Bæjarstjórn

3517. fundur 18. október 2022 kl. 16:00 - 16:19 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Andri Teitsson
  • Ásrún Ýr Gestsdóttir
  • Brynjólfur Ingvarsson
  • Gunnar Líndal Sigurðsson
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Sindri Kristjánsson
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Andri Teitsson L-lista sat fundinn í forföllum Huldu Elmu Eysteinsdóttur.
Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista sat fundinn í forföllum Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur.
Sindri Kristjánsson S-lista sat fundinn í forföllum Hildu Jönu Gísladóttur.

1.Dvergaholt 1 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2022100266Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. október 2022:

Erindi dagsett 6. október 2022 þar sem Brynja leigufélag ses. sækir um lóð nr. 1 við Dvergaholt með vísun í fyrirliggjandi viljayfirlýsingu félagsins og Akureyrarbæjar dagsetta 8. september 2022 um uppbyggingu íbúða 2022-2026. Jafnframt er óskað eftir heimild til að byggja allt að 12 íbúðir á lóðinni í stað 6 íbúða eins og gildandi deiliskipulag segir til um.

Í samræmi við viljayfirlýsingu Akureyrarbæjar og Brynju leigufélags ses. dagsetta 8. september 2022 um fjölgun íbúða fyrir öryrkja leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að hún samþykki að lóð nr. 1 við Dvergaholt verði úthlutað til félagsins án undangenginnar auglýsingar með vísan í ákvæði gr. 2.3 í Reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða. Varðandi fjölda íbúða samþykkir skipulagsráð að skilmálum lóðarinnar verði breytt á þann veg að hún verði ekki framvegis ætluð fyrir búsetukjarna og að á lóðinni verði heimilt að byggja allt að 12 íbúðir í stað 6 áður. Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er ekki talin þörf á að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að lóð nr. 1 við Dvergaholt verði úthlutað til Brynju leigufélags ses. í samræmi við viljayfirlýsingu um fjölgun íbúða fyrir öryrkja. Lóðarúthlutunin er í samræmi við heimild í 4. mgr. 2.3. gr. í reglum Akureyrarbæjar um úthlutun lóða.

2.Stofnstígur - breyting á deiliskipulagi Höepfnersbryggju

Málsnúmer 2022061610Vakta málsnúmer

Liður 15 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. október 2022:

Auglýsingu tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna göngu- og hjólastígs meðfram Leiruvegi lauk þann 9. október sl. Engar athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Eyjafjarðarsveit, Umhverfisstofnun og Norðurorku.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrir fundinum liggur einnig umsögn Vegagerðarinnar sem barst eftir afgreiðslu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höepfnersbryggju, með þeim breytingum að áningarstöðum er fækkað úr sjö í fjóra til samræmis við umsögn Vegagerðarinnar.

3.Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum (uppbygging innviða) - 144. mál

Málsnúmer 2022100108Vakta málsnúmer

Liður 11 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 12. október 2022:

Erindi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis dagsett 3. október sl. þar sem óskað er umsagnar Akureyrarbæjar um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (uppbygging innviða), 144. mál. Umsagnarfrestur er veittur til 17. október nk.

Skipulagsráð gagnrýnir þann skamma frest sem veittur er til umsagnar, eða tvær vikur. Um er að ræða stórt stefnumörkunarmál sem varðar uppbyggingu grunn innviða á landinu og þyrfti að leggja fyrir á fleiri nefndarstigum. Skipulagsráð leggur áherslu á að farið verði eftir þeirri stefnu stjórnvalda að við uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfis raforku verði meginkosturinn jarðstrengir og að stefnu stjórnvalda verði fylgt, sem segir að línulagnir í þéttbýli skuli vera lagðar í jörðu. Umræðu um málið er vísað til bæjarstjórnar.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti málið. Til máls tók Sindri Kristjánsson.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum eftirfarandi bókun:

Skipulagshlutverk sveitarfélaga er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar þeirra líkt og kveðið er á um í Stjórnarskrá Íslands. Bæjarstjórn tekur undir þá áherslu sem fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2020 um frumvarpið, en þar segir m.a.:

"Afar mikilvægt að fram komi skýr afstaða af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Alþingis að tillögur um raflínuskipulag og raflínunefnd fela í sé mjög afmarkað frávik frá meginreglum skipulagslaga. Jafnframt þarf að liggja skýrt fyrir að ekki eru fyrirhuguð frekari skref sem gætu falið í sér skerðingu á skipulagshlutverki sveitarfélaga."

Bæjarstjórn leggur jafnframt áherslu á að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu og endurnýjun flutningskerfis raforku um að línulagnir í þéttbýli skuli vera lagðar í jörðu verði áfram fylgt í hvívetna og að allar undantekningar frá þeirri meginreglu verði meðhöndlaðar sem meiriháttar frávik í ljósi sérstakra aðstæðna.

Þá hvetur bæjarstjórn til þess að sá hluti frumvarpsins, sem snýr að einföldun lagaumhverfis skipulagsmála og er ekki að finna í því nú ólíkt því þegar frumvarpið hefur áður verið lagt fram, líti dagsins ljós. Telur bæjarstjórn að mikil tækifæri séu til að einfalda málsmeðferð og stjórnsýslu skipulagsmála enn frekar öllum til hagsbóta.

4.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2022010392Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fer yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir voru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 6. og 10. október 2022
Bæjarráð 6. og 11. október 2022
Fræðslu- og lýðheilsuráð 3. október 2022
Skipulagsráð 12. október 2022
Umhverfis- og mannvirkjaráð 4. október 2022
Velferðarráð 11. október 2022

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 16:19.