Bæjarráð

3207. fundur 07. janúar 2010
Bæjarráð - Fundargerð
3207. fundur
7. janúar 2010   kl. 09:00 - 10:35
Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi


Nefndarmenn Starfsmenn
Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður
Elín Margrét Hallgrímsdóttir
Sigrún Stefánsdóttir
Baldvin Halldór Sigurðsson
Víðir Benediktsson
Jóhannes Gunnar Bjarnason áheyrnarfulltrúi
Hermann Jón Tómasson
Karl Guðmundsson
Dan Jens Brynjarsson
Jón Bragi Gunnarsson
Kolbrún Magnúsdóttir fundarritari
Í upphafi fundar óskaði formaður bæjarráðs bæjarráðsmönnum og starfsmönnum Akureyrarbæjar gleðilegs árs og farsældar.

1.          Oddeyri - austan Glerárgötu sunnan Glerár
2008080096
2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 12. desember 2009:
Skipulagsstjóri lagði fram á ný greinargerð frá vinnuhópi sem hafði það hlutverk að rýna stöðu Oddeyrar austan Glerárgötu og sunnan Glerár m.t.t. skipulags og byggðaþróunar til framtíðar.
Skipulagsnefnd þakkar vinnuhópi um málefni Oddeyrar fyrir framlagða greinargerð. Greinargerðin dregur saman á einn stað stöðu mála á svæðinu og gerir jafnframt grein fyrir sjónarmiðum hinna ýmsu hagsmunaaðila sem starfsemi hafa á svæðinu auk sjónarmiðs hverfisnefndar Oddeyrar fyrir hönd íbúa.
Skipulagsnefnd óskar eftir að fá að kynna og ræða efnisatriði greinargerðarinnar í bæjarráði við fyrsta tækifæri.
Á fundinn mættu þeir Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri og Jón Ingi Cæsarsson formaður skipulagsnefndar og fóru yfir greinargerð vinnuhópsins.
Bæjarráð þakkar þeim Pétri Bolla og Jóni Inga yfirferðina  og frestar afgreiðslu til næsta fundar.


2.          Almannaheillanefnd
2008100088
Lögð fram til kynningar fundargerð almannaheillanefndar dags. 18. desember 2009.
Bæjarráð þakkar fulltrúum í almannaheillanefnd fyrir vel unnin störf á sl. ári.


3.          Sigurborg Ósk Haraldsdóttir - styrkbeiðni
2009120099
Erindi dags. 16. desember 2009 þar sem Sigurborg Ósk Haraldsdóttir óskar eftir styrk vegna B.S. verkefnis sem hún vinnur að hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið heitir: Greining og endurhönnun á Sjallareitnum.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

4.          Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands á Akureyri 2010
2009120120
Erindi dags. 21. desember 2009 frá Guðmundi Víði Gunnlaugssyni formanni UFA og Sigurði H. Kristjánssyni formanni UMSE þar sem þeir óska eftir stuðningi Akureyrarbæjar við að halda Unglingalandsmót UMFÍ næsta sumar.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju og stuðningi við umsókn UFA og UMSE um að halda Unglingalandsmót UMFÍ á  Akureyri um komandi verslunarmannahelgi.


5.          Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi - styrkbeiðni 2010
2010010001
Tölvupóstur dags. 30. desember 2009 frá Guðrúnu Þórsdóttur talskonu Aflsins þar sem hún óskar eftir að gerður verði samningur við samtökin um árlegan styrk frá Akureyrarbæ til starfseminnar.
Ársskýrsla Aflsins 2008 lögð fram.
Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálaráðs til umfjöllunar og afgreiðslu í tengslum við aðgerðaráætlun gegn  ofbeldi sem nú er í vinnslu.


6.          Grímsey - ályktun íbúafundar 19. desember 2009
2009100011
Lagður fram undirskriftarlisti með nöfnum 56 Grímseyinga um ályktun sem send var til samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar. Ályktunin er svohljóðandi:
Við Grímseyingar mótmælum harðlega fyrirhugaðri fækkun ferjusiglinga til okkar, úr þremur ferðum á viku niður í tvær. Þeir aðilar hér sem selja fisk á markað sjá fram á stórlækkað fiskverð vegna þess að fiskurinn kemst seinna á markað frá veiðum, eða allt upp í fimm daga gamall þegar lengst er á milli ferða. Ferjan er okkar þjóðvegur 1 og þykir okkur það lágmarks skilyrði fyrir búsetu hér að ferðirnar verði áfram þrjár á viku eins og verið hefur undanfarin ár.
Bæjarráð tekur heils hugar undir mótmæli Grímseyinga og lýsir yfir áhyggjum af áhrifum fyrirhugaðra breytinga á atvinnustarfsemi í eyjunni.


7.          Þeistareykir - sala á hlut Norðurorku hf
2010010089
Bæjarstjóri Hermann Jón Tómasson kynnti kaupsamning dags. 30. desember 2009 um kaup Landsvirkjunar á hlut Norðurorku hf í Þeistareykjum.


Fundi slitið.