Bæjarráð

3222. fundur 29. apríl 2010
Bæjarráð - Fundargerð
3222. fundur
29. apríl 2010   kl. 09:00 - 11:16
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Sigrún Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Oddur Helgi Halldórsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason áheyrnarfulltrúi
Hermann Jón Tómasson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Heiða Karlsdóttir fundarritari
1.          Samtök iðnaðarins - upplýsingar um fjölda íbúða á byggingarstigi 4, 5 og 6
2010010142
Á fundi sínum þann 21. janúar sl. fól bæjarráð skipulagsstjóra að taka saman upplýsingar sem Samtök iðnaðarins óskuðu eftir um hve margar íbúðir séu skráðar á byggingarstigi 4, 5 og 6 samkvæmt ÍST 51 í fjölbýlishúsum, raðhúsum, parhúsum og einbýlishúsum, sundurliðað eftir húsgerðum og hverfum. Einnig var óskað eftir upplýsingum, ef til væru, um nýjar íbúðir á byggingarstigi 7 sem væru ónýttar og til sölu.
Svar skipulagsstjóra var lagt fram til kynningar á fundi bæjarráðs þann 15. apríl sl. en umræðu frestað til næsta fundar.
Pétu Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri mætti á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðuna á íbúðamarkaði.
Samkvæmt upplýsingum frá skipulagsdeild um stöðuna á byggingarframkvæmdum um síðustu áramót eru 272 íbúðir á byggingarstigi 2 (framkvæmdir hafnar), 36 íbúðir eru á byggingarstigi 3 (burðarvirki reist), 52 íbúðir á byggingarstigi 4 (fokhelt) og 18 íbúðir eru á byggingarstigi 5 (tilbúið undir tréverk).
Þetta gerir samtals 378 íbúðir sem eru á ofangreindum byggingarstigum þ.e. byggingar sem ekki hafa verið teknar í notkun.2.          Flokkun Eyjafjörður ehf - aðalfundur 2010
2010040060
Erindi dags. 21. apríl 2010 frá Eiði Guðmundssyni framkvæmdastjóra Flokkunar Eyjafjörður ehf þar sem boðað er til aðalfundar félagsins miðvikudaginn 5. maí nk.  kl. 15:00 að Skipagötu 14, Akureyri, 5. hæð.
Bæjarráð felur fjármálastjóra Dan Jens Brynjarssyni að fara með umboð Akureyrarbæjar á fundinum.


3.          Almannaheillanefnd
2008100088
Lögð fram til kynningar fundargerð almannaheillanefndar dags. 23. apríl 2010.


4.          Sveitarstjórnarkosningar 29. maí 2010
2010030124
Lagt fram erindi dags. 19. apríl 2010 frá formanni kjörstjórnar Akureyrar vegna komandi sveitarstjórnarkosninga þann 29. maí nk. Þar kemur fram tillaga kjörstjórnar um að Akureyrarkaupstað verði skipt í tólf kjördeildir, tíu á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Gerð er tillaga um að á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Grunnskólanum í Hrísey og að í Grímsey verði kjörstaður í félagsheimilinu Múla. Lagt er til að tveir kjörklefar verði í hverri kjördeild á Akureyri en einn í Hrísey og í Grímsey.
Þá hefur kjörstjórn ennfremur ákveðið að leggja til við bæjarráð að kjörfundur standi frá klukkan 09:00 til 22:00 á Akureyri, en frá klukkan 10:00 til 18:00 í Hrísey og í Grímsey.
Óskar kjörstjórn eftir því við bæjarráð að ofangreindar tillögur verði samþykktar.
Bæjarráð samþykkir tillögur kjörstjórnar Akureyrar.


5.          Listasafnið á Akureyri - endurnýjun þjónustusamnings
2010010121
4. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 15. apríl 2010:
Upphaflega var ráðgert að framlengja fyrri samning dags. 5. júlí 2005 með viðauka, en í ljósi þess að breytingar eru gerðar á fjárhæðum og gildistíma varð að samkomulagi að vinna drög að nýjum samningi. Jafnframt var lögð fram til umræðu úttekt á framkvæmd síðasta samnings og kom Karl Guðmundsson bæjarritari á fundinn undir þeim lið.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.
Bæjarráð samþykkir samninginn.


6.          Samgöngu- og sveitarsjórnarráðuneytið - uppbygging hjúkrunarrýma
2009070007
Lagt fram til kynningar ljósrit af bréfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til bæjarstjóra Mosfellsbæjar dags. 20. apríl 2010 varðandi áætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarrýma í samstarfi við níu sveitarfélög.


7.          Ríkisútvarpið
2008120007
Rætt um stöðu og horfur á starfsemi Ríkisútvarpsins á Akureyri.
Bæjarráð Akureyrar mótmælir harðlega niðurskurði á starfsemi  Ríkisútvarpsins utan höfuðborgarsvæðisins.  Með endurskipulagningu sem nú er í undirbúningi er markvisst verið að  eyðileggja alla aðstöðu til dagskrárgerðar og útsendingar útvarpsefnis frá landsbyggðinni. Ríkisútvarpið  er útvarp allra landsmanna og er fjármagnað með nefskatti sem hlýtur að leggja þær skyldur á herðar stofnuninni að  tryggja eðlilegt jafnvægi í fréttaflutningi af landinu öllu. Svæðisstöðvarnar gegna jafnframt mikilvægu hlutverki í að bæta upplýsingagjöf og efla samkennd íbúa á þeim svæðum sem þær þjóna.  
Bæjarráð vekur athygli þingmanna á gölluðum lögum um Ríkisútvarpið þar sem eina ákvæðið um starfsemi þess á landsbyggðinni er:  ,,Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.?  Bæjarráð gagnrýnir harðlega hið þrönga sjónarhorn stjórnar og yfirmanna Ríkisútvarpsins sem birtist í fyrirhuguðum aðgerðum og ítrekar fyrri bókanir sínar í þessu máli.
Bæjarráð skorar á stjórn RÚV og menntamálaráðherra að endurskoða þessa ákvörðun áður en hún veldur óbætanlegu tjóni fyrir mannlíf á landsbyggðinni.


8.          Norðurskel ehf - starfsleyfi
2009110119
Lögð fram til kynningar ákvörðun Umhverfisstofnunar vegna útgáfu starfsleyfis fyrir Norðurskel ehf dags. 21. apríl 2010. Starfsleyfið gildir til 1. maí 2022.


9.          Viðhaldsátak  2010-2011
2010040075
Lagt fram minnisblað bæjarstjóra dags. 28. apríl 2010 ásamt minnisblaði frá Fasteignum Akureyrarbæjar.
Bæjarráð samþykkir að efnt verði til sérstaks átaks í viðhaldi mannvirkja í eigu sveitarfélagsins.  Mikilvægt er að hafist verði handa við viðhald stúku á Akureyrarvelli samkvæmt fyrirliggjandi áætlun og að jafnframt verði ráðist í viðgerðir á girðingu Lystigarðsins.  Að öðru leyti er stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og framkvæmdaráði falin umsjón með átakinu.  
Allt að 200 milljónum króna verði veitt til verkefnisins á þremur árum, þar af verði 50 milljónum króna varið til þess á þessu ári og er upphæðinni vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.


10.          Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 - síðari umræða
2009100098
6. liður í fundargerð bæjarstjórnar dags. 27. apríl 2010:
Fram kom tillaga um að vísa ársreikningnum til bæjarráðs og síðari umræðu í bæjarstjórn og var hún samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.
Bæjarráð vísar ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 til síðari umræðu í bæjarstjórn.


11.          SÁÁ - göngudeild á Akureyri
2010010194
Bæjarstjóri fór yfir stöðu málsins.
Lagt fram minnisblað bæjarstjóra dags. 28. apríl 2010.
Bæjarráð lítur svo á að rekstur SÁÁ eigi skilyrðislaust að vera fjármagnaður af fjárlögum, en í ljósi aðstæðna þá samþykkir bæjarráð að greiða allt að 3,3 milljónir króna til reksturs göngudeildar SÁÁ á Akureyri á árinu 2010 og 5 milljónir króna á árinu 2011 að því tilskyldu að rekstri göngudeildarinnar verði haldið áfram með sambærilegum hætti og verið hefur.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samningi um málið. Kostnaði vegna þessa, 3,3 milljónum króna, er vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.Fundi slitið.