Bæjarstjórn

3486. fundur 15. desember 2020 kl. 16:00 - 17:37 Fjarfundur
Nefndarmenn
 • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
 • Andri Teitsson
 • Hlynur Jóhannsson
 • Eva Hrund Einarsdóttir
 • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
 • Heimir Haraldsson
 • Hilda Jana Gísladóttir
 • Ingibjörg Ólöf Isaksen
 • Lára Halldóra Eiríksdóttir
 • Sóley Björk Stefánsdóttir
 • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
 • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
 • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista mætti í forföllum Gunnars Gíslasonar.

1.Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022

Málsnúmer 2018060500Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um breytingu á skipan varafulltrúa í svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar:

Tryggvi Már Ingvarsson verði varafulltrúi í stað Þórhalls Jónssonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022

Málsnúmer 2018060500Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga B-lista um breytingu á skipan varafulltrúa í velferðarráði:

Inger Rós Ólafsdóttir verði varafulltrúi í stað Petreu Óskar Sigurðardóttur.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Lánasjóður sveitarfélaga - lántaka 2020

Málsnúmer 2020010444Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 3. desember 2020:

Lagður fram lánssamningur frá Lánasjóði sveitarfélaga vegna láns til Akureyrarbæjar að fjárhæð kr. 800 milljónir til fjármögnunar á framkvæmdum og endurfjármögnun afborgana eldri lána.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Halla Margrét Tryggvadóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir lántökuna fyrir sitt leyti með fimm samhljóða atkvæðum og vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti málið.
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkir hér með, með 11 samhljóða atkvæðum, að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 800.000.000, með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánssamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.

Bæjarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, verðbótum auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjur og framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum sveitarfélagsins og endurfjármögnun afborgana eldri lána sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Akureyrarbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

4.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2020 - viðauki

Málsnúmer 2019020276Vakta málsnúmer

Liður 11 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Lagður fram viðauki 17.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir verkefnastjóri á fjársýslusviði sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir viðauka 17 með fimm samhljóða atkvæðum og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti efni viðaukans.
Bæjarstjórn staðfestir ákvörðun bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Gatnagerðargjöld 2021

Málsnúmer 2020120094Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Liður 25 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. nóvember 2020:

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá gatnagerðargjalda sem taka á gildi 1. janúar 2021. Í breytingunni felst að í gr. 4.3 hækkar hlutfall gatnagerðargjalds fyrir fjölbýlishús úr 5% í 7,5%.

Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við tillögu að breytingu á gjaldskrá og vísar málinu til afgreiðslu bæjarráðs.

Þórhallur Jónsson bæjarfulltrúi, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að leggja til við bæjarstjórn að breyting verði gerð á grein 4.3 í gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að hlutfall gatnagerðargjalds fyrir fjölbýlishús hækki úr 5% í 7,5%.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum tillögu skipulagsráðs og bæjarráðs að breytingu á grein 4.3 í gjaldskrá gatnagerðargjalda þannig að hlutfall gatnagerðargjalds fyrir fjölbýlishús hækki úr 5% í 7,5%.

6.Gjaldskrár Akureyrarbæjar 2021

Málsnúmer 2020120121Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Lögð fram tillaga að gjaldskrám Akureyrarbæjar 2021.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Kristín Baldvinsdóttir verkefnastjóri á fjársýslusviði og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa gjaldskrám Akureyrarbæjar 2021, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum, til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti gjaldskrána.
Bæjarstjórn samþykkir framlagðar gjaldskrár með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Álagning gjalda - útsvar 2021

Málsnúmer 2020120122Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Lögð fram tillaga um útsvarsprósentu í staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2021 í Akureyrarbæ.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Kristín Baldvinsdóttir verkefnastjóri á fjársýslusviði og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að útsvar verði 14,52% á árinu 2021 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

8.Álagning gjalda - fasteignagjöld 2021

Málsnúmer 2020120124Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Lögð fram tillaga að álagningu fasteignagjalda á árinu 2021.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Kristín Baldvinsdóttir verkefnastjóri á fjársýslusviði og bæjarfulltrúarnir Andri Teitsson, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa tillögu um álagningu fasteignagjalda 2021 til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu um álagningu fasteignagjalda 2021 með 11 samhljóða atkvæðum.

9.Álagning gjalda - fasteignagjöld 2021 - reglur um afslátt

Málsnúmer 2020120124Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Lögð fram tillaga að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2021.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni, með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum, til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti reglurnar.

Auk hans tók Hilda Jana Gísladóttir til máls.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2021 með 11 samhljóða atkvæðum.

10.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2021-2024

Málsnúmer 2020030454Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 10. desember 2020:

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir verkefnastjóri á fjársýslusviði sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun 2021-2024 til bæjarstjórnar til síðari umræðu og afgreiðslu.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti áætlunina.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Hilda Jana Gísladóttir, Eva Hrund Einarsdóttir og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.
Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A- og B-hluti

Samstæðureikningur Sveitarsjóðs A-hluti

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2021

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2022

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2023

Rekstraryfirlit samstæðureiknings 2024

Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar 2021-2024


A-hluta stofnanir:

Aðalsjóður

Eignasjóður gatna o.fl.

Fasteignir Akureyrarbæjar

Framkvæmdamiðstöð


B-hluta stofnanir:

Bifreiðastæðasjóður Akureyrar

Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar

Félagslegar íbúðir

Gjafasjóður ÖA

Hafnasamlag Norðurlands

Hlíðarfjall

Norðurorka hf.

Strætisvagnar Akureyrar


Aðalsjóður:

Aðalsjóður með rekstrarniðurstöðu 2021 að fjárhæð -2.138.039 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 2021 að fjárhæð 14.937.472 þús. kr. borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


A-hluta stofnanir:

I. Eignasjóður gatna, rekstrarniðurstaða 2021 að fjárhæð 45.895 þús. kr.

II. Fasteignir Akureyrarbæjar, rekstrarniðurstaða 2021 að fjárhæð 747.090 þús. kr.

III. Framkvæmdamiðstöð, rekstrarniðurstaða 2021 að fjárhæð -4.853 þús. kr.

Allir þessir liðir A-hluta stofnana bornir upp í einu lagi og samþykktir með 11 samhljóða atkvæðum.


Samstæðureikningur:

Samstæðureikningur A-hluta með rekstrarniðurstöðu 2021 að fjárhæð

-1.349.907 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 37.373.837 þús. kr. borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


B-hluta stofnanir:

Nöfn stofnana og rekstrarniðurstöður 2021 eru:

I. Bifreiðastæðasjóður Akureyrar, rekstrarniðurstaða -4.641 þús. kr.

II. Byggingarsjóður Náttúrufræðistofnunar, rekstrarniðurstaða 123 þús. kr.

III. Félagslegar íbúðir, rekstrarniðurstaða -9.191 þús. kr.

IV. Gjafasjóður ÖA, rekstrarniðurstaða 0 kr.

V. Hafnasamlag Norðurlands, rekstrarniðurstaða -17.415 þús. kr.

VI. Hlíðarfjall, rekstarniðurstaða -227 þús. kr.

VII. Norðurorka hf., rekstrarniðurstaða 363.162 þús. kr.

VIII. Strætisvagnar Akureyrar, rekstrarniðurstaða 239 þús. kr.

Áætlanir allra þessara B-hluta stofnana bornar upp í einu lagi og samþykktar með 11 samhljóða atkvæðum.


Samstæðureikningur Akureyrarbæjar:

Samstæðureikningur Akureyrarbæjar A- og B-hluti með rekstrarniðurstöðu 2021 að fjárhæð -1.111.001 þús. kr. og niðurstöðu á efnahagsreikningi 2021 að fjárhæð 61.103.714 þús. kr. borinn upp til afgreiðslu og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


Framkvæmdayfirlit Akureyrarbæjar 2021:

Aðalsjóður 1.820.000 þús. kr.

A-hluti 2.427.000 þús. kr.

B-hluti 1.811.850.000 þús. kr.

Samantekinn A- og B-hluti 4.238.850 þús. kr.

Framkvæmdayfirlitið borið upp og samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.


Eftirfarandi tillögur að bókunum vegna fjárhagsáætlunar 2021 lagðar fram:


a) Starfsáætlanir

Bæjarstjórn felur nefndum og ráðum að yfirfara starfsáætlanir í samráði við stjórnendur og gera á þeim þær breytingar sem nauðsynlegar eru með tilliti til fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar. Bæjarstjórn mun svo taka starfsáætlanirnar til umræðu.


a) liður samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


b) Kaup á vörum og þjónustu

Nýta skal kosti almennra útboða við framkvæmdir og vöru- og þjónustukaup þar sem því verður við komið. Sérstök áhersla verður lögð á að ná ítrustu hagkvæmni í innkaupum og meta skal endurnýjunarþörf búnaðar sérstaklega. Gerðir skulu þjónustusamningar við félög, fyrirtæki og stofnanir á þeim sviðum sem hagkvæmni slíkra samninga getur notið sín.


b) liður samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


c) Áherslur við framkvæmd fjárhagsáætlunar 2021

Bæjarstjórn ítrekar tilmæli til stjórnenda bæjarins um að gæta ítrasta aðhalds í öllum rekstri bæjarins á árinu 2021. Mikilvægt er að allri yfirvinnu sé haldið í lágmarki og þeim eindregnu tilmælum er beint til stjórnenda að meta vandlega yfirvinnuþörf og leita leiða til að draga úr henni. Jafnframt skulu stjórnendur meta sérstaklega þörf á nýráðningum og möguleika á hagræðingu með breyttu verkferli þegar störf losna. Allar slíkar breytingar þarf að leggja fyrir viðkomandi nefnd og bæjarráð.


c) liður samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.


Bæjarstjórn lítur svo á að með afgreiðslu frumvarpsins hafi verið afgreidd erindi og tillögur um fjárveitingar sem borist hafa bæjarráði og vísað hefur verið til gerðar fjárhagsáætlunar.


Forseti lýsir því yfir að 10. liður dagskrárinnar ásamt 7. lið í fundargerð bæjarráðs frá 10. desember 2020 séu þar með afgreiddir.


Hlynur Jóhannsson M-lista og Þórhallur Jónsson D-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Í kjarasamningum vegna styttingar vinnuvikunnar hjá leikskólakennurum er tekið fram að ekki eigi að koma til kostnaðarauka hjá sveitarfélögum heldur eigi að hagræða á móti styttingunni án þjónustuskerðingar. Nægur tími hefur verið til þess að fara í þessa vinnu og hafa til að mynda sveitarfélög eins og Hafnarfjörður og Mosfellsbær lokið þessari vinnu hjá sér. Nú þegar Akureyrarbær er að leita allra leiða til að spara þá er það óskiljanlegt að bæjarstjórn skuli ráðstafa 10 milljónum í það að gefa frest til þessarar hagræðingar í þrjá mánuði. Bæði er þetta vont fordæmi og afar vond ráðstöfun á fjárheimildum bæjarsjóðs.

11.Holtahverfi - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2020100222Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. desember 2020:

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir íbúðarsvæði ÍB17 og ÍB18, til samræmis við tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið sem hefur verið í vinnslu. Bæjarstjórn samþykkti sambærilega tillögu sem óverulega breytingu á fundi 20. október sl. en Skipulagsstofnun féllst ekki á það og að fara þyrfti með breytinguna sem verulega breytingu á aðalskipulagi. Var tillagan kynnt með auglýsingu sem birtist 25. nóvember 2020 og felur í sér breytingu á ákvæðum greinargerðar varðandi áætlaða skiptingu íbúðategunda, hæð húsa og fjölda íbúða. Liggja nú fyrir umsagnir frá Hörgarsveit og Minjastofnun auk þriggja athugasemdabréfa frá íbúum á svæðinu.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða tillögu að deiliskipulagi svæðisins. Athugasemdir og umsagnir sem kunna að berast á næstu dögum verða lagðar fyrir á fundi bæjarstjórnar.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að auglýst verði skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 breyting á aðalskipulagi Akureyrarbæjar fyrir íbúðarsvæði ÍB17 og ÍB18 til samræmis við og samhliða tillögu að deiliskipulagi svæðisins.

12.Holtahverfi norður - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. desember 2020:

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi Holtahverfis norður sem nær til svæðis suðvestan og norðaustan við Krossanesbraut, frá Undirhlíð og norður að Hlíðarbraut. Drög að tillögu voru kynnt fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í september sl. og er tillagan nú lögð fram með nokkrum breytingum til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem bárust. Deiliskipulagið felur í sér að breyta þarf afmörkun deiliskipulags Sandgerðisbótar og deiliskipulagi Stórholts-Lyngholts auk þess sem deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts og Einholts 20-26 falla úr gildi.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista bar upp vanhæfi sitt í málinu og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umræður og afgreiðslu málsins.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulag Holtahverfis verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins og breytingum á núgildandi deiliskipulagsáætlunum sem nýtt deiliskipulag nær til. Gera þarf minniháttar lagfæringar á gögnum áður en þau verða auglýst.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista bar upp vanhæfi sitt í málinu og var það samþykkt. Hann vék af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 samhljóða atkvæðum að deiliskipulag Holtahverfis verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins og breytingum á núgildandi deiliskipulagsáætlunum sem nýtt deiliskipulag nær til.

13.Tjaldsvæðissreitur - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2020090736Vakta málsnúmer

Liður 3 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. desember 2020:

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem nær til tjaldsvæðisreits við Þingvallastræti og lóðar nr. 20 við Skarðshlíð. Felur breytingin í sér að svæði milli Byggðavegar, Þingvallastrætis, Þórunnarstrætis og Hrafnagilsstrætis er skilgreint sem miðsvæði þar sem m.a. verður gert ráð fyrir byggingu heilsugæslu auk íbúðabyggðar til viðbótar við starfsemi sem fyrir er á svæðinu. Þá er gerð breyting á ákvæðum íbúðarsvæðis merkt ÍB19 sem felur í sér að heimilt verður að byggja heilsugæslu á lóð nr. 20 við Skarðshlíð auk íbúða á efri hæðum.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Þórhallur Jónsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Halla Björk Einarsdóttir og Hilda Jana Gísladóttir.
Bæjarstórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem nær til tjaldsvæðisreits við Þingvallastræti og lóðar nr. 20 við Skarðshlíð verði kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

14.Gilsbakkavegur 15 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018110149Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. desember 2020:

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar sem nær til lóðarinnar Gilsbakkavegur 15 og svæðis sunnan við hana. Málið var áður á dagskrá skipulagsráðs þann 25. nóvember sl. Til viðbótar við athugasemd sem barst á kynningartíma og tillögu að umsögn um efni athugasemdar er nú lagt fram nýtt erindi frá umsækjanda, dagsett 3. desember 2020, auk nýrra mynda sem sýna fyrirhugaðar breytingar. Borist hefur bréf dagsett 4. desember 2020 þar sem innkomin athugasemd er dregin til baka.

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að sjá um gildistöku hennar.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiðir atkvæði gegn tillögu að breytingu deiliskipulags og óskar bókað að umrædd stækkun á Gilsbakkavegi 15 sé of mikil og ef þörf er á lyftu ætti frekar að skoða hvort koma megi henni fyrir norðan á húsinu eða láta nægja að byggja lyftu og ekki annað í skotinu sunnan á húsinu. Byggingamagn á reitnum er nú þegar mjög mikið og ástæðulaust að auka það enn frekar, meðal annars vegna þess að slíkt gæti verið fordæmisgefandi. Auk þess ætti Akureyrarbær ekki að taka á sig kostnað við að færa til götu vegna byggingarframkvæmda einkaaðila og mikilvægt er að teppa ekki umferð að heilsugæslunni á meðan hún er enn á núverandi stað.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögur skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Sóley Björk Stefánsdóttir, Hlynur Jóhannsson og Þórhallur Jónsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir breytingu á deiliskipulagi miðbæjar sem nær til lóðarinnar Gilsbakkavegur 15 og svæðis sunnan við hana. Jafnframt felur bæjarstjórn sviðsstjóra skipulagssviðs að sjá um gildistöku hennar.

Sóley Björk Stefánsdóttir greiðir atkvæði á móti og leggur fram eftirfarandi bókun:

Ég tel að umrædd stækkun á Gilsbakkavegi 15 sé of mikil og ef þörf er á lyftu ætti frekar að skoða hvort koma megi henni fyrir norðan á húsinu eða láta nægja að byggja lyftu og ekki annað í skotinu sunnan á húsinu. Byggingamagn á reitnum er nú þegar mjög mikið og ástæðulaust að auka það enn frekar, meðal annars vegna þess að slíkt gæti verið fordæmisgefandi. Auk þess tel ég alls ekki að Akureyrarbær eigi að taka á sig svo stóran hluta kostnaðar við framkvæmdina. Að mínu mati er mikilvægt að framkvæmdirnar fari ekki af stað fyrr en heilsugæslan hefur verið flutt á nýjan stað.

15.Bæjarstjórn - áætlun um fundi 2021

Málsnúmer 2017050158Vakta málsnúmer

Lögð fram áætlun um fundi bæjarstjórnar árið 2021.
Bæjarstjórn samþykkir fundaáætlunina með 11 samhljóða atkvæðum.

16.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Í lok fundar tók forseti til máls og óskaði bæjarfulltrúum, starfsmönnum bæjarins, fjölskyldum þeirra og Akureyringum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Fyrir hönd bæjarfulltrúa óskaði Guðmundur Baldvin Guðmundsson forseta gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakkaði samstarfið á árinu sem er að líða.

Eftirtaldar fundargerðir voru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 3. og 10.desember 2020
Bæjarráð 3. og 10.desember 2020
Frístundaráð 2. desember 2020
Fræðsluráð 7. desember 2020
Skipulagsráð 9. desember 2020
Stjórn Akureyrarstofu 3. desember 2020
Umhverfis- og mannvirkjaráð 27. nóvember 2020
Velferðarráð 2. desember 2020

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:37.