
Ingólfur kenndi einnig við Iðnskólann á Akureyri og í bæjarstjórn var hann í 20 ár eða frá árinu 1962-1982. Fyrstu 2 kjörtímabilin sat hann fyrir Alþýðubandalagið, en 3 kjörtímabil fyrir Samtök vinstri manna.
Ingólfur átti stóran þátt í að stofna Hitaveitu Akureyrar og var formaður hitaveitunefndar og fyrsti formaður stjórnar hennar. Hann sat einnig í stjórn Laxárvirkjunar 1971-1983. Ingólfur átti sæti í fjölmörgum öðrum nefndum á vegum Akureyrarbæjar.
Eftirlifandi eiginkona Ingólfs er Anna Ingibjörg Hallgrímsdóttir kennari frá Grafargili í Önundarfirði. Þau eignuðust 5 börn.
Bæjarstjórn Akureyrar þakkar Ingólfi Árnasyni fyrir störf hans í þágu bæjarfélagsins og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Bæjarfulltrúar minntust Ingólfs Árnasonar með því að rísa úr sætum.

 

1 Krókeyri, safnasvæði - deiliskipulag
2004080070
5. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 25. ágúst 2004 þar sem lögð var fram tillaga að deiliskipulagi fyrir gróðrarstöð og safnasvæðið að Krókeyri. Tillagan hefur verið kynnt fyrir íþrótta- og tómstundaráði sbr. bókun umhverfisráðs 23. júní sl. og gerði ráðið engar athugasemdir við hana.

Umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst til kynningar skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


2 Helgamagrastræti, leikskóli - deiliskipulag
2004050053
1. liður í fundargerð umhverfisráðs dags. 25. ágúst 2004. Tillaga að deiliskipulagi leikskólalóðar milli Helgamagrastrætis og Þórunnarstrætis og samsvarandi tillaga að breytingu á aðalskipulagi voru auglýstar skv. 21. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 19. maí 2004 með athugasemdafresti til 30. júní 2004. Tvær athugasemdir bárust og var þeim svarað í tengslum við samþykkt umhverfisráðs á tillögu að breytingu á aðalskipulagi 14. júlí 2004. Umhverfisráðuneytið hefur með bréfi dags. 19. ágúst 2004 tilkynnt um staðfestingu og gildistöku breytingar á aðalskipulagi.
Umhverfisráð samþykkti tillögu formanns að fjölga bílastæðum við leikskólann Þórunnarstrætismegin en fækka stæðum Helgamagrastrætismegin. Tillagan var samþykkt með fyrirvara um nánari útfærslu umferðarmannvirkja í Þórunnarstræti. Ráðið ítrekar svör við athugasemdum sem bókuð voru 14. júlí 2004, að því viðbættu að með breytingum frá auglýstri tillögu skv. ofansögðu telur ráðið að komið sé verulega til móts við athugasemdir að því er varðar umferð um Helgamagrastræti. Ráðið leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan svo breytt verði samþykkt og umhverfisdeild falið að annast gildistökuferli hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu umhverfisráðs með 11 samhljóða atkvæðum.


3 Menningarhús á Akureyri
2004020098
Bæjarfulltrúarnir Sigrún Björk Jakobsdóttir og Oddur Helgi Halldórsson, fulltrúar Akureyrarbæjar í dómnefnd, gerðu grein fyrir stöðu verkefnisins. Umræður.


4 Dvalarheimilið Hlíð - viðbygging
2003060092
Jakob Björnsson bæjarfulltrúi og formaður félagsmálaráðs og stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar gerði grein fyrir stöðu mála. Umræður.


Eftirtaldar fundargerðir fastanefnda eru lagðar fram til kynningar:
Bæjarráð dags. 12. og 26. ágúst og 2. september 2004
Umhverfisráð dags. 11. og 25. ágúst 2004
Framkvæmdaráð dags. 20. ágúst 2004
Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar dags. 27. ágúst 2004
Skólanefnd dags. 16. og 30. ágúst 2004
Íþrótta- og tómstundaráð dags. 10., 17. og 31. ágúst 2004
Félagsmálaráð dags. 23. ágúst 2004
Áfengis- og vímuvarnanefnd dags. 17. ágúst 2004
Náttúruverndarnefnd dags. 19. ágúst 2004
Jafnréttis- og fjölskyldunefnd dags. 24. ágúst 2004


Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra dags. 9. ágúst 2004 - meðfylgjandi til kynningar.


Fundi slitið.